23.02.1987
Efri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3299 í B-deild Alþingistíðinda. (2997)

359. mál, stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég á sæti í þeirri nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar og mun því ekki verða langorð við 1. umr. þessa frv. um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands.

Það er alveg ljóst að sú lausn á vanda Útvegsbanka Íslands sem er að finna í þessu frv. er hallærislausn og nokkurs konar þrautalending í ósamkomulagi stjórnarflokkanna um það hvernig leysa skuli vanda bankans. Það lá ljóst fyrir í haust að annar stjórnarflokkurinn vildi fara þá leið í málum Útvegsbankans að leggja hann saman við Iðnaðarbanka og Verslunarbanka í hlutafélagsbanka, hina svonefndu „fyrstu leið“ Seðlabanka, á meðan hinn stjórnarflokkurinn vildi sameina Búnaðarbanka og Útvegsbanka. Ekki náðist samkomulag um þessar leiðir og ýmsir annmarkar komu í ljós á því að fyrsta leiðin gæti gengið upp. Það er alveg ljóst að sú leið sem farin er í því frv. sem hér liggur nú fyrir er nokkurs konar millileið, þrautalending í því ósamkomulagi sem er á milli stjórnarflokkanna í þessum málum.

Mér finnst það fyrirkomulag sem lagt er til í þessu frv. á skipan mála vegna Útvegsbanka Íslands vera óttalegt samkrull á milli ríkis og einkaaðila. Við höfum því miður ekki góða reynslu af slíku samkrulli ríkisins og einkaaðila. Annaðhvort hefur ríkið þá verið nokkurs konar vátryggingarfélag fyrir einkarekstur, þegar allt siglir í strand og töp verða hefur ríkið oftar en ekki greitt, setið uppi með skuldabagga og tap, eða þá, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., að ábyrgð ríkisins á hinum nýja banka sé takmörkuð. Það leiðir hins vegar af sér, eins og síðasti ræðumaður kom inn á, að staða hins nýja banka er margfalt veikari en væri hann ríkisbanki.

Ég hef þetta að athuga við það fyrirkomulag sem hér er lagt til. Jafnframt hef ég það við það að athuga að í þessu frv. er gert ráð fyrir að erlendir aðilar geti fjármagnað hinn nýja banka að 1/4 til. Ég held að við verðum að fara ákaflega varlega í að hleypa hér inn erlendu fjármagni.

Fyrst er til þess að líta að hér á landi eru engin lög í gildi um hvernig haga skuli málum í því efni. Þess vegna er töluvert varhugavert að taka þetta inn í frv. án þess að heildarlöggjöf um meðferð erlends fjármagns sé fyrir hendi.

Í öðru lagi hvað varðar þetta erlenda fjármagn þá vil ég vara við áhrifum þess á íslenskt hagkerfi.

Íslenskt hagkerfi er lítið og þar af leiðandi er það ákaflega viðkvæmt fyrir þeim sveiflum sem geta orðið vegna erlends fjármagns, fjármagns sem við höfum engin yfirráð yfir og sem eigendurnir geta dregið burt eða aukið við og þar af leiðandi valdið straumkasti í hagkerfinu sem við eigum erfitt með að stjórna. Þetta getur orðið okkur erfitt og dýrkeypt.

Í þriðja lagi, sem er ekki síður mikilvægt, ber náttúrlega að varðveita vel fjárhagslegt sjálfstæði okkar sem þjóðar. Ég held reyndar að það sé ekkert í hættu þótt hér sé gerð einhver smuga hvað varðar erlent fjármagn, en það er þó hlutur sem við verðum ávallt að hafa í huga og gæta vel að.

Hitt er svo annað mál, eftir það hringl sem hefur verið vegna Útvegsbankans hjá stjórnvöldum, hvort nokkur erlendur aðili hafi traust á þessu fyrirtæki og vilji leggja fé sinn í þennan banka. Ég hef ekki trú á því þannig að ég held að hér sé e.t.v. ekki nein bráðahætta á ferðinni.

Það á að stofna hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands. Eftir því sem ég best veit, og ekki var neinar upplýsingar um það að hafa í máli ráðherra áðan þegar hann mælti fyrir frv., hefur engin könnun verið gerð á því hvort einhverjir innlendir aðilar hafi hug á því að kaupa hlutabréf í Útvegsbanka Íslands. Ég spyr hæstv. ráðh. að því hvort svo sé, hvort hann viti um einhverja aðila sem hafa hug á því að gerast hluthafar í þessum nýja banka. Útvegsbankinn er sennilega ekki mjög fýsilegur fjármagnskostur fyrir fjármagnseigendur eftir það sem á undan er gengið. Það þýðir vitaskuld lítið að tala um stofnun hlutafélags ef engir eru hluthafarnir. Það er grundvallarspurning sem ég held að verði að svara hér.

Leysa verður vanda Útvegsbanka Íslands. Um það er engin spurning. Við Kvennalistakonur höfum ávallt verið á því að heppilegast sé að sameina hann Búnaðarbanka, það sé langbesti kosturinn, að hinn nýi banki yrði alfarið ríkisbanki með öllum þeim réttindum og kostum sem slíkum banka fylgja. Og hvað varðar sérstakar þarfir atvinnulífsins, sem stundum þarf á töluverðu fjármagni að halda, hefði hinn nýi banki getað tekið upp nánara samstarf við Landsbanka en nú er á milli bankanna. En þeirri lausn sem er að finna í frv., sem hér er til umræðu, höfnum við.