11.03.1987
Efri deild: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3975 í B-deild Alþingistíðinda. (3620)

416. mál, tollskrá

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Vegna ræðu hv. 8. þm. Reykv. vil ég minna á að á starfstíma þessarar ríkisstjórnar hafa verið teknar ákvarðanir um verulegar lækkanir á tollum einmitt í þeim tilgangi að stuðla að kjarabótum og verulegur hluti þessara tollalækkana hefur einmitt komið fram í beinum samningum ríkisvalds og aðila vinnumarkaðarins til þess að treysta kaupmátt og halda niðri verðbólgu. En vegna þeirra tillagna sem fyrir liggja um heildarendurskoðun á tollskránni er þess að geta að þar er gert ráð fyrir verulegri einföldun á henni, einföldun á tollálagningu, fækkun tollflokka og lækkun tollálagningar. Það er rétt skilið hjá hv. þm. að þessar breytingar mundu hafa í för með sér þó nokkra viðbótartekjulækkun fyrir ríkissjóð frá því sem orðið er eftir þær verulegu tollalækkanir sem þegar hafa verið teknar ákvarðanir um og fyrir þá sök þótti ekki fært miðað við rekstrarafkomu ríkissjóðs að leggja málið fram við svo búið.