10.03.1987
Neðri deild: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3903 í B-deild Alþingistíðinda. (3567)

342. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Hér eru enn á ferð þau vinnubrögð sem mér þykja verst hér á þingi. Það er flausturslegur undirbúningur mála og hraðvirkni og þar af leiðandi hroðvirkni vegna pólitísks þrýstings og sýndarmennsku. Áhersla er augljóslega lögð á þessi skattamál vegna þess að kosningar fara í hönd og þá helst á staðgreiðslukerfi skatta sem virðist vera orðið eitt allsherjar lausnarorð.

Það er næsta fáránlegt að keyra hér í gegn á síðustu dögum þingsins svo flókin og viðamikil mál hálfköruð til þess eins að taka þau aftur upp í haust. Nær hefði verið fyrir stjórnarliðið að nota veturinn og vanda sig betur ef þeir hefðu borið raunverulegan vilja til verksins. En þeim þykir líklega betra að veifa röngu tré en öngu eins og segir einhvers staðar. Þess vegna vil ég taka undir og álít það neyðarráðstöfun að setja á laggirnar milliþinganefnd í sumar til þess að vinna betur að þessu máli ef það verður samþykkt og fer hér í gegnum þingið og reyndar þeim fylgifrumvörpum sem með því fara því að ég mun ræða um þau flest í máli mínu nú.

Engin spurning er um það að endurskoða þarf skattakerfið frá grunni. Því eru flestir sammála og Kvennalistakonur innilega sammála og telja slíka endurskoðun og endurskipulagningu mjög brýna. Á sama hátt erum við einnig innilega sammála því að taka upp staðgreiðslukerfi skatta, enda höfum við tvisvar flutt um það till. til þál. á þessu kjörtímabili og nú síðast á þessu þingi og er það að ég hygg 38. mál þingsins. Hins vegar þarf að standa mun betur að því þegar slíku er komið á þó að við fögnum því að sjálfsögðu að skriður skuli vera kominn á málið. Við höfum hins vegar fjöldamargt við það að athuga hvernig hæstv. fjmrh. ætlar að standa að þessari skattkerfisbreytingu og við höfum líka margt við það að athuga, þ.e. við það skattafyrirkomulag sem hæstv. ráðh. boðar í þeim lagafrumvörpum sem komin eru fram í málinu. Það sem mér finnst einna alvarlegast í raun við þær skattkerfisbreytingar sem gera á er að þeim er nær öllum beint gegn fjölskyldunni. Þær eru ekki fyrir fjölskylduna, þeim er beinlínis beint gegn fjölskyldunni.

Í fyrsta lagi vil ég geta þess að skattkerfisbreytingin nær aðeins til launamanna. Skattlagningu á fjármagns- og eignatekjur og skattlagningu á fyrirtæki hefur ekki verið breytt og það er vitaskuld fráleitt. Ef menn eru að fara út í skattkerfisbreytingu á annað borð verður hún auðvitað að ganga yfir alla beina skattlagningu í landinu í einu, ekki aðeins hluta hennar eins og hér er lagt til.

Ein rökin fyrir því að taka upp þessa breytingu eru þau að með henni ætti skatturinn að skila sér betur. Undanskot eins og þau eru kölluð og skattsvik verði erfiðari en nú er en allir harma þau skattsvik sem renna frá samneyslunni eins og nú er. Hins vegar verður manni á að spyrja hvort það séu í raun fyrst og fremst launamenn sem stundað hafa skattsvik hér í þessu landi, hvort þeir hafi í raun bestar aðstæður og bolmagn til þess, hvort það séu ekki í raun fyrirtækin sem geti fyrst og fremst millifært eigna- og fjármagnstekjur til skattsvika. Þessar skattkerfisbreytingar eiga ekki að ná yfir fyrirtækin og það er eiginlega alveg óskiljanlegt.

Hæstv. ráðh. hefur gefið þær skýringar að það hefði ekki verið tími til þess að hyggja að svo víðtækum breytingum sem næðu líka yfir fyrirtækin. En þá er spurningin, hvers vegna liggur hæstv. ráðh. svona mikið á? Hvers vegna vill hann heldur fara hálfa leið og taka minnstu bitana í ríkissjóð en að leggja áherslu á þann hluta leiðarinnar sem hefði gefið honum feitustu bitana í ríkissjóð við skattheimtuna?

Í öðru lagi má benda á það að þessi frumvörp eru á vissan hátt mótsögn gegn þeirri stefnu sem núv. ríkisstjórn hefur fylgt. Má sem dæmi nefna að hún hefur haft á stefnuskrá sinni og reyndar Alþingi samþykkt einróma að stefnt skuli að því að afnema tekjuskattinn af almennum launatekjum í áföngum. En þessi frumvörp staðfesta í raun tekjuskattinn, bæði frv. um staðgreiðslu tekjuskatts og álagningarreglur tekjuskatts, skatts á almennar launatekjur. Það er ekki verið að draga úr skattinum því að það er ekki um að ræða neina verulega linun á skattbyrðinni nema e.t.v. alveg neðst í tekjustiganum, og það er sjálfsagt að fagna því, og svo hins vegar, sem er öllu verra, efst í tekjustiganum og má reyndar sjá ljóslega af þeim línuritum sem fylgja frv. um tekjuskatt og eignarskatt að ef skattprósentan er aðeins ein virkar hún þannig að því hærri tekjur sem skattgreiðandi hefur því minna borgar hann hlutfallslega af sínum tekjum í skatt miðað við núverandi álagningarkerfi. Við Kvennalistakonur hefðum hins vegar viljað sjá verulega létta skattbyrði a neðri hluta tekjustigans og að skattleysismörkin hefðu verið hækkuð mun verulegar en ráð er fyrir gert í þessu frv.

Í þriðja lagi ber þetta frv. og þær skattkerfisbreytingar sem lagðar eru til keim af því að ríkissjóður sé borinn fyrir brjósti mun meir en hagur þess fólks sem á að búa við skattkerfið. Megináhersla virðist lögð á það, það er eiginlega gefin útkoma út úr dæminu, að ríkissjóður eigi að koma út svipað og nú. Í sjálfu sér má vorkenna þeim auma ríkissjóði sem við búum við nú, jafnilla staddur og hann er, en þetta er ekki aðferðin til þess að bæta fé í hann að okkar mati, þar sem einungis er gengið í vasa launamannanna. T.d., ef við lítum á persónuafsláttinn, er upphæð hans ákveðin með það í huga, eftir því sem best verður af þeim gögnum séð sem fram hafa komið í málinu, að dæmið reiknist svipað fyrir ríkissjóð en upphæðin er ekki ákveðin út frá því hvernig persónuafslátturinn nýtist mismunandi tekjuhópum sem væri í raun réttlátast miðað við aðstæður skattgreiðenda hverju sinni. Sama er að segja um húsnæðisbæturnar. Þar er ekki tekið tillit fyrst og fremst til aðstæðna húsbyggjendanna. Þar er reikningsdæmi ríkissjóðs lagt til grundvallar fyrst og fremst.

Í fjórða lagi er því haldið fram í frv. um staðgreiðslu opinberra gjalda að nauðsyn sé að afnema ýmsa frádráttarliði til þess að koma þessu frv. á og segir t.d. í athugasemdum um 3. og 4. gr. frv.:

„Afnám hinna fjölmörgu frádráttarheimilda frá tekjum, sem í gildi hafa verið í lengri eða skemmri tíma, er forsenda þess að tekið verði upp staðgreiðslukerfi skatta sem bæði uppfyllir þær kröfur að vera einfalt og öruggt í framkvæmd.“

Nú veit ég að þetta er ekki nauðsynlegt. Ég bjó í mörg ár sjálf við staðgreiðslukerfi skatta í Bretlandi þar sem margvíslegir frádráttarliðir giltu þó svo að þetta kerfi væri notað, t.d. námsfrádráttur, frádráttur vegna aldraðra foreldra sem skattgreiðandi kynni að hafa á framfæri, frádráttur vegna barna í skóla, vegna stofnunar heimilis, húsnæðiskaupa o.s.frv. Þetta var ekki flókið í framkvæmd en það tók tillit til einstaklinganna og aðstæðna þeirra til þess að greiða til samneyslunnar. Ég vil vekja athygli á þessu. Ég sé ekki hvernig þetta tvennt þarf að fara saman, þ.e. staðgreiðsla skatta og afnám frádráttarliða.

Í raun finnst mér að hér sé í skjóli staðgreiðslukerfisins verið að koma á veigamiklum skattkerfisbreytingum sem vega að öryggi fjölskyldunnar og ég óttast það mjög. Það hefur ekki verið tekið nærri nægilegt tillit til aðstæðna fjölskyldunnar í þessum efnum og sérstaklega þar sem undan eru alveg skilin fyrirtæki og þeir sem meira fjármagn hafa undir höndum.

Mig langar að víkja lítillega að húsnæðisbótunum sem teknar eru til í þessum frumvörpum. Það er lagt til að felldur verði niður vaxta- og verðbótafrádráttur húsnæðiskaupenda. Þar er verulega skertur möguleiki ungra barnafjölskyldna til að kaupa nægilega stórt húsnæði á meðan börnin eru heima við og að bætast í hópinn miðað við þau fjármagnskjör sem nú eru í gildi. Húsnæðisafslátturinn á aðeins að miðast við fyrstu kaup og það gerir það að verkum að fólk á ekki jafnauðvelt með, og er það nú býsna erfitt fyrir reyndar en það verður enn þá erfiðara, að kaupa og selja íbúðir með stuttu millibili eins og tíðkast hefur hér á landi í þeim tilgangi að komast á einhverjum tímapunkti í endanlegt húsnæði. Það er afleitt að þetta frv. skuli ekki taka mið af þeim veruleika sem er hér á Íslandi í dag, þ.e. að fólk stækkar stöðugt við sig húsnæði uns það hefur náð heppilegri stærð á þeim árum sem börnin eru að bætast í hópinn. Þess vegna er þetta fyrirkomulag með að greiða einungis húsnæðisbætur í fyrsta sinn mikill bjarnargreiði fyrir þær fjölskyldur sem hyggjast eignast fleiri börn, nema þetta frv. miði í raun að því að koma í veg fyrir að fólk eignist börn, takmarka barneignir.

Þá langar mig að víkja máli mínu að því sem tekið er fram í 3. og 4. gr. frv. um tekju- og eignarskatt. Þær greinar kveða á um niðurfellingu frádráttarliða, þó með þeim undantekningum sem finna má í 3. gr. frá tekjum utan atvinnurekstrar, og vísa þessar greinar til 30. gr. núgildandi skattalaga. Í 3. og 4. gr. frv. eru flestir frádráttarliðir felldir niður en ekki allir því B-liður 30. gr. er látinn standa óbreyttur. Hvaða frádráttur er það sem áfram verður heimilaður? Það er frádráttur vegna vaxtatekna, affalla og gengishagnaðar. Það er frádráttur vegna arðs að hámarki 10% af nafnverði hvers einstaks hlutabréfs. Það er fé sem fært hefur verið félagsmanni í félagi af viðskiptum hans utan atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi og það er fé það sem varið er til aukningar á fjárfestingu í atvinnurekstri á árinu samkvæmt lögum um frádrátt frá tekjum manna vegna fjárfestingar í atvinnurekstri sem við könnumst við frá fyrsta þingi þessa kjörtímabils. Það er sem sagt allur fjármagnsarður utan atvinnurekstrar sem enn þá er frádráttarbær. Hvers vegna var þessi frádráttur ekki einnig felldur niður eins og aðrir frádráttarliðir í A-, C-, D- og E-liðum þessarar greinar skattalaganna? Hvaða rök gilda fyrir því að fella niður frádrátt vegna vaxtakostnaðar en ekki vegna vaxtatekna? Hvers vegna fá menn frádrátt fyrir að eiga fé og taka vexti af því en ekki fyrir að greiða vexti af skuldum sínum?

Ég mun ekki hafa mörg fleiri orð í þessari 1. umr. um þessi frumvörp. Það má segja að meginlínurnar í þessum nýju skattafrumvörpum séu í fyrsta lagi að það er komin fram staðfesting á tekjuskatti launamanna í stað afnáms hans eða umtalsverðrar lækkunar eins og þessi ríkisstjórn hefur haft á stefnuskrá sinni. Í öðru lagi eru á ferðinni stórfelldar skattkerfisbreytingar í skjóli þess að taka upp staðgreiðslukerfi. Og í þriðja lagi hefur heildarendurskoðun skattkerfisins verið snúið í endurskoðun á skattkerfi launamanna án þess að létta skattbyrðar þeirra að verulegu leyti. Þetta mál og þau öll reyndar hafa verið í umfjöllun Ed. þar sem voru gerðar ýmsar brtt. bæði af hálfu meiri hl. og eins af hálfu þriggja minni hluta. Hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir gerði brtt. fyrir hönd Kvennalistans við þetta frv. sem hér er rætt um, um tekju- og eignarskatt. Þær eru á þskj. 772 og eru í stuttu máli á þá leið að þær fjalla í fyrsta lagi um niðurfellingu samsköttunarákvæða sem við erum í raun mjög mikið á móti, samsköttunarákvæðunum, og auknar greiðslur barnabóta. Við teljum að það sé nauðsynlegt að hafa hliðsjón af fjölskyldustærð skattgreiðenda í skattalögum og þess vegna liggi beinast við að nýta þá fjármuni sem frv. gerir ráð fyrir að fari til samsköttunar til hækkunar barnabóta. Við leggjum til að þeim fjármunum sem samkvæmt frv. og gildandi skattalögum yrði varið til samsköttunar hjóna sé í þess stað varið til hækkunar barnabóta. Með þessu lagi yrði um nær 100% hækkun barnabóta að ræða og við teljum að fjárhagslegt sjálfstæði heimavinnandi, sem í langflestum tilfellum eru konur, sé á þann hátt virkt í skattalögum. Greiðslum fyrir unnin störf er skilað til þeirra í stað þess að maki þeirra fái afslátt fyrir að hafa heimavinnandi á framfæri sínu og meiri hliðsjón er höfð af fjölskyldustærð í lögunum og ég verð að koma þeim skilaboðum áleiðis til hæstv. fjmrh. Ég var á fundum úti á landsbyggðinni núna um helgina og fáu reiddust konur sem sóttu fundina meira en að vera persónuígildi. Það voru langflestar spurningar á öllum fundunum um það hvernig 75% kona væri. Þetta líkar mörgum konum ákaflega illa.

Í öðru lagi gerðum við brtt. í sambandi við námsafslátt. Við leggjum til að námsmenn, sem náð hafa 25 ára aldri og fengið verðtryggð lán hjá Lánasjóði ísl. námsmanna til námsins, skuli njóta sérstaks námsfrádráttar frá tekjuskatti á fyrsta tekjuári eftir nám sitt. Upphæðin er 18 000 kr. Hún tekur mið af óráðstöfuðum námsfrádrætti við álagningu 1986 í stað þess að dreifa afslættinum á nokkur ár og er þessi upphæð margfölduð með þremur greidd út á einu ári og nýtist námsmanni í eitt skipti til að vega upp á móti þeirri þyngingu skattbyrði sem afnám námsfrádráttar og staðgreiðsla skatta á fyrsta tekjuári eftir nám felur í sér, eins og þetta frv. leggur til.

Í þriðja lagi gerum við brtt. varðandi húsnæðisbæturnar sem ég vék lítillega að áðan. Við leggjum til að ákvæðið um sérstakar húsnæðisóætur nái fyrst og fremst til þeirra sem búa í ófullnægjandi húsnæði miðað við fjölskyldustærð. Við viljum sem sagt fyrst og fremst taka mið af fjölskyldustærð ekki því skipti sem menn skipta um húsnæði. Það hlýtur að þurfa að vera sveigjanleiki til að aðlaga sig að aðstæðum fjölskyldunnar hverju sinni, annars verða engar fjölskyldur. Ef öll lög sem í landinu eru gerð beinast á einn eða annan hátt gegn fjölskyldunni og hindra hana í að þrífast hættir fólk smám saman að eiga börn. Það verður á endanum. Með þessu móti komum við til móts við þær staðreyndir að fæstum tekst að komast í fullnægjandi húsnæði í fyrstu atrennu. Húsnæðið þrengist eftir því sem börnunum fjölgar og núgildandi húsnæðislög taka ekki tillit til fjölskyldustærðar heldur til þess í hvaða skipti viðkomandi festir kaup á húsnæði. Jafnframt tökum við mið af þeirri staðreynd að frv. eykur hlutfallslega skattbyrði barnafjölskyldna og því er brýnt að taka sérstakt tillit til þeirra einnig að þessu leyti.

Við gerum einnig brtt. um framreikning bóta og afsláttarliða, þ.e. persónuafsláttar, sjómannaafsláttar, barnabóta, barnabótaauka og húsnæðisbóta, en það er gert ráð fyrir því í frv. að þessar upphæðir séu framreiknaðar tvisvar á ári í samræmi við lánskjaravísitölu. En auðvitað rýrna þessar upphæðir á meðan einhver verðbólga er í landinu og til að sporna við slíkri rýrnun er nauðsynlegt að reikna upphæð þeirra oftar. Við leggjum til að það verði gert mánaðarlega í stað þess að gera það tvisvar á ári.

Við teljum einnig reyndar mjög mikilvægt að skattþrepin verði fleiri en eitt, t.d. tvö, og líka að skattleysismörkin verði hækkuð, en við munum bíða með tillögugerð um þau efni þar til nánar verður vitað um skattprósentu í haust og þess vegna áætlum við að bíða með tillögugerð um þau efni til upphafs næsta þings. Ef reyndin verður sú að milliþinganefnd verður skipuð í málið munum við að sjálfsögðu færa till. okkar inn í þá nefnd.

Ég mun síðan taka þátt sem áheyrnarfulltrúi í starfi fjh.- og viðskn. um þetta frv. og þau öll sem saman heyra um skattamálin og mun áskilja mér rétt til að gera enn fleiri brtt. eða fylgja þeim sem þegar hafa verið fluttar af hálfu Kvennalistans í Ed.