10.03.1987
Neðri deild: 61. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3916 í B-deild Alþingistíðinda. (3587)

330. mál, Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Þetta er mál á þskj. 573 um frv. til l. um breytingu á lögum um Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, nr. 16 frá 13. apríl 1973. Þetta frv. og frv. sem ég mælti fyrir áður í sambandi við Byggingarsjóð aldraðs fólks eru að hluta til af sama stofni. Frv. sem hér er flutt af hæstv. dómsmrh. er sama sinnis að því leyti til að það er flutt að ósk sjómannadagssamtakanna í Reykjavík og Hafnarfirði. Það gengur út á að þessi heimild gildi til ársloka 1987. Ágóði happdrættisins skal renna til framkvæmda fyrir aldraðra á vegum sjómannasamtakanna í Reykjavík og Hafnarfirði. Heimilt er stjórn samtakanna, sem sér um stjórn og daglegan rekstur happdrættisins, að veita styrk eða lán til annarra bygginga um land allt í þágu aldraðra, svo sem verndaðra þjónustuíbúða, ummönnunar- og hjúkrunarheimila og þjónustumiðstöðva fyrir aldraða. Í 2. gr. skulu orðin „og afhending fjár til Byggingarsjóðs aldraðs fólks“ í 5. gr. falla niður.

Það er ástæðulaust að orðlengja lengur um þetta málefni. Hv. Ed. varð sammála um að mæla með því að frv. væri samþykkt óbreytt og gerði það. Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og allshn.