09.03.1987
Neðri deild: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3856 í B-deild Alþingistíðinda. (3507)

410. mál, almannatryggingar

Frsm. allshn. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga á þskj. 767 um breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 67/1971, með síðari breytingum. Allshn. flytur þetta frv. og er það viðbót við 14. gr. laganna um almannatryggingar. Við hana bætist ný málsgr.

Í frv. felst að lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins er heimilað að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmenna á aldrinum 18-20 ára ef annað foreldri eða báðir foreldrar eru látnir og enn fremur ef foreldrar eru ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar, annað eða báðir. Er að finna í þessu frv. ítarleg ákvæði um nánari útfærslu þessarar heimildar fyrir lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins.

Þá felst einnig í þessu frv. að tryggingaráði er heimilað að kveða upp úrskurð um þetta efni að nánar uppfylltum skilyrðum.

Þess skal getið að nefndin fjallaði á fundum sínum um frv. til laga um breytingu á barnalögum nr. 9 frá 15. apríl 1981 sem flutt er á þessu þingi af Jóhönnu Sigurðardóttur og Guðrúnu Helgadóttur á þskj. 13. Efnisatriði þess frv. sem nefndin fjallaði um eru tekin upp í þetta frv. sem allshn. flytur. Það varð að ráði í nefndinni að flytja sérstakt frv. um þetta efni fremur en að afgreiða frv. á þskj. 13.

Hér er hins vegar gert ráð fyrir heimild lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar til greiðslu barnalífeyris án þess að valdsmaður úrskurði það á grundvelli barnalaganna.

Þá er í þessu frv. einnig fjallað um ýmis önnur atriði er varða hlutverk lífeyrisdeildarinnar og tryggingaráðs á þessu sviði sem leiðir af eðli málsins og ekki var um að ræða í frv. um breytingu á barnalögunum. Þóttu nefndinni ekki standa efni til að gera breytingar á þeim lögum í þessu skyni.