28.10.1986
Sameinað þing: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

20. mál, samningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Frsm. meiri hl. utanrmn. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins hér í lokin, væntanlega í lokin á þessari umræðu, láta það koma mjög skýrt fram að þeir starfsmenn utanríkisþjónustunnar, bæði ráðherra og hans starfsmenn, veittu allar þær upplýsingar sem um var beðið og við hefðum ekki lokið fundi í gær ef komið hefðu fram óskir eða kröfur um eitthvað frekari upplýsingar. Mér finnst að þetta verði að liggja alveg ljóst fyrir.

Þetta ætlar nú að verða til þess að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson ætlar að halda hér aðra ræðu. Ég ætlaði ekkert að fara að svara honum í einu eða neinu. Hann svaraði sér alltaf sjálfur, lét m.a.s. Ólaf Jóhannesson svara sér. Og það gat hver skilið, sem einhverja minnstu þekkingu hefur á lögfræði eða bara venjulega skynsemi, að hann var auðvitað alltaf að svara sjálfum sér.

En auðvitað var þetta mál rætt niður í kjölinn og það sem eftir stendur í þessu er það, sem undirstrikað er strax í athugasemdum þáltill. og sem segir í 4. gr., að samningurinn gangi fyrir eldri ósamrýmanlegum lögum Íslands eða Bandaríkjanna. Síðan segir: „Er hér átt við bandarísk lög frá 1904“ o.s.frv. Það er alveg ljóst að það eru engin lög í sambandi við siglingar sem breytast nokkurn skapaðan hlut með þessu þó að þetta væru lög en ekki bara þál. sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson samþykkti raunar að kæmi fyrir þingið með þessum hætti. Það sem eftir stendur efnislega er að Bandaríkjastjórn kemur því í gegn að breyta þessum lögum, það sé hægt að veita undanþágu frá lögunum frá 1904. Það er eina efnisatriðið í þessu í raun og veru, þ.e. að koma á siglingafrelsi, samkeppni á siglingaleiðum sem við Íslendingar höfum alltaf fylgt, aldrei reynt að hindra. (SJS: En í Gamla sáttmála?) Við skulum ekki fara svo langt aftur í söguna, en samþykktum við hann? Var það ekki nauðungarsamningur?

Svo má segja að hvimleitt sé að þetta sé ekki gert á báðum málunum. En við erum alltaf að samþykkja alþjóðasamninga á ensku máli. Hér um bil allir alþjóðlegir samningar eru samþykktir eingöngu á erlendu máli, á einhverju af fjórum eða fimm aðaltungumálum heimsins, og við veljum auðvitað enskuna. Það er ekkert nýtt. En hitt kann að vera nýtt, og það tók ég fram í minni ræðu, að hér á í hlut tvíhliða samningur. Ég veit ekki um það, en mér finnst eðlilegt að tvíhliða samningur sé venjulega á báðum málunum eins og gert var t.d. í samningunum um Jan Mayen o.s.frv. Ég skal alveg játa það. En það er ekkert nýtt að við notum enskt mál og lögfestum það. Við gerum það margsinnis á hverju einasta þingi. En ég skýrði í upphafinu hvers vegna þetta hefði verið gert með þessum hætti og skal endurtaka það. Ég hefði heldur viljað hafa þetta á báðum málunum þó að þessi samningur verði sjálfsagt aldrei skoðaður á Íslandi. Hann er búinn að ná sínum tilgangi að Bandaríkjamenn hafa breytt sínum afturhaldslögum frá 1904 þannig að nú ríkir jafnrétti í þessum siglingum. Allt annað eru umbúðir. Og ég vona að þetta gleðji þá sem eru eitthvað hvumpnir við að þetta sé samþykkt, þar á meðal Samtök um kvennalista. Þær ætla víst að greiða atkvæði á móti þessu, en ég vona að það gleðji þær þó þegar þær gera sér grein fyrir því að þarna er ekki verið að hætta á nokkurn skapaðan hlut og síst af öllu það sem segir í þeirra ályktun að þær vilji draga úr umsvifum varnarliðsins. Þessi samningur dregur auðvitað frekar úr umsvifum varnarliðsins en eykur þau.

Hitt er svo allt annað mál hvort við eigum að fara að ræða um aronsku. Hún varð víst til reyndar, það orð, í leiðara á minni ritstjórnartíð og festist einhvern veginn í málinu. Ég kann ekki við að vera með uppnefni á einn eða neinn þó ég taki kannske þessa ábyrgð á mig. Menn skilja hvað við er átt.

En í lokin endurtek ég að ráðuneytið veitti að mínu mati allar þær upplýsingar sem það gat, bæði á fundum og milli funda, og þess vegna er ekki sanngjarnt að ásaka það um eitt eða neitt. Eftir stendur í mínum huga ekkert annað en það að við höfum náð því sem við höfum ætlað okkur í siglingafrelsi og samkeppni á siglingaleiðum og að Bandaríkjamenn létu undan og breyttu sínum lögum, en engin íslensk lög eða reglugerðir breytast.