26.02.1987
Sameinað þing: 56. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3560 í B-deild Alþingistíðinda. (3144)

315. mál, varnir gegn mengun hafsins við Ísland

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að standa hér upp til að lýsa stuðningi við þessa þáltill. Hér er um stórmál að ræða hvort sem okkur tekst að fá slíka ráðstefnu hingað á fullnægjandi hátt. Það verður að koma í ljós. En mér finnst hugmyndin góð og lýsi yfir stuðningi við hana.

Ég vil aðeins í sambandi við þetta mál láta það koma fram hér að fulltrúi minn á ráðherrafundi umhverfismálaráðherra á þingi Norðurlandanna, þar sem var síðast fundað í gær, hafði fyrirmæli um það, og gerði, að lýsa afstöðu Íslands sérstaklega til þeirra hugmynda um að Norðurlöndin sameiginlega lýsi yfir hörðum mótmælum gegn þeim áformum sem uppi eru í Bretlandi um að byggja stóra endurvinnslustöð fyrir brennsluefni kjarnaofna í Dounreay á norðurströnd Skotlands við Pentlandsfjörð. Ég hef upplýsingar um að það virðist vera að nást samkomulag meðal Norðurlandanna um það að taka sameiginlega afstöðu til þessa máls á kröftugan hátt því hér er um gífurlega mikið hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga og raunar þjóðir allra landa sem liggja að Norðurhöfum, að reynt verði að stöðva þetta áform. Það er algjört grundvallaratriði.

Mér finnst því að allt sem miðar í þá átt að vekja athygli á þessum málum fyrir okkar forgöngu sem eylands hér norður í höfum, sem eigum allt okkar undir því að ekki verði slys af þessari tegund á okkar hafsvæðum, sé af því góða og þess vegna vil ég sérstaklega lýsa stuðningi við þessa tilraun sem hér er sett fram.