24.02.1987
Sameinað þing: 54. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3343 í B-deild Alþingistíðinda. (3032)

349. mál, dýralæknisembætti

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 619 spyrst hv. 4. þm. Norðurl. e. fyrir um veitingu dýralæknisembætta. Í fyrsta lagi: „Eftir hvaða reglum velur landbrh. úr hópi umsækjenda um embætti héraðsdýralækna?" Í öðru lagi: „Hverju sætir að svonefnd „starfsaldursregla“ Dýralæknafélags Íslands hefur margsinnis verið sniðgengin við veitingu embætta héraðsdýralækna?"

Að sjálfsögðu fer landbrh. eftir þeim lögum sem sett eru um héraðsdýralækna. Í 1. gr. laga nr. 71/1981, um dýralækna, segir:

„Þeir einir eru í lögum taldir dýralæknar sem lokið hafa prófum úr dýralæknaháskóla sem viðurkenndur er af íslenskum stjórnvöldum og sem hlotið hafa lækningaleyfi hjá landbrn. með þeim skilyrðum og þeim skuldbindingum sem sett kunna að verða í því efni á hverjum tíma og að fengnum meðmælum yfirdýralæknis.“

Allar umsóknir um laus dýralæknisumdæmi eru sendar til umsagnar yfirdýralæknis. Þegar umsækjendur eru fleiri en einn geta mismunandi aðstæður, jafnvel staðbundnar, komið til mats og álita áður en tillaga er gerð til forseta um það hver skuli skipaður úr hópi þeirra sem teljast hæfir til að gegna starfinu. Að jafnaði er litið til starfsaldurs við veitingu dýralæknaembætta þó hann einn sé ekki látinn ráða niðurstöðum. Lög geyma engin fyrirmæli um að svonefnd starfsaldursregla stöðuveitinganefndar Dýralæknafélags Íslands skuli ráða niðurstöðu um hverjum er veitt staða dýralæknis. Þær reglur munu hafa verið samdar algerlega án nokkurs samráðs við landbrn. Mér er tjáð að slík röðun frá Dýralæknafélaginu muni aldrei hafa legið fyrir áður, né verið farið eftir henni við veitingu dýralæknisembættis. Hins vegar er það svo að við veitingu á tveimur embættum sem ég hef veitt kom slíkur listi og í bæði skiptin var tekinn umsækjandi sem var í hópi þeirra efstu sem voru á listanum en ekki sá efsti.

Í þriðja lagi er spurt: „Hyggst ráðherra grípa til annarra aðgerða til að tryggja afskekktum og tekjurýrum héruðum dýralæknisþjónustu ef fallið verður frá því að hafa hliðsjón af „starfsaldursreglu“ Dýralæknafélagsins?

Eins og ég sagði áður hygg ég að það muni enginn dýralæknir í landinu sitja í embætti þar sem byggt er á starfsaldursreglu Dýralæknafélags Íslands þannig að hún hefur ekki tryggt einu einasta héraði setu dýralæknis. Ég á því dálítið erfitt með að skilja þessa spurningu og hvort hv. fyrirspyrjandi er að gefa í skyn að ef eftir þessari reglu er ekki farið muni hún koma í veg fyrir þetta. Ég skil ekki almennilega þessa spurningu.

Eins og ég sagði fer landbrh. eftir þeim lögum sem fyrir liggja eða eru í gildi. Ef Alþingi breytir lögum og kveður á um það að í staðinn fyrir að landbrh. skuli veita stöðuna skuli það vera Dýralæknafélag Íslands sem gerir það verður að sjálfsögðu farið eftir því. Því væri eðlilegt, ef hv. fyrirspyrjandi vildi það, að hann flytti frv. um slíkt hér á hv. Alþingi.