03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3644 í B-deild Alþingistíðinda. (3246)

332. mál, námsbrautir á sviði sjávarútvegs

Flm. (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Reykn. fyrir undirtektirnar við þessari till. og allt það sem hann benti á tek ég heils hugar undir. Ég vil þó aðeins leiðrétta það, sem mér fannst hann telja, að þessi till. væri fyrst og fremst um að byggja upp eitthvert stutt nám, námskeiðanám eða þess háttar. Það er mjög langt frá því. Till. fjallar um það að hefja jafnvel nám í þessum fræðum strax í grunnskóla og halda því áfram allt að stúdentsprófi á breytilegan máta.

Slíkt nám í heimabyggð úti um hinar breiðu byggðir er mikið byggðastefnumál. Ef við getum fengið unga fólkið í sjávarþorpunum, sem hyggst stunda vinnu við fiskvinnslu og sjávarútveg, til að hefja nám strax á síðustu árum grunnskóla og mennta sig breiðri menntun, ekki eingöngu, eins og þm. sagði, verklag eða þess háttar heldur að sækja sér alhliða menntun á heimavettvangi til að geta sinnt hinum ýmsu störfum í heimabyggð. Sú þróun hefur verið að eiga sér stað á undanförnum árum vegna þess að það er staðreynd sem þm. benti á að menntakerfið er úr tengslum við þessa undirstöðu atvinnugrein okkar og þar af leiðandi eru sjávarbyggðirnar meira og minna skildar eftir með hóp af fólki sem hefur notið lítillar menntunar. Ef við getum snúið þessu við eftir því sem till. leggur til mundi þarna verða á stórkostleg breyting. Þá mundu þessar byggðir ekki vera í neinum vandræðum með að fylla forustusveit sína með vel menntuðu fólki, en því miður hefur mátt segja að það hefur verið ýmsum erfiðleikum bundið að fá menn til að sinna hinum breytilegu félagsstörfum sem nauðsynlegt er að standa undir, forustu í verkalýðsfélögum, forustu í hinum ýmsu félögum og forustu í sveitarstjórn, vegna þess að sá hópur sem þarna hefur sest að hefur ekki byggt sig upp eða menntakerfið hefur ekki haft á boðstólum aðstöðu fyrir þetta fólk til þess að menntast. Ef það væri tekið á þessum málum eins og till. gerir ráð fyrir og þessi menntun flutt heim í héruðin, tekin upp í fjölbrautaskólum og grunnskólum og stofnaðar deildir fjölbrautaskóla sem víðast um landið mundi þarna verða geysilega mikil breyting á. Eins og kemur fram í grg. gerðist það þá ekki, sem gerist allt of mikið af, að við það að fólk fer burt úr heimabyggð 3-4 ár slitnar það úr félagslegum tengslum við þá byggð og áhugamálin sem það hafði þegar það fór til skólanámsins eru komin á annan vettvang. Þetta er kannske eitt af því sem er hvað hættulegast. Sú menntun sem nú er boðið upp á menntar fólkið burt úr byggðunum.

Ég endurtek að ég þakka undirtektir hv. 3. þm. Reykn. við tillöguflutning okkar.