28.10.1986
Sameinað þing: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

20. mál, samningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ósköp hlýtur hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að líða illa úr því að svona stór hluti úr ræðu hans verður ekki sagður annað en geðvonska og útúrsnúningar. Hann svíður greinilega undan þeirri umræðu sem var hér áður við fyrri umr. og alveg einstaklega svíður hann undan því hvernig við þm. Alþfl. afhjúpuðum málflutning hans eins og hann lá hér fyrir. Öðruvísi verða þessi geðvonska og þessir útúrsnúningar ekki skilin.

Hann reynir að gera mikið mál úr því að einn af þm. Alþfl. hafi m.a. bent á prentvillu. Lægra geta menn varla lagst í málflutningi en þetta. En ég held að ég geti sagt um málflutning hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að honum hafi tekist mjög listilega í mjög löngu máli að segja ekki neitt nema það að hann væri á móti samningnum. Og það er auðvitað list í sjálfu sér að geta það í svo löngu máli sem hann gerði. Þetta er vitaskuld ekki meginatriði málsins, herra forseti. Meginatriði málsins er það að hér er um að ræða úrlausn á vandamáli sem hefur valdið þm. og ýmsum innan þjóðfélagsins áhyggjum og hefur verið hér umræðuefni á undanförnum árum. Þetta flutningamál hefur valdið okkur töluverðum búskell og óþægindum. Þess vegna sýnist okkur Alþýðuflokksmönnum að það sé einsýnt að það eigi að samþykkja þá þáltill. sem hér liggur fyrir og þá samninginn um leið. Og þess vegna höfum við stutt þetta heils hugar, bæði við fyrri umr., við umræðu í nefnd, og gerum nú.

Ég veit ekki hvað málflutningur af því tagi, sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson tileinkaði sér áðan, á að þýða. Hann fjallaði í löngu máli um það í inngangsorðum sínum að hann vildi vita hvaða mál byggi hér að baki. Ég get upplýst hann um það að þetta mál fjallar um flutninga á sjó til varnarliðsins og hvernig með það skuli fara. Ég held að það sé meginatriði málsins að menn haldi sig einmitt við efnisatriðin.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson fann hér ýmislegt sem hann gagnrýndi, gat ekki sætt sig við. Fann þessum samningi ýmislegt til foráttu. Hann gerði t.d. að umræðuefni að í áliti frá Baldri Möller, fyrrum ráðuneytisstjóra, hefði komið fram að Baldur Möller teldi að ekki þyrfti að leggja þennan samning fyrir Alþingi. Ég vil bara benda hv. þm. á það að þessi samningur liggur einmitt hér fyrir Alþingi, hefur verið lagður fyrir Alþingi og þess vegna fer þessi umræða fram. Þannig að ég tel að öll umræða um hið lagalega álit Baldurs Möllers, fyrrv. ráðuneytisstjóra, sé út í hött. Maður gat spurt sig, þegar maður hlustaði á málflutning Hjörleifs Guttormssonar, hvað það væri sem hann vildi, en það kom í ljós. Hv. þm. vill í rauninni óbreytt ástand frá því sem nú er. Hann vill ekki þennan samning. Hann vill óbreytt ástand. Hann vill að Rainbow Navigation eða erlend skipafélög annist þessa flutninga. Hann vill ekki að íslensk skipafélög eða íslenskir sjómenn hafi nokkuð upp úr þessum flutningum. Hann vill engin hagsmunatengsl af þessu tagi. Hann hefur því verið lukkulegur með það að Rainbow Navigation skuli vera með þessa flutninga og bandarískir sjómenn ættu samkvæmt hans skilgreiningu helst að vera með þá alla. Og það hlýtur að hafa verið óbærilegt ástand fyrir hv. þm. og hans flokk þegar Eimskipafélagið og Hafskip önnuðust þessa flutninga og íslenskir sjómenn höfðu af því atvinnu. Þetta er grunntónninn. Þetta er afstaðan sem kemur fram í málflutningi hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og Alþb. Þess vegna væri alveg óþarfi fyrir þá að vera að ræða einstakar greinar samningsins.

Ég tók eftir því að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði það að umræðuefni að orðalag væri ekki nákvæmlega eins um hvernig með skyldi fara næstlægsta tilboð eftir því hvort það væri frá íslenskum eða bandarískum aðila. Ég gat ekki skilið málflutning hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar öðruvísi en þannig að hann teldi að hér nyti Rainbow Navigation betri aðstöðu, betri kjara, ef menn vilja orða það svo, en hin íslensku skipafélög. Hann ætti samkvæmt sinni eigin skilgreiningu, hann ætti samkvæmt sinni eigin skoðun á því að þetta eigi ekki að vera í íslenskum höndum að vera glaður og kátur yfir því ef svo væri að erlendum skipafélögum væri frekar hyglað. En sannleikurinn er auðvitað sá að það er ekki gert. Það er ekki gert. En þannig rekur sig eitt á annars horn í hans málflutningi. Munurinn á því hvernig með skuli fara, eftir því hvort næstlægsta tilboðið er frá íslenskum eða bandarískum skipafélögum, er sá að ef íslenskur aðili á í hlut þá eiga íslensk stjórnvöld að geta komið sjónarmiðum sínum á framfæri um það hvað sé sanngjarnt verð fyrir flutningana.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé íslenskum skipafélögum til hagsbóta að íslensk stjórnvöld geti komið að sínum sjónarmiðum þegar þannig stendur á. Ég ætla að vona að íslensk stjórnvöld muni þá bera hag íslenskra skipafélaga fyrir brjósti en ekki útlendra eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson virðist vilja að gert sé. Þess vegna er þetta algjör útúrsnúningur. Hér er um eðlilegt ákvæði að ræða þar sem verið er að tryggja að íslensk sjónarmið geti komist að borðinu þegar svona stendur á.

Herra forseti. Ég skal ekki fjölyrða frekar um málflutning hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Ég ítreka það einungis að að dómi okkar Alþýðuflokksmanna er hér verið að höggva á erfitt mál. Það er komin í því niðurstaða sem við teljum vera ásættanlega og við styðjum að framkvæmd verði.

Að lokum vil ég einungis fara fáeinum orðum um það sem gert var hér að umræðuefni líka við fyrri umr. málsins, nefnilega spurninguna um það að flutningarnir fari eftir þennan samning ekki í minni mæli en áður um Njarðvíkurhöfn, sem hefur verið til þess útbúin. Ég gerði það að umtalsefni hér við fyrri umr. málsins, og það gerðu fleiri, m.a. hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, að þar væru hagsmunir í húfi og þeir eru það einkum og sér í lagi vegna þess að atvinnuástand á þessu svæði hefur reynst vera með því ótryggara eða ótryggasta á landinu að undanförnu.

Nú kom fram hjá frsm. meiri hl. nefndarinnar að almennur áhugi væri fyrir því að hér yrði ekki röskun á högum og hæstv. utanrrh. hefur lýst því yfir að hann muni beita sér fyrir því að málið fái þennan framgang. Auðveldasta leiðin í þeim efnum er vitaskuld að koma þessum sjónarmiðum á framfæri við þá aðila sem útbúa útboðsgögnin og ég vænti þess að hæstv. ráðherra muni gera það og að öðru leyti tryggja að ekki verði röskun á högum þessa byggðarlags við þann samning sem hér er gerður.

Herra forseti. Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta. Það er okkur Alþýðuflokksmönnum ánægjuefni að úr þessu máli skuli vera leyst með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.