26.02.1987
Sameinað þing: 56. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3547 í B-deild Alþingistíðinda. (3134)

277. mál, afnám skyldusparnaðar ungmenna

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Hér er um mál að ræða sem vissulega er þess eðlis að ástæða er til að það sé tekið hér til umræðu og menn velti því fyrir sér og meti það hvernig með þetta skuli fara í framtíðarsýn. Ég tek undir það með hv. 3. þm. Reykv. að ég tel ástæðulaust annað en að þetta mál sé í endurskoðun og það eru ýmis rök fyrir því að svo sé gert.

Í sambandi við þetta mál þykir mér ástæða til að gefa hér nokkrar upplýsingar um stöðu þessa máls. Ég vil fyrst segja að öll rök hníga að því að farið hafi verið inn á skynsamlega braut með þessa hugmynd um skyldusparnað ungmenna eins og hún hefur þróast í húsnæðiskerfinu, og það hefur haft mikið að segja í sambandi við húsnæðismálin almennt á undanförnum árum að þessi sparnaður varð til. Eins og sjálfsagt flestir hv. alþm. muna var árið 1985 gerð um það allítarleg könnun á vegum félagsvísindadeildar Háskólans hver afstaða unga fólksins væri til skyldusparnaðar. Það merkilega var að niðurstaða þeirrar könnunar var á þá lund að flestallt unga fólkið taldi nauðsynlegt að hafa þennan skyldusparnað við lýði og var mjög áfram um það að svo yrði áfram. En eins og kom fram í umræddri könnun voru 32,2% aðspurðra fremur hlynnt eða hlynnt skyldusparnaðinum, og 49,4% mjög hlynnt eða hlynnt honum, þannig að það voru ekki nema um 13% aðspurðra mótfallnir skyldusparnaði og er náttúrlega rétt að hafa það í huga þegar þessi mál eru rædd.

Ég er ekki með þessu að segja að það form sem nú er í gildi sé það eina rétta og eigi að vera óbreytt áfram. En mér finnst nauðsynlegt að vekja athygli á því, sem er raunar mjög ánægjulegt að mínu mati, að unga fólkið í landinu sýnir það í gegnum svona könnun að það vill hafa möguleika á að spara á þennan hátt. Formið á því er, eins og ég sagði áðan, ástæða til að skoða miðað við breyttar aðstæður og er ekkert óeðlilegt við það.

Ég vil einnig við þetta tækifæri gefa upplýsingar um þennan skyldusparnað í stærðum. Eins og fram kom hjá hv. flm. þál. sem hér liggur fyrir, þá hallaði nokkuð á skyldusparnaðarformið á síðustu árum. Það var rétt sem kom fram hjá hv. frsm. að 1983 var skyldusparnaðurinn neikvæður um 8,4 millj. kr., 1984 um 81,6 og 1985 um 17,1, en var jákvæður á s.l. ári um 22 millj. kr. Og eins og útlitið er núna er nokkuð ljóst að skyldusparnaðurinn verður jákvæður á þessu ári um hærri fjárhæð en þarna kemur fram.

Ég vil einnig geta þess að í byrjun s.l. árs tók til starfa hjá Húsnæðisstofnuninni nýr starfsmaður, lögfræðingur, sem var ráðinn til þess að annast innheimtuna, sem hefur á undanförnum árum ekki verið í nógu góðu lagi í sambandi við skyldusparnaðinn, og hefur mjög horft til bóta með tilkomu þessa starfsmanns sem hefur tekið þetta mál mjög föstum tökum. Það hefur verið reynt að forma þessa innheimtu miklu betur en áður hefur verið gert, ekki síst eftir ábendingum frá Alþýðusambandi Íslands sem hefur lagt mikla áherslu á það að þessi innheimta væri mjög aukin og gengið verði betur frá þeim málum. Og vissulega höfum við séð mörg dæmi þess að þarna hafa orðið mistök sem eru ekki verjanleg.

Ég hef lagt til við ríkisstjórnina, en það mál er búið að vera í meðferð hjá þingflokkunum nú nokkuð lengi, að láta skyldusparnaðarformið fá sama innheimturétt og orlof. Það hefur ekki verið hægt að leggja þetta frv. fram enn þá, en ég á von á því núna næstu daga að samstarfsflokkurinn samþykki þær hugmyndir sem þar eru á ferðinni. En burtséð frá því þá þykir mér rétt að gefa hér aðeins stutt yfirlit yfir fjárhagsstöðu skyldusparnaðarins eins og hann var núna í lok janúar til þess að menn átti sig á stærðinni á þessum sparnaði.

Þann 23. jan. s.l. var innstæða á skyldusparnaðarreikningum ungs fólks 16-26 ára samtals 1 708 700 000 kr. og vaxtasaldó var 62 040 355 kr. Fjöldi reikninga var 47 650. Innstæða á reikningum 26 ára og eldri á sama tíma var um 40 174 000 kr. og fjöldi reikninga í þeim aldursflokki, yfir 26 ára, 9433. Þessar tölur eru samkvæmt upplýsingum á glæru frá veðdeild Landsbanka Íslands og innstæða á skyldusparnaðarreikningum var um síðustu áramót 1 735 000 000 kr.

Það væri hægt að rekja margt fleira í sambandi við þennan skyldusparnað. Ég ætla ekki að tefja umræðurnar á því, en ég vil leggja áherslu á það að hér er um verulegar fjárhæðir að ræða og miðað við afstöðu unga fólksins til skyldusparnaðar mjög nauðsynlegt að menn vandi sig vel við ákvarðanatöku um framhald þessa þáttar í sparnaði. Eins og hv. 3. þm. Reykv. benti á þá má vel vera að það væri hægt að gera þetta með öðrum hætti, en ég mun leggja mikla áherslu á að það er ástæða til að undirstrika afstöðu unga fólksins og reyna með öllum ráðum að halda utan um þennan sparnað sem sýnir þetta í reynd. Í lok þessa árs t.d. verður þessi sparnaður sem situr inni, þrátt fyrir útstreymi á sparnaðinum má reikna með því að hann verði kominn talsvert á þriðja milljarð kr. þannig að þetta eru þýðingarmiklar greiðslur.

Ég fékk hjá forstöðumanni þessarar deildar í Húsnæðisstofnun upplýsingar um ávöxtunina. Hann telur samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum að ársávöxtun á skyldusparnaðarreikningum fyrir árið 1986 sé um 18,5% miðað við lánskjaravísitölu í janúar til janúar. Þessari ávöxtun er helst hægt að jafna við ávöxtun á sérkjarareikningum banka, þ.e. bestu kjör sem bankar hafa boðið, en auglýst kjör hafa verið um 18% til rúmlega 22% ársávöxtun 1986. Hann bendir einnig á skattfríðindi skyldusparnaðar, sem eru undanþegin tekjuskatti og útsvari. Sem eign er skyldusparnaðurinn að vöxtum meðtöldum skattfrjáls en framtalsskyldur.

Jafnhliða þessu get ég upplýst að núna er verið að gera nákvæmari útreikninga á ávöxtun skyldusparnaðar og ef það kemur í ljós að hann er ekki í þessu formi sem fullyrt er, þá er náttúrlega nauðsynlegt að lagfæra það, en því er haldið fram að hér sé um bestu ávöxtun að ræða. Ég tek undir það að þetta er þýðingarmikill liður í sparnaði unga fólksins sem það vill sjálft viðhalda, en ég tel enga ástæðu til að loka fyrir það að skoðað sé niður í kjölinn hvort það á að breyta þessum sparnaði í eitthvert annað form.