10.03.1987
Neðri deild: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3887 í B-deild Alþingistíðinda. (3564)

342. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér eru á dagskrá 1., 2., 3. og 6. mál sem eru í raun og veru sama málið. Þetta eru breytingar á skattalögunum og lögunum um tekjustofna sveitarfélaga út frá frv. til laga um staðgreiðslu opinberra gjalda og frv. til laga um gildistöku staðgreiðslu opinberra gjalda.

Ég mun ræða almennt um skattamálin út frá þessum frv., ekki fara ofan í einstök efnisatriði á þessu stigi málsins, enda hafa málin reyndar þegar fengið mjög ítarlega meðferð í hv. Ed. Ég mun þess vegna láta nægja af okkar hálfu að tala undir þessum dagskrárlið, en síðan fer málið í þá nefnd sem ég á sæti í og þar munum við fara yfir málin.

Ég vil þá í fyrsta lagi segja það, herra forseti, að hér er um að ræða mjög viðamikil mál, mál sem snerta hvern einasta landsmann mjög og lífskjör. Þess vegna tel ég að það sé ákaflega hæpið að ekki sé meira sagt að ætlast til þess af Alþingi að það með sæmilega góðri samvisku afgreiði þessi mál í hvelli á örfáum sólarhringum eða án þess að þau fái mjög rækilega meðferð. Ég mun þess vegna gera það að tillögu minni í hv. fjh.- og viðskn., þar sem ætlunin mun vera að afgreiða þetta mál tiltölulega hratt af hæstv. ríkisstjórn og meiri hluta þingsins, að það verði skipuð á vegum þingsins milliþinganefnd til að fjalla um þessi skattamál ásamt þessari ríkisstjórn og þeirri næstu fram á haustið þannig að þingflokkarnir eigi aðgang að meðferð þessa máls, ekki aðeins næstu daga heldur líka í sumar. Ég tel að það sé algjört lágmarksatriði að slík milliþinganefnd verði til og mér þætti það satt að segja í meira lagi ósanngjarnt og ólíklegt að stjórnarmeirihlutinn hafnaði tillögu af þessum toga því að það er ekki með neinni sanngirni hægt að ætlast til þess að þingheimur setji sig inn í þessi mál nægilega vel, varla í grófum dráttum hvað þá heldur í smáatriðum sem ætti þó að vera reglan, þegar þingnefnd og Alþingi fjallar um mál, að þm. sem í viðkomandi nefndum sitja a.m.k. þeir komist niður í málin í einstökum atriðum, atriðum sem kölluð eru smáatriði, tæknileg atriði, en þó geta skipta gríðarlega miklu máli fyrir alla framkvæmd mála af þessu tagi. Þess vegna vil ég byrja mína ræðu á því að nefna þessa hugmynd um milliþinganefnd því ég tel að í rauninni sé ekki hægt fyrir þingið og ekki hægt fyrir ríkisstjórnina að ætlast til þess af þinginu að menn rusli þessu hér í gegn, svo mikilvæg löggjöf sem hér er á ferðinni, aðeins á nokkrum sólarhringum öðruvísi en að þingflokkarnir hafi tök á að fylgjast með meðferð málsins á næstu vikum og mánuðum. Það hefur reyndar verið viðurkennt af hæstv. fjmrh. að þessi mál þurfi að athuga áfram, það sé ekki hægt að gera ráð fyrir að þau verði fullsköpuð og fullgerð á þessum sólarhringum. Þess vegna þurfi að skoða málið fyrir haustið. Þess vegna geri ég ráð fyrir að þessi hugmynd hljóti að eiga jákvæðum móttökum að fagna alls staðar þar sem menn skoða þessa hluti af sanngirni.

Ég vona a.m.k. að hæstv. ríkisstjórn taki þessu vel en hafni ekki slíkri hugmynd þó hún sé komin frá stjórnarandstöðuflokki, en það hefur verið venjan á þessu kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar, sem hefur haft talsverðan meiri hluta hér á þinginu, að hafna í raun og veru öllum tillögum sem fram hafa komið frá stjórnarandstöðunni bæði um mál og málsmeðferð sem ég vona sannarlega að verði ekki í þessu tilviki. Bæði af þeim ástæðum, sem ég hef nefnt, að þetta er flókið mál og líka af þeim ástæðum að það er nauðsynlegt að það skapist almennt sem víðtækust samstaða um skattakerfið hér í landinu, skattakerfið er einn hornsteinn samneyslunnar, hinnar félagslegu þjónustu ríkisbúskaparins á Íslandi sem tekur til sín talsverðan hluta af þjóðartekjunum, þó mikið lægri hér á landi en í öðrum löndum í nágrenni við okkur, held ég að skipun milliþinganefndar mundi í þessu efni geta greitt fyrir því að þm. gætu skilað málum af þessu tagi í gegnum þingið með sæmilegum hraða. Ella er hætta á því að málið verði að taka mjög langan tíma eða mun lengri tíma en ella væri.

Ég vil þessu næst, herra forseti, benda á að þm. Alþb. fluttu í hv. Ed. nokkrar brtt. við þessi frv. Þær brtt. lúta að fyrirtækjunum sérstaklega. Um leið og hér er tekin ákvörðun um einföldun skatta einstaklinga, sem er höfuðkostur þessara tillagna að mínu mati, hefði auðvitað verið eðlilegt að taka ákvörðun um einföldun á skattlagningu fyrirtækja, fækkun á frádráttarliðum fyrirtækja og það verulega fækkun, en fyrirtækin eru með mjög marga frádráttarliði sem skila þeim vafalaust tekjuskattsbyrði sem er léttari svo nemur 1000-2000 millj. kr. Ég hefði talið eðlilegt að taka á þessum fyrirtækjamálum um leið, en ríkisstjórnin hefur ekki fengist til þess að ljá till. um það efni lið, því miður, núna á undanförnum vikum þegar þetta mál hefur verið til meðferðar í hv. Ed.

Ég vil einnig víkja að því að hv. 3. þm. Norðurl. v. flutti um það brtt. að leigjendur fái sömu húsnæðisbætur og húsbyggjendur. Leigjendur sem nýttu sér frádrátt frá skatti við seinustu álagningu voru 1600 talsins og þeir fengu samtals um 60 millj . kr. í frádrátt. Ég tel að það sé fráleitt að greiða húseigendum húsnæðisbætur en að leigjendur fái alls ekki neitt og missi það litla sem þeir höfðu í frádrátt. Oftast eru leigjendur reyndar verr settir í húsnæðismálum en aðrir. Þess vegna væri það fyrir neðan allar hellur ef þeir gleymdust eða þeim yrði sleppt þegar byrjað er í fyrsta sinn að greiða út húsnæðisstyrki eins og hér er gerð tillaga um.

Þá vil ég einnig benda á að samkvæmt tillögum frv., bæði varðandi húsnæðisbæturnar og ákvæði til bráðabirgða um vexti, er ljóst að húsbyggjendur og íbúðakaupendur, sem fóru illa út úr misgengi launa og lána, eru verr settir ef að líkum lætur eftir ákvæðum þessa frv. en þeir eru nú. Þetta er atriði sem ég tel óhjákvæmilegt að verði skoðað rækilega í hv, þingnefnd og vil fara fram á það við hæstv. fjmrh. að hann hlutist til um að ítarlegar upplýsingar nákvæmlega um þetta efni verði lagðar fyrir fjh.- og viðskn. þannig að hún geti tekið á þessu máli.

Þá vil ég einnig minna á að með þeim breytingum sem hér eru gerðar breytist verulega staða þeirra sem eru að koma í fyrsta sinn inn á vinnumarkaðinn. Þeir sem eru að koma í fyrsta sinn inn á vinnumarkaðinn, hvort sem um er að ræða þá sem hafa nýlega lokið löngu námi eða þá sem eru að koma inn á vinnumarkaðinn fyrr á æviferlinum, hafa sloppið við að greiða skatta á fyrsta starfsári. Með ákvæðum frv. eins og það er óbreytt er ljóst að það lenda skattar á þessu fólki sem stundum a.m.k. og alloft og oftar nú orðið en áður er með á bakinu talsverðar námsskuldir. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að það verði kannað rækilega í hv. nefnd hvort unnt er að koma til móts við þetta fólk. Ég vil þó taka það fram sem mína skoðun að ég tel að það sé nauðsynlegt að halda inni í þessum textum svo lengi sem mögulegt er einföldunaratriðinu. Ég tel að það sé afar mikill kostur að skattakerfið sé einfalt og gagnsætt.

Ég vil þá minna hér á að í Ed. fluttu þm. Alþb. till. um verulega lækkun á skattbyrði einstaklinga, um 1200 millj. kr. og samsvarandi hækkun á skattbyrði fyrirtækja og að skattfrelsismörk einstaklinga yrðu 38 000 kr. á mánuði í stað 33 000 kr. og tekjuskattsfrelsismörk færu úr 38 000 kr. í 50 000 kr. á mánuði. Í hv. Ed. var þessum till. Alþb. hafnað þó að bent væri á tekjur á móti með skilmerkilegum hætti og mun ég kanna það í þessari hv. deild hvort unnt er að ná víðtækara samkomulagi um þetta mál en unnt var í hv. Ed.

Ég vil einnig nefna það, herra forseti, að þó ég sé almennt þeirrar skoðunar að það eigi að halda nokkuð stíft í einföldunarákvæðin tel ég rétt að minna á að inni í þessum skattatillögum er gert ráð fyrir að taka inn í skattaprósentu ríkissjóðs Framkvæmdasjóð aldraðra. Lögin um Framkvæmdasjóð aldraðra renna úr gildi núna um næstu áramót. Ég tel að þrátt fyrir það að þau lög hafa verið í gildi í fjögur eða fimm ár séu svo hrikaleg verkefni óunnin á vegum Framkvæmdasjóðs aldraðra að það sé beinlínis fráleitt að fella niður lagaákvæði um markaðan tekjustofn í Framkvæmdasjóð aldraðra. Ég óttast það, herra forseti, ef það gerist að Framkvæmdasjóður aldraðra verður tekinn inn í ríkissjóð með þeim hætti sem hér er gerð till. um, að á þrenging- og erfiðleikatímum ríkissjóðs, sem alltaf eru, muni menn hyllast til þess að skerða fremur en hitt þau framlög sem eiga að fara í Framkvæmdasjóð aldraðra. Ég viðurkenni fúslega að þetta mál er mér dálítið skylt með þeim hætti að ég hafði með það að gera þegar þessi sjóður varð til, en ég held þó að það sé sanngirni að óska eftir því að þetta mál verði athugað sérstaklega sem lýtur að Framkvæmdasjóði aldraðra.

Hér í Reykjavík eru 1100 manns á biðlistum fyrir þjónustu aldraðra. Þar af eru 340 sem búa við mjög alvarlegar kringumstæður á heimilum. Það er bersýnilegt að ef ekki verður aukið við hraðann í framkvæmdum í þágu aldraðra á næstu árum búum við í Reykjavík á hundruðum heimila við verulega alvarlegt ástand að ekki sé sagt neyðarástand. Og þegar maður horfir upp á að B-álma Borgarspítalans stendur óhreyfð árum saman, þrjár eða fjórar hæðir hafa verið tilbúnar til lokaátaks í þrjú ár án þess að nokkuð hafi verið gert, getur maður ekki með góðri samvisku ýtt frá sér þeirri hugsun að það verði að verja þennan tekjustofn. Ég tel að það sé hægt án þess að flækja þessi lög. Ég tel að það sé ósköp einfaldlega hægt með því að segja í lögunum að af þeim 28,5% sem renna eiga í ríkissjóð samkvæmt frv. skuli tiltekinn hluti renna í Framkvæmdasjóð aldraðra og að miða eigi þá tölu við þær tekjur sem Framkvæmdasjóður aldraðra hefur á þessu ári. Ef það væri gert ætti prósentan í Framkvæmdasjóð aldraðra að vera 0,77% af heildarskattlagningunni í ríkissjóð upp á 28,5%. Hér væri engin breyting á ferðinni önnur en sú að því væri slegið föstu að þessir fjármunir ættu að fara á þennan stað rétt eins og ákveðið er að sveitarfélögin eigi að fá tiltekna prósentu. Hér er ekki verið að breyta innheimtunni. Hér er ekki verið að breyta prósentunni sem rennur í ríkissjóð. Hér væri sagt: Hluti af þessari tölu eða 0,77-0,80% á að renna í Framkvæmdasjóð aldraðra.

Ég held að þetta sé mjög mikilvægt, herra forseti, og ég held að það væri mjög slæmt ef við létum þessi mál fram hjá okkur fara án þess að ræða þetta mjög alvarlega og finna leið til að tryggja framkvæmdir í þágu aldraðra. Það kann að vera að það sé til önnur leið sem er skýrari í þessu efni en sú sem ég er að gera tillögu um, önnur leið sem er einfaldari, en ég áskil mér allan rétt til að halda þessu máli til streitu vegna þess að ég tel að hér sé um svo stórt mál að ræða að ég segi í fullri hreinskilni: Ef það er ekki gert fyrir kosningar er það aldrei gert. Ef menn taka ekki á svona máli í aðdraganda kosninga er hætt við að það liggi afvelta um margra ára skeið og það er hættulegt.

Að undanförnu hefur hæstv. fjmrh. reynt að skreyta sig með því, m.a. á landsfundi Sjálfstfl., að hann sé svo að segja búinn að leysa öll vandamál í þjóðfélaginu, ekki aðeins verðbólguna og húsnæðismálin heldur líka skattamálin. Hann gleymir auðvitað að tíunda það í þessum ræðum sínum að þær lausnir sem fengist hafa í þessum málum eru lánslausnir, lausnir sem verkalýðshreyfingin í landinu hefur gert tillögu um og knúið ríkisstjórnina til að reyna að framkvæma. Þetta á sérstaklega við um skattamálin þar sem ferill núverandi hæstv. fjmrh. er ákaflega lágkúrulegur að ekki sé meira sagt.

Núverandi fjmrh. afrekaði það á fyrsta ári sínu sem fjmrh. að vera með þyngri tekjuskattsbyrði á launatekjum en verið hafði um nokkurt skeið. Þegar til þings kom í haust lýsti hann því yfir að hann ætlaði að leggja á olíuskatt upp á 600 millj. kr. Sú tillaga hafði legið hér fyrir manna á milli, ekki í frumvarpsformi, og þegar nokkrar vikur voru liðnar lýsti hæstv. fjmrh. því yfir: Nei, nei ég er hættur við að leggja á olíuskattinn. Það er ekki ástæða til þess í þessari stöðu.

En skömmu síðar kom enn ný skattatillaga frá hæstv. fjmrh., frv. til laga um virðisaukaskatt, og þá voru skrifaðar greinar síðu upp og síður niður í Morgunblaðinu um virðisaukaskatt, tekin viðtöl við forustumenn Sjálfstfl. sem vottuðu formanninum hollustu sína í þessu skattamáli svo að segja hver einasti maður úr þingflokki Sjálfstfl., ég man að vísu ekki eftir hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, en mörgum hinum, og það voru haldnar um þetta ræður á hv. Alþingi að viðstöddum embættismönnum fjmrn. sem lögðu ráðherra sínum lið í umræðum um þetta mál. Fjmrh. sagði að það væri mjög nauðsynlegt að leggja á virðisaukaskatt og þyrfti endilega að klára það á þessu þingi.

Alþfl., sem var búinn að samþykkja virðisaukaskatt á landsfundinum í Hótel Örk, komst að þeirri niðurstöðu að hann ætti ekki að samþykkja virðisaukaskattinn og sérstaklega þó vegna þess að það var gert ráð fyrir hliðarráðstöfunum, félagslegum ráðstöfunum, en eins og kunnugt er er Alþfl. stundum á móti félagslegum ráðstöfunum sem er nokkuð sérkennilegt. Þess vegna hafnaði hann virðisaukaskatti.

Niðurstaðan varð svo sú að þessi virðisaukaskattsmeirihluti á þinginu rann út í sandinn. Hæstv. fjmrh. hætti við að leggja á virðisaukaskatt, enda voru þá gerðir kjarasamningar.

Þá komu mætir menn úr verkalýðshreyfingunni, m.a. Björn Björnsson, Ásmundur Stefánsson og fleiri, og kynna tillögur um staðgreiðslukerfi skatta, birta þær í Morgunblaðinu fyrir einum þremur mánuðum í greinum. Þá grípur fjmrh. tækifærið, eftir að það hafði verið barið á puttana á honum bæði í olíuskattinum og virðisaukaskattinum, og það er haft viðtal við hann í Morgunblaðinu. Það var viðtal sem minnti mig ákaflega mikið á forvera hæstv. fjmrh. í formannsstóli Sjálfstfl. Viðtalið bar þessa yfirskrift: „Þorsteinn Pálsson um staðgreiðslukerfi skatta: „Gerum þessa tilraun af fullri alvöru“". Þá er hann búinn að renna á rassinn með tvær skattlagningartillögur, fyrst olíuskatt upp á 600 millj., síðan virðisaukaskattinn sem hækkar matvörur um 20% og þá kemur fram þessi tillaga í kjarasamningunum um staðgreiðslukerfi skatta og hann grípur það hálmstrá auðvitað og segist gera þá tilraun af fullri alvöru.

Ég verð hins vegar að segja eins og er að mér finnst að það hafi ekki verið nægilega vel unnið að þessari tilraun, ekki verið nægilega vel að því unnið að kalla saman þá aðila í þjóðfélaginu sem hér eiga hagsmuna að gæta og þá aðila sem hér þurfa um málin að fjalla. Ég bendi t.d. á lítilfjörlegt samráð við sveitarfélögin í landinu og það mætti nefna fleiri aðila í þeim efnum. Aðalatriðið finnst mér þó vera það, herra forseti, að staðgreiðslan sem slík, einföldunin sem slík, er jákvæð, það er engin spurning, en hin tæknilega útfærsla er með þeim hætti að það er ekki hægt með neinni sanngirni að gera kröfu til þess að þm. afgreiði hana núna á nokkrum sólarhringum. Þess vegna nefndi ég þessa hugmynd um milliþinganefnd í upphafi máls míns.

Þrátt fyrir hugsanlega afgreiðslu frv. á þessu þingi er engu að síður alveg ljóst að allt skatta-, tekjuöflunar- og útgjaldakerfi ríkisins er í uppnámi. Það stafar af því að hallinn á ríkissjóði á þessu ári er 3000 millj. kr. Það gengur ekki að reka ríkissjóð með slíkum halla til langframa. Það er útilokað. Þess vegna er ákvörðunin um staðgreiðslukerfi skatta vissulega þýðingarmikil, en á bak við þá staðreynd, á bak við þá niðurstöðu þingsins er sá veruleiki að það eru uppi tillögur um að leggja á virðisaukaskatt. Sjálfstfl. ætlar að leggja á virðisaukaskatt og það er 100% ljóst að hver sem tekur hér við eftir kosningar verður að taka á þeim hrikalega vanda sem Sjálfstfl. skilur eftir sig að því er varðar ríkissjóð.

Sjálfstfl. hélt um síðustu helgi landsfund undir kjörorðinu „Á réttri leið“. Það hefði kannske verið við hæfi að botna það kjörorð með þeim hætti að segja sem svo þeim til háðungar: Á réttri leið með ríkiskassann. Staðreyndin er sú að aldrei um langt árabil er um að ræða annan eins viðskilnað á högum ríkissjóðs og er um að ræða af hálfu Þorsteins Pálssonar hæstv. fjmrh.

Herra forseti. Ég mun af minni hálfu ekki fara hér út í einstök atriði þessara mála, lít svo á að hér séum við að ræða um dagskrármál 1, 2, 3 og 6 og vísa til nál. sem birst hafa með þessum málum í Ed. frá Alþb., en áskil mér að öðru leyti rétt til að fara rækilega yfir málin í hv. þingnefnd og við 2. og 3. umr. málsins.