28.10.1986
Sameinað þing: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það gætir ýmiss konar tvískinnungs í þessari umræðu. Annars vegar er sá ágreiningur sem við heyrum að er uppi í flokki hæstv. landbrh. milli hans og formanns þingflokks framsóknarinanna og raunar kannske einhverra fleiri og hins vegar sú gagnrýni sem kemur frá fyrrv. landbrh. , hv. 1. þm. Norðurl. v.

En svo er sá tvískinnungur, sem líka er uppi í bændahræsni þeirra Alþýðubandalagsmanna sem ég leyfi mér að kalla svo. Annars vegar er það viðurkennt að útflutningsbæturnar séu allt of háar, en hins vegar virðist ekkert mega gera til að lækka þær. Það er hlutur sem einfaldlega gengur ekki upp.

Auðvitað er það rétt, sem hér hefur verið sagt, að hér er um að kenna áratuga stjórnleysi í landbúnaði og óheftri framleiðslustefnu. Ég minni á að Alþfl. hefur um langt árabil gagnrýnt þessa óheftu framleiðslustefnu og bent á leiðir til úrbóta. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr er það viðurkennt af flestum þeim sem hafa um þessi mál fjallað að framleiðendur séu of margir og framleiðslan of mikil og hún er okkur of dýr. Eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði áðan þýðir ekkert að framleiða vöru sem selst ekki. Þess vegna verða menn að kyngja því að það þarf að gera ráðstafanir til að auðvelda mönnum að hætta framleiðslu og bregða búi. Um það hafa verið lagðar fram tillögur á Alþingi í mörg ár og ég hygg að aðstaðan í þessum efnum væri önnur nú ef fyrr hefði verið hlustað á þær tillögur sem Alþýðuflokksmenn hafa haft fram að færa í þessum efnum. Það er fyrst nú þegar komið er í óefni sem farið er að grípa til ráðstafana sem hefur verið mælt með og lagt til um mörg, mörg undanfarin ár. Þá er það kannske gert harkalega og með litlum undirbúningi þannig að betur hefði öðruvísi verið að farið.

Hér er um mannleg vandamál að ræða. Hér er um ævistarf fólks að ræða. Hér er um eignir fólks að ræða, aleigu fólks í flestum tilvikum. Þess vegna verður ekki beitt neinum reglustikuaðferðum. En það er alveg öruggt mál að það þarf að veita stórauknu fjármagni til að auðvelda bændum að bregða búi og hætta framleiðslu. Það hefur löngu verið ljóst og það þýðir ekkert fyrir menn að vera að berja hausnum endalaust við steininn í þeim efnum.