04.03.1987
Efri deild: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3702 í B-deild Alþingistíðinda. (3314)

308. mál, jarðræktarlög

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til jarðræktarlaga eins og það liggur hér fyrir eftir afgreiðslu Nd. á frv. Þetta frv. eins og það liggur fyrir er í veigamestu atriðum staðfesting á lögum nr. 71/1985. Þá var gerð breyting á jarðræktarlögum er gilda skyldi fyrir árin 1985 og 1986. Miðaði sú breyting að því að fella ákvæði jarðræktarlaga um ríkisframlög til jarðabóta að þeirri landbúnaðarstefnu sem mörkuð var með búvörulögunum nr. 46/1985. Hér er því um staðfestingu á þeirri stefnubreytingu jarðræktarlaganna að ræða þótt öðrum atriðum sé einnig nokkuð vikið til.

Frv. var til meðferðar á búnaðarþingi 1986. Það var hins vegar fullunnið af nefnd sem landbrh. skipaði 1984 og undirbjó frv. það til l. um breytingu á jarðræktarlögum sem samþykkt var hér á Alþingi vorið 1985.

Óþarfi er að gera langa grein fyrir frv. Aðalatriði þess má draga saman á eftirfarandi veg:

1. Staðfest eru bráðabirgðaákvæði laga nr. 71 1985 um framlög til jarðabóta, en þau fólust í eftirfarandi liðum: Dregið var úr framlögum sem stuðlað geta að aukningu búvöruframleiðslu í hefðbundnum búgreinum, svo sem til framræslu og grænfóðurræktar. Aukinn var stuðningur við heimaafla, svo sem endurræktun, bætta heyverkun og geymslu garðávaxta. Aukinn var stuðningur við nýjar og vænlegar búgreinar, svo sem loðdýrarækt.

2. Kröfur um menntun þeirra ráðunauta er starfa að leiðbeiningaþjónustu innan ramma laganna eru skilgreindar mun nánar en í eldri lögum.

3. Ýmis ákvæði laganna er fjalla um skilyrði um úttekt jarðabóta, takmarkanir á vegagerð og línulagnir um ræktað land og ræktanlegt, svo og um nýbýli og búskaparhæfi jarða, eru einfölduð og stytt.

Vegna breytinga sem orðið hafa í hefðbundnum landbúnaði hafa jarðabótaframkvæmdir breyst verulega. Í grg. með frv. er að finna yfirlit yfir jarðabætur skv. jarðræktarlögum á tímabilinu 197-1986. Kemur þar m.a. fram að ýmsar framkvæmdir, svo sem framræsla, nýrækt og byggingar gripahúsa, hafa dregist mjög saman á síðustu árum svo nú er þar aðeins um eðlilegt viðhald á þessum sviðum að ræða í samræmi við það framleiðslurými sem til staðar er.

Fjármagnsþörf til framlaga vegna þessara jarðabóta hefur því stórminnkað síðustu tvö árin. Hins vegar hafa framkvæmdir á öðrum sviðum vaxið og ber þar hæst loðdýraræktina, en með lagabreytingu árið 1985 var ákveðið að efla myndarlega stuðning við byggingar loðdýrahúsa. Þannig var fjármagninu beint til þeirra greina sem vaxtarmöguleika hafa í takt við markaða framleiðslustefnu landbúnaðarins.

Ég fjölyrði ekki frekar um einstök atriði frv., en undirstrika að lokum að frv. er sem fyrr sagði unnið í náinni samvinnu við búnaðarþing og Búnaðarfélag Íslands.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.