02.03.1987
Efri deild: 45. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3576 í B-deild Alþingistíðinda. (3166)

368. mál, málefni aldraðra

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Frú forseti. Í lögunum um málefni aldraðra er ákvæði í lokin þar sem segir að þau skuli gilda til ársloka 1987 og endurskoða skuli lögin fyrir þann tíma. Það er ljóst að endurskoðun verður ekki lokið fyrir þinglok, en hins vegar jafnljóst að þeir sem hafa byggt áætlanir sínar á styrkjum úr Framkvæmdasjóði aldraðra, sem um eru ákvæði í þessum lögum, þurfa að vita með nokkrum fyrirvara hvort unnt sé að gera ráð fyrir slíku á næsta ári. Þess vegna er það að ég tel nauðsynlegt að framlengja gildistíma laganna um eitt ár svo að tími gefist til með nægum fyrirvara að taka afstöðu til þess hvernig málum þessum skuli skipað í framtíðinni.

Þetta er ekki síst vegna þess að komið hefur í ljós mjög mikil þörf fyrir Framkvæmdasjóð aldraðra. Þess hafa menn orðið varir í sínum byggðarlögum að þar hefur verulega verið hlaupið undir bagga í sambandi við byggingu stofnana fyrir aldraða, hjúkrunarheimila og dvalarheimila sem næst heimkynnum hinna öldruðu borgara. Þessu hlutverki sjóðsins er ekki lokið og því teljum við nauðsynlegt að leggja til að gildistíminn verði framlengdur. Þess vegna verði þessu eina litla ákvæði í lögunum breytt þannig að gildistíminn verði til ársloka 1988. Jafnframt er þá gert ráð fyrir að á þeim tíma liggi fyrir frv. til endurskoðaðra laga um málefni aldraðra.

Ég leyfi mér, frú forseti, að leggja til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.