24.02.1987
Sameinað þing: 54. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3345 í B-deild Alþingistíðinda. (3034)

349. mál, dýralæknisembætti

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Það getur vel verið tillaga frá hv. þm. um að dýralæknar eigi að fara að kjósa um menn í stöður í staðinn fyrir að ráðherrar veita, en það væri dálítið fráhvarf frá því sem nú er verið að ræða um í sambandi við prestskosningar. Ég minni á að dýralæknaembættin eru ekki eingöngu fyrir dýralæknana. Þau eru líka fyrir þá sem þeirra eiga að njóta. Ef það á að fara að taka upp kosningafyrirkomulag í þessu skyni held ég að það væri eðlilegt að líta eitthvað til þeirra.

En það sem kom mér fyrst og fremst til að standa upp var að hv. fyrirspyrjandi sagði að það hefðu verið teknir umsækjendur úr hópi þeirra lægstu sem dýralæknar hefðu raðað á sinn lista. Maður getur þá vissulega ekki borið mikla virðingu fyrir talnaþekkingu hv. þm. því í öðru tilfellinu var það fjórði af fimmtán eða sextán umsækjendum sem var tekinn, enda sagði ég að hann væri tekinn úr hópi þeirra efstu og í hinu tilfellinu var það sjötti af sextán eða sautján þannig að því miður er ekki nokkur sannleikur í því sem hv. fyrirspyrjandi heldur fram.