11.03.1987
Sameinað þing: 61. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3967 í B-deild Alþingistíðinda. (3616)

396. mál, utanríkismál

Guðrún Agnarsdóttir (frh.):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá að halda ræðu minni áfram með svo stuttu hléi og mun ég þá taka upp þráðinn þar sem frá var horfið. Ég mun líka reyna, herra forseti, að stytta mál mitt þannig að unnt verði að taka fyrir deildafundi sem fyrst. Þó mun ég tæpa á nokkrum atriðum og þá fyrst hvað varðar málefni fjarlægra heimshluta, en það er greint frá málefnum Suður-Afríku á bls. 29 og þar stendur, með leyfi forseta: „Mörg erlend stórfyrirtæki hafa á undanförnum mánuðum hætt starfsemi sinni í Suður-Afríku“. Eins og við öll vitum hefur gætt vaxandi óánægju blökkumanna vegna misþyrminga, gengið hefur verið freklega á mannréttindi þeirra og mun ég ekki fara nánar út í það, enda vel frá því greint í skýrslunni. Þó kemur það fram að Bretar og Bandaríkjamenn hafi beitt neitunarvaldi gegn því að samþykkt yrði í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna að víta Suður-Afríku og beita stjórnina þar refsiaðgerðum vegna framferðis við blökkumenn í Suður-Afríku.

Þegar ég les um þessi erlendu stórfyrirtæki verður mér hugsað til þess að fjölþjóðafyrirtækið Rio Tinto Zinc, sem við stígum nú í vænginn við og höfum reyndar gert á undanförnum árum, er í raun breskt að uppruna og hefur aðsetur sitt í Bretlandi að einhverju leyti. Sonarfyrirtæki Rio Tinto Zinc hefur unnið úran í Namibíu s.l. 16 ár, en stjórnin í Suður-Afríku fengið stórar fúlgur í skattheimtu af þessu fyrirtæki, en slík dæmi eru mörg. Það eru því í raun ekki einungis hagsmunir hins hvíta minni hluta í Suður-Afríku sem stuðla að kúgun blökkumanna heldur jafnframt hagsmunir fjölþjóðaiðnaðar sem kaupir þar ódýrara vinnuafl en annars staðar þekkist. Þetta ástand er einmitt snar þáttur í þeirri þróun sem orðið hefur í samskiptum landa norðurhvels við lönd á suðurhveli jarðar og kölluð hefur verið togstreita milli norðurs og suðurs, en margir óttast að þar felist fleiri kveikjur að allsherjarófriði en jafnvel í togstreitunni milli austur og vesturs. Sú hagsmunagæsla sem bæði Bretar og Bandaríkjamenn hafa stundað vegna stórra fyrirtækja, sem hafa aðsetur í Bandaríkjunum og Bretlandi, hefur einmitt miðað að því að viðhalda þessu misrétti. Nú vil ég spyrja hæstv. utanrrh.: Veit hann hvort meðal þessara mörgu erlendu stórfyrirtækja, sem hafa á undanförnum mánuðum hætt starfsemi sinni í Suður-Afríku, er fjölþjóðafyrirtækið Rio Tinto Zinc? Þessu vildi ég gjarnan fá svar við.

Ég hef minnst lítillega á málefni Mið- og SuðurAmeríku, en það hefur gengið hver harmsagan á fætur annarri yfir íbúa þessara landa. Ég vil taka undir það sem áður var sagt um Chile. Ég hafði einmitt gert athugasemd við það í minni yfirferð yfir skýrsluna þar sem stendur á bls. 31, með leyfi forseta:

„Tilgangurinn [þ.e. tilgangur kommúnista] er að afla stefnu þeirra um vopnaða andstöðu gegn stjórninni fylgis og útiloka að hægfara öfl komist til áhrifa í landinu“.

Við skulum ekki gleyma því hvernig fór fyrir hægfara umbótaöflum undir forustu Allendes fyrir nokkrum árum í Chile. Þau hægfara öfl voru rækilega stöðvuð í sinni framgöngu til að komast til áhrifa í landinu Chile á sorglegan hátt og það var einmitt af hálfu þeirra afla sem nú styðja herforingjastjórnina sem þar er við völd nú.

Ég minntist áðan á þann mismun sem gerður var á fjármögnun sem rennur til contra-skæruliða þegar tilgreint er nákvæmlega hvað varðar upphæðir, meira að segja um það að Líbýumenn hafi á laun gefið stjórn sandinista fjármuni og efnahagsaðstoð, en hvergi er talað um það fé sem runnið hefur til contra-skæruliða frá afurðum vopnasölu til Írans, eitt mesta hneykslismál sem komið hefur upp í Bandaríkjunum á stjórnartíð Reagans Bandaríkjaforseta.

Og síðan víkur sögunni að Íran og Írak, þessari löngu harmsögu sem gengið hefur á undanfarin sjö ár líklega. Það fær 41/2 línu í þessari skýrslu. Ég hefði kosið að sjá ítarlegri umfjöllun um það mál. Það leiðir líka huga okkar að vopnasölu og vopnasölum, en það eru þeir ekki síst sem kynda undir vígbúnaðarkapphlaupinu sem hafa af því ómældan hagnað. Athygli okkar hefur verið dregin að vopnasölum vegna tengsla þess við morðið á Olof Palme og eru þau mál að skýrast og hafa verið dregin fram í dagsljósið. Ég held að við ættum að gera okkur grein fyrir því hver hlýtur mestan hagnað af því að kynda undir ófriði í heiminum í stóru og smáu.

Það er tekið til þess á bls. 33 hvað snertir Japan að vakin er athygli á þeirri staðreynd að á fjárhagsárinu sem hefst í apríl 1987 er gert ráð fyrir því að útgjöld til landvarna í Japan fari fram úr þessu 1% af vergri þjóðarframleiðslu sem verið hefur. En það var á arinu 1976 sem ákveðið var að ekki skyldi farið fram úr 1% og ég minnist orða sir John Kenneth Galbraith, kanadíska hagfræðingsins, sem rakti einmitt í ítarlegu máli hvernig efnahagsundrið í Japan hefði orðið ekki síst vegna þess að Japanar ákváðu að verja takmörkuðu fé af sinni þjóðarframleiðslu til varnarmála. Þeir settu það allt í iðnaðarþróun.

Ég fagna þessum kafla um utanríkisviðskipti sem er fróðlegur. Það hafa komið upp þær hugmyndir að ríkari áherslu beri að leggja á utanríkisviðskipti innan ramma utanríkisþjónustunnar. Ég tel að það sé vel. Það má mjög gjarnan taka eitthvað af því yfirborðslega og því venjubundna sem fylgir utanríkisþjónustu og setja í staðinn eitthvað sem er framsæknara, meira leitandi og skapandi. Það má gjarnan breyta um áherslur þó að sjálfsagt sé að halda uppi vináttusamböndum við helstu nágrannalönd og viðskiptalönd okkar. Í kaflanum um viðskiptajöfnuðinn koma einmitt glögglega fram aðal- og meginforsendur góðærisins, þ.e. lækkun á olíuverði, hækkun á fiskverði erlendis og lækkun vaxta á alþjóðlegum lánamörkuðum.

Ég rek hér augun í tölur sem varða Landsvirkjun og mig langar til að spyrja hæstv. utanrrh. Hér er gífurlegur innflutningur á vegum Landsvirkjunar eða 67 millj. kr. þrátt fyrir að innflutningur til járnblendiverksmiðju hafi dregist saman og innflutningur til alversins einnig dregist saman. Stóriðjan er að dragast saman, en Landsvirkjun er að auka innflutning sinn upp í 67 millj. kr. frá 52 millj. kr. árinu áður. Í hverju er þessi innflutningur fólginn, hæstv. utanrrh.? Gæti ég fengið upplýsingar um það?

Síðan er vikið aðeins að ullarvörum og því hve útflutningur á ullarvörum hefur fallið ískyggilega hjá okkur á s.l. ári. Mér finnst þetta í raun alvarlegt. Við ættum að geta nýtt okkur ullina miklu betur. Hún var á fyrstu öldum Íslandsbyggðar aðalútflutningsvara landsmanna í formi vaðmáls. Formæður okkar mundu eflaust snúa sér við í gröfinni ef þær vissu hvernig farið er með íslensku ullina nú. Þær kunnu nefnilega að nýta sér einkenni hennar. Þær greindu hana í þel og tog og nýttu eftir því sem við átti í fínan vefnað eða grófan, fínt og gróft prjón. Nú er sú þekking nánast að hverfa og hver að verða síðastur að snúa við blaðinu og fara að þróa ullariðnaðinn í samræmi við sérkenni íslensku ullarinnar. Nú er öllu blandað saman og búið til eitt allsherjar sokkaband sem auðvitað er gróft og stingandi, enda ekki til annars stofnað. Bandaríkjamenn klæjar svo undan þessu bandi að þeir vilja ekki kaupa það meir. Þarna þurfum við verulega að taka okkur á. Og ég tek sem dæmi Ítalíu. Það var ekki fyrir mörgum árum að Ítalía var vandræðabarn Evrópu, atvinnuleysi viðvarandi, verðbólga mikil og tíð stjórnarskipti og efnahagurinn bágborinn. En Ítalir tóku sig á. Þeir lögðu fjármagn, hugvit og hönnun í að þróa ítalskan iðnað og ekki síst fataiðnað. Nú tala menn um efnahagsundur á Ítalíu, ítalskar prjónavörur seljast eins og heitar lummur svo að ekki sé talað um skó og föt, efni og leðurvörur. Og hvers vegna skyldum við með þetta afbragðs hráefni sem við eigum, íslensku ullina, ekki reyna slíkt hið sama? Ég vek athygli á þessu.

Ég mun fara hratt yfir sögu og sleppa því að minnast á margt sem hér hefði getað verið athyglisvert og þess virði að fjalla um það, en þó get ég ekki farið fram hjá því sem segir á bls. 42, með leyfi forseta. Þar er talað um samskipti Íslands við hin fríverslunarlöndin og segir:

„Ekki er ólíklegt að einn liðurinn í nánari samskiptum Íslands við hin fríverslunarlöndin verði aukin samvinna við erlenda aðila og jafnframt aukning á eignaraðild þeirra í fyrirtækjum hér á landi, ekki aðeins iðnfyrirtækjum.“

Nú er ekki langt síðan við stóðum hér og ræddum uppboðsmarkaði fyrir fisk og þá var vitnað til greinar í Alþýðublaðinu þar sem hv. 6. landsk. þm. Karl Steinar Guðnason hafði látið þess getið í viðtali við Alþýðublaðið að hann fagnaði því að erlendir aðilar eignuðust verulegan eignarhluta í fiskvinnslufyrirtækjum á Íslandi. Hér kom hver þm. um annan þveran og andmælti þessu og tók fast á móti og vakti athygli á því hversu ákaft Íslendingar hefðu barist fyrir því að eiga sjálfræði og sjálfstæði bæði yfir þeim auðlindum sem hafið færir okkur af fiskstofnum og einnig yfir fiskvinnslunni þegar fiskurinn er kominn á land. Og ég vil spyrja: Hvað er átt við með þessu? Ég vil spyrja hæstv. utanrrh.: Hverju er hann að bjóða heim hér um eignaraðild erlendra aðila í íslenskum fyrirtækjum hér á landi öðrum en iðnfyrirtækjum? Við hvað á utanrrh. þarna? Mér finnst þetta vera umhugsunarvert og alvarlegt mál ef opna á fyrir erlendu fjármagni sem e.t.v. gæti eignast meiri hluta í íslenskum fyrirtækjum.

Um þróunarsamvinnuna vil ég engum orðum fara því að Sigríður Dúna Kristmundsdóttir mun fjalla um hana. Kaflinn er afar stuttur. Hann lýsir kannske best af öllu því smánarlega framlagi sem við leggjum til þeirra mála.

Ég vil fara lítillega yfir þann kafla sem fjallar um öryggis- og varnarmál. Hér er talað um að varnarmálaskrifstofan fáist í öðru lagi við herfræðileg og hertæknileg málefni sem lúta að upplýsingaöflun og rannsóknum þannig að hægt sé hverju sinni að leggja hlutlægt íslenskt mat á hernaðarstöðu landsins o.s.frv. Ég mun enn spyrja: Hverjir eru þeir sem þessu sinna? Hve margir eru þeir? Hvernig anna þeir störfum sínum því að þau hljóta að vera geysilega yfirgripsmikil? Og enn fremur: Hvaða menntun hafa þeir til þess?

Það er talað um heildarveltu Fríhafnarinnar sem hefur aukist mjög. Ég spyr: Hvert fór þessi hagnaður? Í hvað var hann notaður?

Einnig er talað um eftirlits- og varnarhlutverk varnarliðsins. Það er talað um á bls. 48: „Jafnframt eftirlitshlutverkinu skipuleggur varnarliðið varnir Íslands í samráði við innlend stjórnvöld.“ Hvernig fer sú skipulagning fram og hverjar eru þessar varnir? Hæstv. utanrmn. fór í ferð út á Keflavíkurflugvöll fyrir tveim árum, minnir mig. Okkur var kynnt starfsemi flugvallarins. Þá kom skýrt í ljós hjá aðalhershöfðingja á Keflavíkurvelli að það væru engar varnir sérstaklega ætlaðar fyrir Íslendinga. Það voru hernaðarhagsmunir fyrst og fremst sem átti að verja. Við spurðum nákvæmlega út í það: En hvernig á að verja íslensku þjóðina? Það voru engin varnarviðbrögð fyrir íslensku þjóðina, einungis fyrir flugvöllinn, einungis fyrir ratsjárstöðvarnar, einungis fyrir hernaðarmannvirkin. Og því spyr ég: Hvernig skipuleggur varnarliðið nú varnir Íslands í samráði við íslensk stjórnvöld?

Ég sé að framkvæmdir á vegum varnarliðsins eru fyrirhugaðar í vaxandi mæli. Hér eru ráðgerðar skrifstofur, félagsheimili, frekara húsnæði fyrir skrifstofustörf, vegagerð og svo er talað um 250 íbúðir. Er ráðgert að varnarliðsstarfsfólki fjölgi? Hvers vegna er verið að byggja auknar vistarverur fyrir þetta fólk? Það er augljóst af þessum kafla að hernaðarframkvæmdirnar hafa aukist talsvert frá því sem verið hefur og því er Kvennalistinn mótfallinn vegna þess að auknar framkvæmdir hér á landi hvað varðar hernað auka á vígbúnaðarkapphlaupið í heiminum í heild sinni.

Ég mun nú stytta mál mitt, herra forseti. Skýrslunni lýkur á hinni merku samþykkt þingsins um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum. Því miður er þessi stefna á vissan hátt dautt plagg. Í hvert skipti sem á að nota hana verður hún að þrándi í götu fyrir jákvæðum framkvæmdum. Það eru teknar upp úr henni fullyrðingar, það eru teknar upp úr henni setningar og þeim er beitt á þann veg að þær eru notaðar til að koma í veg fyrir að Íslendingar geti tekið sjálfstætt frumkvæði í afvopnunarmálum á alþjóðavettvangi og hún hefur snúist að mínu viti á vissan hátt upp í andstæðu sína. Í stað þess að vera stuðningur og boðberi góðra mála er hún nú orðin að hindrun og má segja tappa sem rekinn er í flösku. Hún er notuð til að stöðva og koma í veg fyrir og er það miður.

Ég hef ekki minnst á eitt atriði. Ég fann það ekki heldur í þessari skýrslu. Það var friðarárið. Enda virðast flestir hafa gleymt því að á s.l. ári var friðarár Sameinuðu þjóðanna. Því miður var lítið um framkvæmdir til að minna fólk á mikilvægi friðarins. Einhvers staðar í skýrslunni er talað um að Íslendingar þurfi áð vanda til samninga, þeir þurfi að stuðla að því að gæði samninga verði góð, verði mikil. Ég mun ekki eyða tíma í að reyna að finna þetta. Það er meira að segja tekið fram að það sé mikilvægt vegna þess að lengi býr að fyrstu gerð. Ef hæstv. utanrrh. heldur þetta held ég að hann ætti að snúa sér að því að koma á friðarfræðslu því að það er alveg rétt hjá honum: Lengi býr að fyrstu gerð.

Til að ljúka máli mínu, herra forseti, langar mig að lesa stuttlega kafla úr nýrri stefnuskrá Kvennalista um friðar- og utanríkismál. Við höfum ekki breytt stefnu okkar. Við höfum einungis sett frekari áherslur. Á þessum fjórum árum sem þingið hefur setið höfum við ötullega talað fyrir friðarmálum og stutt þau á alla lund og sjálfar borið fram ýmsar tillögur um þau efni. Mig langar til að vitna í lokin, með leyfi forseta:

„Íslendingar hafa aldrei borið vopn á aðrar þjóðir. Því er eðlilegt að við gerumst boðberar friðar og afvopnunar í heiminum. Við eigum að láta til okkar taka á alþjóðavettvangi sem friðflytjendur, ekki síst vegna þess að við búum mitt á milli risaveldanna tveggja sem standa vígbúin andspænis hvort öðru.

Um aldaraðir hafa samskipti þjóða einkennst af átökum og vopnaskaki. Valdbeiting, ofbeldi og virðingarleysi við allt sem lífsanda dregur hefur um of verið ríkjandi við stjórnun heimsins. Að baki liggur hugarfar sem er í hrópandi andstöðu við menningu kvenna sem þiggur lífskraft sinn frá endurnýjun lífsins, verndun þess og viðhaldi. Kvennalistinn vill breyta þessu hugarfari. Við verðum að byrja á okkur sjálfum og þeim sem næst okkur standa, en beina síðan sjónum út í hinn stóra heim. Það er sannarlega þörf á nýjum lífsviðhorfum ef okkur á að takast að snúa frá mengun, bágum kjörum heimsins barna og hættunni á gereyðingu.

Íslenskar konur hafa vakið athygli um heim allan vegna aðgerða sinna og nýrra hugmynda í kvenfrelsisbaráttu. Við eigum erindi við heiminn og því teljum við brýnt að efla samskipti við allar þjóðir.

Sú heimsmynd sem blasir við mannkyninu er ekki glæsileg. Hungur, sjúkdómar, fáfræði og atvinnuleysi bíða milljóna manna. Á meðan veltir hluti hins vestræna heims sér upp úr allsnægtum og það sem meira er: leyfir sér að eyða og sóa auðlindum heimsins og menga jörðina sem tilheyrir okkur öllum. Þetta er siðleysi sem ekki lengur má viðgangast.

Mengun sjávar ógnar afkomu Íslendinga um leið og hún er ógnun við allt lífríki jarðar. Því stendur það okkur nærri að vinna gegn mengun, auðlindasóun og gróðureyðingu. Við erum í hópi þeirra þjóða sem eru vel aflögufærar. Okkur ber að leggja okkar skerf til þróunarstarfs meðal þeirra sem þurfa og óska aðstoðar.

Ísland er einn möskvinn í hernaðarneti stórveldanna. Á undanförnum árum höfum við flækst æ fastar í því neti. Hernaðarumsvif hafa aukist verulega á seinni árum. Nýjar vígvélar, olíuhöfn, ratsjárstöðvar og flugskýli sem þola kjarnorkusprengingar.

Kvennalistinn er andvígur hugarfari hermennskunnar. Við viljum stöðva allar hernaðarframkvæmdir hér á landi þegar í stað og vinna gegn öllum hernaðarbandalögum. Það má hins vegar ljóst vera að Ísland losnar ekki úr hernaðarnetinu nema almenningur hér sem annars staðar rísi gegn þeirri hernaðarhyggju sem mótar afstöðu þeirra sem fara með völdin. Við getum ekki falið örfáum mönnum líf okkar og framtíð. Því tökum við afstöðu með þeim sem vinna að friði í heiminum og stefna að friðlýstu Íslandi án vígbúnaðar í heimi án hernaðarbandalaga.

Við viljum að Ísland og öll Norðurlöndin verði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði, að allar hernaðarframkvæmdir hér á landi verði stöðvaðar þegar í stað, að Íslendingar verði efnahagslega óháðir hernum meðan hann dvelur hér. Að vígbúnaðarkapphlaupið verði stöðvað og að allur vígbúnaður í geimnum verði bannaður, að kjarnorkuveldin lýsi yfir tilraunabanni með kjarnorkuvopn. Við viljum vinna að því að kjarnorkuveldin heiti því að beita ekki kjarnorkuvopnum að fyrra bragði, að Íslendingar eigi frumkvæði að samningum um afvopnun og Íslendingar standi við gerðar samþykktir um þróunaraðstoð, að tekin verði upp markviss friðarfræðsla í skólum sem og annars staðar, að Íslendingar standi vörð um mannréttindi hvar sem er í heiminum og að sjálfsákvörðunarréttur þjóða verði virtur, að losun geislavirks úrgangs og eiturefna í hafið verði stranglega bönnuð. Við viljum sýna samstöðu og styðja baráttu kvenna um heim allan fyrir lífi jarðarbarna, fyrir friði, frelsi og réttlátri skiptingu jarðargæða.“

Umræðu frestað.