04.03.1987
Neðri deild: 52. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3757 í B-deild Alþingistíðinda. (3368)

359. mál, stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands

Sverrir Sveinsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð um þetta frv. sem hér liggur fyrir. Ég vil þakka viðskrh. fyrir að það skuli loks komið fram þetta frv. eins og það liggur fyrir um Útvegsbankann og uppstokkun hans. Ég hef ekki haft tök á að kynna mér þetta mál, enda nýgræðingur hér, en hins vegar verð ég að segja að það að minni hl. fjh.- og viðskn. í Ed. kemur sér ekki saman um nál. segir mér að þar skorti nú töluvert á samstöðu til þess að byggja upp mótmæli á móti þeirri aðgerð sem í frv. felst.

Það að Útvegsbankinn skuli ekki endurreistur í sinni fyrrverandi mynd heldur byggt um hann hlutafélag bind ég töluvert miklar vonir við. Við fylgdumst auðvitað með þeirri umræðu sem var og afleiðingum af því hvernig fyrir bankanum fór. Við skulum ekki dvelja lengi við það liðna, það er liðin tíð, en ég minni á að þegar umræðan var hvað hæst, þá fékk Útvegsbankinn mjög mikinn stuðning viðskiptamanna sinna á Suðurnesjum. Ég tel að þær hugmyndir að byggja bankann upp með 25% erlendu fjármagni séu af hinu góða og ég held líka að það sé mjög gott fyrir útibúin á landsbyggðinni að Úvegsbankinn skuli tengjast með þeim hætti við Fiskveiðasjóð sem gert er ráð fyrir í þessu frv.

Ég tek það fram að ég hef ekki lesið þetta frv. en ég bind miklar vonir við að það nái hér afgreiðslu og það fljótt, því að minni sveitarfélögin sem búa við það að hafa Útvegsbankann sem sinn aðalbanka hafa vissulega orðið fyrir barðinu á þeirri óvissu sem hann hefur verið í nú undanfarna mánuði.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.