04.03.1987
Efri deild: 47. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3698 í B-deild Alþingistíðinda. (3297)

359. mál, stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands

Frsm. 3. minni hl. fjh.- og viðskn. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti 3. minni hl. fjh.- og viðskn. í þessu máli og þar sem þessu áliti var útbýtt núna á þingfundinum tel ég rétt að lesa það yfir. Þar segir, með leyfi forseta:

„Frá því á haustdögum 1985, þegar fyrirtækið Hafskip, sem var einn af stærri viðskiptaaðilum Útvegsbanka Íslands, varð gjaldþrota, hefur legið fyrir að rekstrargrundvöllur Útvegsbankans var brostinn og að leysa yrði vanda bankans með einhverjum hætti. Sú lausn á þessum vanda, sem sett er fram í þessu síðbúna frv., ber þess öll merki að vera þrautalending í ósamkomulagi núverandi stjórnarflokka um leiðir í málinu og er með öllu óviðunandi.

Í fyrsta lagi hefði verið eðlilegast að snúast við vanda Útvegsbankans með því að sameina hann öðrum eða báðum hinna ríkisbankanna og nota jafnframt tækifærið til að einfalda og endurskipuleggja íslenska ríkisbankakerfið. Það er ekki gert.

Í öðru lagi er ljóst að hinn nýi hlutafélagsbanki mun standa höllum fæti viðskiptalega bæði innan lands og utan þar sem hann mun ekki njóta ríkisábyrgðar nema fyrstu tvö starfsár sín. Framtíð hans er því ótrygg og óviss.“

Hvað þetta atriði varðar komu núverandi bankastjórar Útvegsbankans á fund hv. fjh.- og viðskn. og lögðu þeir áherslu á hversu erfitt mundi reynast bankanum að vinna sér traust að nýju með ríkisábyrgð í jafnskamman tíma og þetta frv. gerir ráð fyrir. Bankinn hefur misst traust undanfarið og það tímabil sem gert er ráð fyrir í frv. er of stutt til að byggja upp það traust að nýju og komast út úr þeim viðskiptum sem bankinn er í í dag og þarf að losa sig við.

Hætta er á að stærri innistæðueigendur taki út innlán sín og að nýir stjórnendur bankans hafi ekki það ráðrúm sem þeir þurfa á að halda til að koma bankanum á traustan grundvöll á nýjan leik. Sama er að segja um viðskiptaaðila erlendis. Þar sem ríkisábyrgðin er takmörkuð á þennan hátt munu þeir á sama hátt væntanlega gjalda varhug við viðskiptum við bankann jafnt sem innlendir aðilar. Þannig er verið að leggja til í frv. að heilum 1000 millj. af skattfé sé þveitt út í óvissuna og það þrátt fyrir að forustumenn Sjálfstfl. hafi haft uppi miklar heitstrengingar um það þá er málefni Útvegsbankans komust í hámæli á haustdögum I985 þegar fyrirtækið Hafskip varð gjaldþrota að ekki færi eyrir af almannafé í þá hít sem þar myndaðist.

Hér er sem sagt verið að endurreisa Útvegsbanka Íslands og honum gert að starfa við miklu lakari aðstæður en hann hefur þó gert hingað til.

Þriðja atriðið sem vísað er til í nál. 3. minni hl. er að það er ekki vitað með vissu hvort einkaaðilar hyggist gerast hluthafar í bankanum. Þess vegna er einfaldlega óvíst á þessari stundu hvort um hlutafélagsbanka geti yfirleitt orðið að ræða þó að frv. kveði á um það. Það er gert ráð fyrir í frv. að stofnfé bankans sé 1000 millj. Þar af gætu allt að 800 komið úr ríkissjóði og 200 úr Fiskveiðasjóði. Þessar 200 millj. sem kæmu úr Fiskveiðasjóði yrðu þá lán úr ríkissjóði. Þannig gæti allt eins farið svo að hér yrði einfaldlega um nýjan ríkisbanka að ræða, þó með takmarkaðri ríkisábyrgð, þ.e. tímabundinni, og það er út af fyrir sig nokkuð kúnstugt fyrirbæri.

Ég vil einnig benda á þann annmarka, sem er í 4. gr. frv., að þar er gert ráð fyrir að Fiskveiðasjóður skipi einn af þremur stjórnarmönnum í stjórn hins nýja banka. Ef svo færi að Fiskveiðasjóður gerðist ekki aðili að þessum nýja banka, það er ekki skilyrt í frv. heldur eingöngu heimilað, er fráleitt að skv. lögum eigi hann samt sem áður stjórnarmann í stjórn þessa banka.

Í fjórða lagi er það til tekið í þessu nál. að erlendum bönkum er heimilað að eiga allt að 25% hlutafjár í hinum nýja banka án þess að í gildi séu lög hér á landi um erlenda fjárfestingu í íslensku viðskiptalífi. Þetta tel ég ákaflega varhugavert og óviturlega að verki staðið. Á meðan ekki hefur verið kveðið á um skipan þessara mála er að öllu leyti óheppilegt að setja ákvæði sem þetta inn í lög sem þessi.

Eins og ég hef áður sagt er þessi lausn á vanda Útvegsbanka Íslands sannkölluð hallærislausn og af þeim ástæðum sem ég hef hér rakið tel ég mér ekki fært að mæla með samþykkt frv.