26.02.1987
Sameinað þing: 56. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3555 í B-deild Alþingistíðinda. (3142)

315. mál, varnir gegn mengun hafsins við Ísland

Flm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 557, um varnir gegn mengun hafsins við Ísland. Þáltill. flytja auk mín þeir hv. þm. Pétur Sigurðsson og Eyjólfur Konráð Jónsson. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa texta till. sem er stuttur. Hann er svohljóðandi:

„Alþingi skorar á ríkisstjórnina að efna til ráðstefnu hér á landi um varnir gegn mengun við Ísland og annars staðar í Norðaustur-Atlantshafi þar sem sérstaklega verði fjallað um þá hættu, sem fiskistofnunum á þessu svæði er búin af hennar völdum. Til ráðstefnunnar verði boðið fulltrúum allra þeirra ríkja sem hér eiga hlut að máli og alþjóðastofnunum sem um þessi mál fjalla.“

Þetta er þáltill. sem hér liggur fyrir. Það þarf ekki að fara í grafgötur með það hver er meginástæðan fyrir því að þessi þáltill. er flutt hér á hinu háa Alþingi. Kveikjan að henni er fyrst og fremst þau tíðindi sem þessa mánuðina eru að gerast og eiga raunar alllangan aðdraganda: bygging nýrrar kjarnorkuúrvinnslustöðvar á norðausturhluta Bretlands, við Pentlandsfjörðinn á Skotlandi. Hér er um að ræða stóra endurvinnslustöð þar sem kjarnorkuúrgangur er endurunninn.

Þetta mál hefur vakið mikla athygli og mikinn ugg, bæði í Bretlandi og í nágrannalöndunum, og mótmæli borist gegn þessum áformum, m.a. frá Noregi, frændum okkar Færeyingum, Grænlendingum og fleiri aðilum.

Íslenskir sérfræðingar skiluðu skýrslu um þessi áform nú í desembermánuði. Það var nefnd hæfustu sérfræðinga hérlendra, fulltrúar Geislavarna ríkisins, Hafrannsóknastofnunar og Siglingamálastofnunar sem unnu þetta verk í samvinnu við Magnús Magnússon prófessor og kjarnorkueðlisfræðin. Niðurstaða þeirrar nefndar er uggvænleg fyrir Íslendinga sem byggja mestalla afkomu sína á sjávarfangi.

Orðrétt segja þessir sérfræðingar í skýrslunni, með leyfi hæstv. forseta, að „vegna ríkjandi hafstrauma muni geislavirk efni, sem losuð verða í sjó frá stöðinni, berast á hafsvæðið umhverfis Ísland, m.a. fiskislóðina milli Jan Mayen og Íslands.“

Þetta er orðrétt álit okkar hæfustu sérfræðinga í þessum efnum. Í þessari einu setningu, þessari niðurstöðu skýrslu sérfræðinganna um kjarnorkuverið í Dounreay á Skotlandi felast uggvænleg tíðindi fyrir okkur Íslendinga. Þess vegna höfum við lagt til að ríkisstjórnin láti ekki undir höfuð leggjast að taka þetta mál föstum tökum og boði raunar til sérstakrar ráðstefnu á Íslandi sem allra fyrst til að fjalla um þessi mál og þá mengun hafsins í víðara samhengi.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum Íslendingi að mengun hafsins hefur farið mjög vaxandi á síðustu árum í kringum Ísland og raunar á öllu Norðaustur-Atlantshafi. Menn hafa beint sjónum sínum í vaxandi mæli að umhverfismálum og þeim vanda sem steðjar að þjóðum álfunnar. Nú er svo komið að slík mengun hafsins hefur haft alvarleg áhrif á vöxt og viðgang fiskistofnanna víða í Norðaustur-Atlantshafi hjá nágrannaríkjunum þannig að sums staðar horfir raunar til algerrar ördeyðu. Menn minnast fregna í fjölmiðlum nýlega um að mengun og ofveiði hefur þegar haft veruleg áhrif á fiskistofnana í Norðursjó með þeim afleiðingum að gripið hefur verið til þeirra ráðstafana að minnka veiðiheimildir á ýsustofninum þar um 37% og veiðiheimildir í þorskstofninn um 26%. Selastofnarnir í Eystrasalti og ýmsir fiskistofnar eru í verulegri útrýmingarhættu vegna mengunar og höfum við nýlega séð myndir af því í sjónvarpi.

Þótt ástandið sé mjög alvarlegt á þessum svæðum hjá nágrannaþjóðum okkar, Dönum, Norðmönnum og Svíum, þá minnkar vitanlega mengunin eftir því sem norðar dregur. Enn sem komið er eigum við ekki við þessi sömu vandamál að stríða, sem betur fer. Það er hins vegar alveg ljóst að hverju stefnir, það er hætta á vaxandi mengun innan efnahagslögsögunnar við Ísland ef ekkert verður að gert. Það sýnir þróunin í Norðursjó og Eystrasalti svo ekki verður um villst. Menn höfðu ekki leitt hugann að þeim vandamálum fyrir 15-20 árum sem nú blasa við öllum. Víða um Norðurlönd eru menn varaðir við að neyta fiskjar oftar en einu sinni í viku m.a. vegna eituráhrifa kvikasilfurs sem í þessari afurð finnst.

Orsakir mengunar hafsins hér á Norðaustur-Atlantshafi og annars staðar geta vitanlega verið margvíslegar. Þar er um að ræða í fyrsta lagi þau eiturefni sem berast í hafið frá landi, ekki síst frá iðnaði í þeim löndum sem liggja að Norðaustur-Atlantshafinu. Það er skemmst að minnast þeirrar miklu mengunar sem átti sér stað í ánni Rín nú fyrir nokkrum vikum, en sú mengun átti sér raunar upptök í efnaverksmiðju í Sviss. Þá er einnig um að ræða ólöglega losun eitur- og úrgangsefna í hafið, en slík losun átti sér stað fyrir nokkrum árum milli Íslands og Noregs. Íslendingar mótmæltu losun slíkra eiturefna. Gerður var sérstakur alþjóðasamningur um bann við losun eiturefna og úrgangsefna í sjó á Norðaustur-Atlantshafi árið 1973 og erum við aðilar að þeim samningi. Þá hefur einnig verið gerður sérstakur samningur, svokallaður Parísarsamningur, um varnir gegn mengun hafsins frá landi, eða frá landstöðvum eins og það heitir í samningnum. Það er yngri samningur. Við erum einnig aðilar að honum. Það er út af fyrir sig ágætt að gerast aðilar að slíkum samningum, en það má spyrja að hve miklu leyti ákvæði þessara samninga séu virt í framkvæmd.

Þá er ótalinn sá mengunarvaldur sem ég nefndi hér áðan og hættulegastur getur reynst í framtíðinni fyrir Íslendinga. Það er mengun frá geislavirkum úrgangsefnum sem í hafið berast. Áætlanir eru uppi í Bretlandi um að byggja mjög stóra endurvinnslustöð fyrir brennsluefni kjarnaofna í Dounreay á norðurströnd Skotlands, við Pentlandsfjörð sem flestir Íslendingar vita hvar er á kortinu. Afköst þessarar nýju fyrirhuguðu stöðvar munu verða um 60-80 tonn af brennsluefni á ári.

Nokkur ríki hafa þegar opinberlega lýst yfir áhyggjum sínum vegna aukinnar hættu á mengun hafsins vegna þessara áforma. Meðal þeirra eru Norðmenn og yfirvöld á Orkneyjum. Miklar umræður hafa farið fram um þetta mál í Danmörku og Færeyjum. Þá má nefna að þingmannaráð norðvestursvæðisins - en það er eins og þm. vita samstarfsráð Alþingis, Lögþings Færeyja og Landsþings Grænlendinga - hefur einnig ályktað um þetta mál og lýst áhyggjum sínum í þessu efni.

Mengunin frá hinni fyrirhuguðu stöð í Dounreay á Skotlandi getur stafað af tveimur orsökum og hættan sem íslenskum fiskistofnum er búin þá sömuleiðis af tveimur orsökum. Í fyrsta lagi vegna daglegs rekstrar. Í öðru lagi, og það er alvarlegra, vegna kjarnorkuslyss, eins og m.a. kom fram í merku viðtali í morgunútvarpinu í dag við siglingamálastjóra, Magnús Jóhannsson.

Ég leyfi mér að vitna í skýrslu sérfræðinganna sem út kom nú í desember og dreift hefur verið til alþm. Hún nefnist „Greinargerð um kjarnorkuverið og endurvinnslustöðina á Dounreay á Skotlandi.“ Þar er á bls. 17 fjallað um kjarnorkuslys og ég ætla að lesa þar örstuttan kafla, með leyfi hæstv. forseta, því að þar er raunverulega fjallað um mestu hættuna, en eins og nýlegir atburðir sýna eru kjarnorkuslys ekki óhugsandi. í skýrslunni segir orðrétt:

„Kjarnorkuslys geta alltaf átt sér stað og gera ekki boð á undan sér. Vissulega er reynt með fræðslu, þjálfun og hönnun mannvirkja og tækjabúnaðar að draga úr líkum þess að slík slys geti átt sér stað og draga úr áhrifum þeirra, eins og slysið í Chernobyl í apríl s.l. undirstrikar. Þó er ekki hægt að útiloka að slys eigi sér stað með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Áhrif slíks slyss í Dounreay gætu orðið tvíþætt hér á landi. Annars vegar vegna geislavirkra efna er kæmust út í andrúmsloftið og bærust hingað með vindum og hins vegar vegna geislavirkra efna sem rynnu í hafið og bærust hingað með hafstraumum.

Geislavirk efni geta borist hingað í andrúmsloftinu á skömmum tíma eftir slys ef veðurskilyrði eru þannig. Fjarlægðin frá Dounreay til Íslands er minni en fjarlægðin frá Chernobyl til þeirra svæða í Svíþjóð sem verst urðu úti eftir slysið vorið 1986.

Um geislavirk efni sem færu í hafið við slys gildir það sama og um geislavirk efni sem fara í hafið við daglegan rekstur. Aukning geislavirkra efna í hafinu umhverfis Ísland yrði þegar tímar liðu mikil eða lítil eftir því hve mikið af efnum hefði farið í hafið við Dounreay.

Auknum umsvifum við kjarnorkustarfsemina í Dounreay munu fylgja auknir flutningar geislavirkra efna á sjó, á landi og í lofti. Auknum flutningum fylgir aukin slysahætta með þeim afleiðingum að geislavirk efni komast út í umhverfið.

Það er álit okkar að fyrirhuguð staðsetning endurvinnslustöðvarinnar í Dounreay orki mjög tvímælis. Staðsetning við Dounreay eykur á hættuna á því að lönd, er ekki standa að stöðinni, verði fyrir mengun af völdum geislavirkra efna frá henni á meðan áhrif á þau lönd sem stöðin á að þjóna gætu orðið mun minni eða jafnvel engin.“

Hér lýkur tilvitnun í þessa skýrslu sem að stóðu Hafrannsóknastofnun, Geislavarnir ríkisins og Siglingamálastofnun, auk Magnúsar Magnússonar prófessors.

Hér kemur mjög glögglega fram að bygging endurvinnslustöðvarinnar í Dounreay á Skotlandi, sem er raunar skamman veg frá íslenskri efnahagslögsögu, mun auka mengunarhættuna fyrir Norður-Atlantshaf, ekki hvað síst, eins og orðrétt segir í niðurstöðum skýrslunnar, „af völdum slysa sem orðið geta bæði við flutninga á geislavirkum efnum með skipum á erfiðum siglingaleiðum og vegna óhappa sem ekki er hægt að útiloka að geti orðið í endurvinnslustöðinni“.

Í skýrslunni segir einnig að telja megi að það taki geislavirk efni frá Dounreay 4-6 ár að berast til Íslands, en „vegna ríkjandi hafstrauma munu slík geislavirk efni, sem losuð verða í sjó frá stöðinni, berast á hafsvæðið umhverfis Ísland, m.a. fiskislóðina milli Jan Mayen og Íslands“, segir þar. Þessu er m.ö.o. slegið föstu af sérfræðingunum í skýrslunni.

Ég þarf, herra forseti, ekki að fjölyrða frekar um þetta mál. Ég hygg að öllum sé ljóst hve alvarlegt mál er raunverulega hér á ferðinni. Það þarf varla um að binda ef slíkt slys á sér stað, svo ógnvænlegar mundu afleiðingarnar verða fyrir þá fiskistofna sem eru í hafinu innan íslenskrar efnahagslögsögu og raunar fiskistofnana í Norðaustur-Atlantshafinu öllu. Þar yrði um stórkostlegt áfall og raunar nánast ördeyðu að ræða til margra ára. Og menn geta spurt: Hvernig yrði þá komið afkomu og efnahag þessarar þjóðar?

Af þessum sökum, herra forseti, teljum við flm. þessarar till. fyllilega tímabært að Íslendingar hafi frumkvæðið að því að kölluð sé saman ráðstefna þeirra ríkja allra sem hér eiga hlut að máli þar sem rædd verði sú mengunarhætta sem að fiskistofnunum við Ísland og öðrum nágrannaríkjum steðjar, ekki síst vegna þeirra geislavirku úrgangsefna sem óhjákvæmilega munu komast í hafið frá þessari fyrirhuguðu stöð.

Við teljum að hér sé um eðlilegt og sjálfsagt framtak og frumkvæði íslenskra stjórnvalda að ræða og raunar ætti ekki að draga að kalla saman slíka ráðstefnu. Hún ætti að koma saman hér í Reykjavík strax í sumar. Það er út af fyrir sig ágætt að við erum aðilar að samningum sem banna losun úrgangs- og eiturefna í hafið, en hér er um mál að ræða sem þarf að leysa og ræða á miklu breiðari grundvelli en innan funda samningsaðilanna. Þetta er efni sem fyllilega verðskuldar að kölluð sé saman ráðstefna til þess að fjalla um, ekki síst miðað við þau efni sem rædd eru á alþjóðaráðstefnum almennt, svo alvarlegt mál er hér á ferðinni.

Að lokinni 1. umr. um þessa till., herra forseti, legg ég til að henni verði vísað til hv. félmn.