03.03.1987
Sameinað þing: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3615 í B-deild Alþingistíðinda. (3220)

370. mál, einangrun húsa

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Aðeins til viðbótar við það sem hv. þm. sagði áðan varðandi það að ekki hafi komið neitt fram um að eitthvað hafi verið gert á því sviði að láta fara fram sérstaka úttekt og rannsókn á einangrun útveggja vil ég gera grein fyrir því, af því að fsp. er miðuð við árið 1981, að það var ekkert gert af hálfu ráðuneytisins á árunum 1981-1983, ekki neitt sem finnanlegt er, í sambandi við þetta mál.

Hins vegar í sambandi við einangrun húsa er rétt að upplýsa að bæði Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Byggingaþjónustan hafa unnið verulegt skipulagsstarf að því að kynna nýjungar í sambandi við einangrun húsa. Það hafa komið fram mjög miklar og ítarlegar upplýsingar um þetta atriði sem m.a. var kynnt á öllum fundum sem haldnir voru með skipulegum hætti í kringum landið í sambandi við orkusparnaðarátakið. Ég veit að það hefur haft gífurlega mikið að segja jafnhliða því að ýmsar nýjungar í einangrunarefnum húsa hafa komið þar fram.

En í sambandi við þetta einangraða tilfelli, sem hv. fyrirspyrjandi er að minnast hér á, var sérstakt átak unnið af ákveðnum byggingameistara hér í bæ um að kynna þá nýjung að setja einangrun utan á húsið sem er vissulega athyglisvert. Það má upplýsa að sá aðili fékk talsvert mikla aðstoð frá Húsnæðisstofnun í sambandi við það verkefni sem var e.t.v. ekki nægjanlega vel að staðið á sínum tíma. Jafnhliða þessu hafa ýmsar fleiri aðferðir í sambandi við einangrun húsa sem færi fram á þennan hátt, utan á veggjum, verið að þróast á fleiri stöðum og fengið til þess meðhöndlun hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins alveg fram á þennan dag. Allar þessar nýjungar eru vissulega í athugun og meðferð hjá réttum aðilum þannig að það er ekki hægt að segja að þessum þætti fsp. frá 1981 hafi ekki verið,sinnt af réttum aðilum á síðari árum. Ég held að það sé ekki hægt að fullyrða annað en svo hafi verið.