28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

76. mál, Skógrækt ríkisins

Fyrirspyrjandi (Magdalena Margrét Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans. Áhugi almennings á skógrækt hefur farið mjög vaxandi undanfarin ár. Því er mikils um vert að sá áhugi verði virkjaður en kunnáttu er víða ábótavant úti um land eins og fram kemur í grg. erindreka Skógræktarfélags Íslands eftir ferðir hans um landið s.l. tvö sumur. En þar segir Brynjólfur Jónsson sem starfaði sem erindreki Skógræktarfélags Íslands tvo mánuði hvort sumar, með leyfi herra forseta:

„Að fenginni reynslu í fyrra og í sumar er hvað athygli verðast hve áhugi almennings er mikill fyrir trjárækt og skógrækt í víðtækri merkingu. Að sama skapi kemur fram hin dapurlega staðreynd að þekkingarskortur er í sama hlutfalli við áhugann.“

Því er nauðsyn að sú þekking sem til er í landinu verði nýtt víðar en nú er því þar sem áhugi og þekking fara saman er mikilla framfara að vænta.