04.03.1987
Efri deild: 47. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3694 í B-deild Alþingistíðinda. (3295)

359. mál, stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands

Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. mínu um Útvegsbankamálið. Eins og fram hefur komið áður í þessari umræðu var það álitsgerð og niðurstaða stjórnar Seðlabankans, eftir að hún hafði íhugað og athugað hvað gera skyldi í kjölfar yfirvofandi gjaldþrots Útvegsbankans, að hyggilegast mundi vera að bankinn yrði sameinaður öðrum banka eða bönkum í því skyni fyrst og fremst að auka hagkvæmni í bankakerfinu og gera það ódýrara í rekstri.

Í álitsgerð stjórnar Seðlabankans voru nokkrir kostir nefndir, en ljóst var að bankastjórnin áleit það langsamlega lakasta kostinn að endurreisa Útvegsbankann. Ríkisstjórnin tók sér harla langan umhugsunarfrest og voru reyndar margir efins um að hæstv. ríkisstjórn kæmist nokkurn tímann fram úr þessu máli eða hefði andlegan styrk og afl til að komast að einhverri niðurstöðu. En eftir langa mæðu varð til ákvörðun og auðvitað þurfti það engum að koma á óvart að ríkisstjórnin skyldi velja versta kostinn sem völ var á, þann óhagkvæmasta og dýrasta fyrir almenning í landinu, þann sem kostaði ríkissjóð langsamlega mesta fjármuni og verður kerfinu í heild verstur.

Útvegsbankinn verður sem sagt endurreistur í formi einkabanka, en ríkið á að leggja fram fjármagnið, 1000 millj. kr. Þar af koma 800 millj. úr ríkissjóði og 200 millj. kr. úr Fiskveiðasjóði. Það eru sem sagt skattgreiðendur landsins sem eiga að gjalda fyrir þau mistök sem gerð hafa verið og hefði maður haldið að þeir hefðu margt annað betra við peninga sína að gera en að moka þeim í þessa hít. 1000 millj. kr. - ja, það eru víst rétt um 20 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu.

Ég rakti það við 1. umr. málsins hvers konar skollaleikur hefur verið leikinn í sambandi við Útvegsbankann fyrr og síðar því að Útvegsbankinn var, eins og flestum mun kunnugt, einmitt stofnaður upp úr gjaldþroti annars banka, Íslandsbanka, um 1930 og var því upphaflega hlutafélag. Tæpum þremur áratugum seinna reyndist hins vegar óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir til að bjarga fjárhag Útvegsbankans og þá var gripið til þess heillaráðs að gera hann að ríkisbanka. Árið 1981 lagði svo ríkissjóður 50 millj. kr. til bankans með aðstoð Seðlabankans. Það fé mun vera á núvirði nálægt 400 millj. kr. Enn á að bjarga fjárhag bankans. Og enn er lausnin þveröfug við það sem seinast var. Ja, nú á að bjarga bankanum með því að breyta honum úr ríkisbanka í hlutafélagsbanka.

Ég færði rök að því við 1. umr. að bankinn verður veikari eftir en áður að öllu öðru leyti en hvað eiginfjárstöðu snertir því vissulega eykst hún við 1000 millj. kr. framlag og verður nokkuð sterk til að byrja með. Eftir sem áður er ljóst að traust á bankanum verður minna en áður, traust innistæðueigenda, traust þeirra sem eiga að lána bankanum fé, hvort sem þeir gera það eins og sparifjáreigendur sem eru að ávaxta fé sitt eða um er að ræða erlenda banka sem hlaupa undir bagga með bankanum öðru hvoru. Í báðum tilvikum verður traust lánveitenda gagnvart bankanum minna en áður og enginn vafi á að í viðskiptum við erlenda aðila verður lántökukostnaður töluvert miklu meiri vegna þess að ekki verður sá sterki bakhjarl að baki bankanum sem verið hefur, eftir að bankinn er hlaupinn úr skjóli ríkisins. Þess vegna ætti það ekki að koma neinum á óvart þó að aftur kynni að fara að hallast á hjá bankanum og eftir nokkur ár yrði að grípa til nýrra bjargráða til að bjarga honum. Þá yrði það áreiðanlega gert á þveröfugan hátt við það sem seinast er gert, eins og venja hefur verið, og þá í þetta sinn með því að hlutafélaginu yrði breytt í ríkisbanka.

Ég er ekki reiðubúinn til að taka þátt í þessum skollaleik og hlýt að ítreka að bönkum ber að fækka, kerfið þarf að vera einfaldara, ódýrara og hagkvæmara. Skattgreiðendur hafa nóg annað gáfulegra við fé sitt að gera en að moka því í þessa botnlausu hít. Ég mæli því eindregið með að frv. þetta verði fellt.