12.03.1987
Sameinað þing: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4077 í B-deild Alþingistíðinda. (3687)

Almennar stjórnmálaumræður

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Á tímamótum er gagnlegt að horfa yfir farinn veg, taka mið af því sem gerst hefur um leið og horft er til framtíðar. Fjögurra ára kjörtímabili Alþingis er senn lokið. Nær því jafnlengi hefur ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. farið með völd í landinu. Þegar ríkisstjórnin tók við var ástandið í þjóðmálum eins og hér er lýst: „Það sem blasir við í íslenskum stjórnmálum um þessar mundir er upplausn. Ríkisstjórnin hefur þingmeirihluta en kemur ekki málum fram á Alþingi. Verðbólgan æðir áfram, verðhækkanir eru hrikalegar, verðlagsstjórn úr böndum, peningamálastjórn í landinu er ekki sem skyldi, viðskiptahallinn hefur aukið erlendar skuldir gífurlega og þannig mætti lengi telja.“

Þessi klausa sem ég las er ekki samin af mér. Hún birtist í Þjóðviljanum í lok nóvember 1982. Höfundur er Svavar Gestsson, þáverandi ráðherra í þeirri ríkisstjórn sem svo grátt hafði leikið landið. Hann var þá og er enn formaður Alþb. og hafði verið ráðherra í tveimur vinstri stjórnum á fimmta ár. Á þessu vinstristjórnatímabili og fram undir mitt ár 1983 er stjórnin hrökklaðist frá völdum hafði tekist að koma efnahagslífi Íslendinga á vonarvöl og það þrátt fyrir eitt mesta góðæristímabil sem sagan greinir. Með þessar staðreyndir á borðinu taldi þó formaður Alþb. það nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr að Alþýðubandalagsmenn sameinuðust um að vísa leið út úr þeim frumskógi sem þeir höfðu leitt þjóðina inn í. Og hver var sú leiðin sem Alþb. vildi fara?

Jú, það var hin fræga leið fjögurra ára neyðaráætlunar gegn kreppu og atvinnuleysi þar sem „flokkslegur útúrboruháttur, stofnanatrú og þröngsýni mega ekki verða ofan á“, eins og formaðurinn orðaði það.

Dregið skyldi úr innflutningi með skattlagningu, innborgunargjöldum og lokun á lánafyrirgreiðslu. Menn kannast við leiðirnar. Margt fleira fylgdi í neyðaráætluninni sem ég þó tel ekki fram frekar nema hvað haft skyldi sérstakt samráð við verkalýðshreyfinguna enda ekki hægt að hækka öll grunnlaun í landinu þegar svona var komið.

Þegar minnst er á verkalýðshreyfinguna kemur upp í hugann sjónvarpsviðtal fyrir fáum vikum þar sem þau körpuðu um Alþýðubandalagið og verkalýðshreyfinguna félagarnir Ragnar Stefánsson og Guðrún Helgadóttir. Aðspurð hvers vegna eða hvernig tennurnar hefðu verið svo dregnar úr verkalýðshreyfingunni gaf Guðrún þá skýringu að eftir að peningar hefðu oltið inn í landið og báðir foreldrar farið að vinna fyrir tekjum heimilis hefði það haft varanleg áhrif á alla verkalýðsbaráttu í landinu. Þegar það svo var skipulagt að hver einasta fjölskylda í landinu ætti að eiga sitt eigið húsnæði væri það fólk ekki sterkt afl í verkalýðsbaráttunni. Þetta hefði allt verið skipulagt og þeir flokkar sem vildu vinna verkalýðnum vel uggðu ekki að sér.

Þetta er óvenju hreinskilin játning frá vinstri sósíalista eins og Guðrún Helgadóttir vill kalla sig. (GHelg: Mikil einföldun hjá ræðumanni.) Líður þm. eitthvað illa undir þessum lestri? (GHelg: Nei.)

Þegar slaufurnar hafa verið leystar af þessum athyglisverðu yfirlýsingum þýðir þetta á venjulegu máli: Ef verkalýðurinn fær það mikil laun að hann getur eignast eigin íbúð er hann einskis virði í verkalýðsbaráttunni. Alþýðubandalagið sem verkalýðsflokkur verður að vera vakandi gegn þessu en má ekki sofa svona áfram á verðinum. Það gæti orðið til þess að allir eignuðust sínar eigin íbúðir vegna þess að kaupið væri orðið svo hátt.

Með þessum orðum er fátæktarstefnu Alþb. rétt lýst.

Leiðsögn Alþb. var hafnað 1983. Því er það að hið íslenska þjóðfélag hefur tekið meiri breytingum en nokkru sinni fyrr á fjögurra ára tímabili.

Ríkisstjórnin setti sér í upphafi þessi markmið í efnahagsmálum: Atvinnuöryggi, hjöðnun verðbólgu, viðunandi jafnvægi í viðskiptum við önnur lönd, verndun kaupmáttar lægstu launa og lífskjara þeirra sem þyngst framfæri hafa.

Allt þetta hefur gengið eftir og miklu meira. Við höfum verið á réttri leið. Ég nefni nokkur atriði og ítreka það sem formaður Sjálfstfl. sagði hér áðan: Atvinnuöryggi er hér meira en í nokkru öðru nálægu landi. Verðbólgan hefur hjaðnað og það á þeim tíma sem við vorum í hinum mesta öldudal efnahagsmála en ekki vegna góðærisins, eins og Jón Baldvin Hannibalsson hélt fram áðan. Viðskiptajöfnuði er náð. Árið 1982 var hann óhagstæður sem nam tíu af hundraði af framleiðslu þjóðarinnar.

Sparnaður hefur aukist til muna. Það þýðir minni erlendar lántökur. Frá 1985 hefur verið dregið úr erlendum lántökum. Það var ekki unnt fyrr vegna efnahagslægðarinnar. Nú geta menn lagt fé sitt í banka og fengið sömu krónur til baka með vöxtum. Hinum lögverndaða þjófnaði á sparifé landsmanna er lokið. Kaupmáttur launa hefur aukist meira en áður hvað sem Ragnar Arnalds segir, mest hjá þeim sem lægst hafa launin og hjá elli- og örorkulífeyrisþegum.

Gefin voru fyrirheit um skattalækkanir og við það hefur verið staðið. Skattar eru nú lægri um upphæð sem nemur 2700 millj. kr. miðað við það sem væri ef engu hefði verið breytt. Berið þetta saman við tillögur annarra flokka í skattamálum. Og nú erum við að stíga stærsta skrefið í skattamálum sem stigið hefur verið í áratugi þar sem er sú kerfisbreyting að taka upp staðgreiðslu skatta. Þar er raunar um miklu víðtækari breytingu en það eitt að ræða því jafnframt á sér stað mikil einföldun en þó sérstaklega skattalækkun.

Athugið, góðir hlustendur, viðbrögð hinna flokkanna við þessari réttarbót. Framsóknarmenn hafa verið með efasemdir, Alþfl. með skröksögur um að kerfið ráði ekki við þetta, Alþb. með yfirboð og Kvennalistinn auðvitað eins og Alþb. í þessu máli sem öðrum. Sannleikurinn er sá að hér hefur þrekvirki verið unnið við undirbúning þessa máls. Það hefur komist áfram fyrir trausta forustu Þorsteins Pálssonar fjmrh. sem hefur svo haft sér við hlið sveit hinna bestu manna.

Gjaldeyrisreglur hafa verið rýmkaðar, verðlagshöft afnumin á vörum og þjónustu þar sem samkeppni er næg, verðgæsla tekin upp og verðkannanir framkvæmdar. Þetta hefur leitt til lækkandi vöruverðs. Ríkisfyrirtæki hafa verið seld, Siglósíld og Landssmiðjan, eignarhlutur ríkisins í Iðnaðarbanka Íslands, Flugleiðum og Eimskip seldur. Stórátak hefur verið gert í vegagerð, einkum í lagningu bundins slitlags. Ný flugstöð á Keflavíkurflugvelli verður tekin í notkun í næsta mánuði. Þá verður skilið á milli farþegaflugs og starfsemi varnarliðsins og þar með missa vinstri menn í ýmsum flokkum nöldrið sitt.

Þetta sem ég hér hef talið er hluti af þeim margháttuðu framfaramálum sem núverandi ríkisstjórn hefur hrundið í framkvæmd. Ég ætla ekki að gera lítið úr þætti Framsfl. í því að koma þessum málum áfram. Þau hafa hins vegar öll verið unnin undir forustu sjálfstæðismanna.

Herra forseti. Við höfum verið á réttri leið. Því aðeins göngum við þessa götu áfram að Sjálfstfl. fái það kjörfylgi í kosningunum að ekki verði mynduð ríkisstjórn án hans forustu. Það er eina tryggingin fyrir því að efnahagsbatinn verði treystur, dregið verði enn frekar úr verðbólgu, kaupmáttur tekna almennings aukist, jöfnuður verði í viðskiptum við útlönd og dregið verði úr erlendum skuldum hins opinbera. Atkvæði greidd öðrum flokkum eru hins vegar ávísun á nýja vinstri stjórn. Verði slík stjórn enn einu sinni mynduð þarf ekki að bíða í fjögur ár til þess að sú lýsing, sem ég greindi frá í upphafi ræðu minnar, eigi aftur við. Sjálfstæðismenn treysta á dómgreind kjósenda. Því er ekki ástæða til að ætla annað en kjósendur veiti Sjálfstfl. það brautargengi sem þarf.

Nýafstaðinn landsfundur Sjálfstfl. er ótvíræð sönnun fyrir þeirri einingu sem ríkir um stefnu flokksins og störf og ekki síður um forustu hans. Þar skilur á milli Sjálfstfl. og annarra flokka.

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Við hefjum nú lokasóknina. Sjálfstæðismenn leggja störf sín á liðnu kjörtímabili hiklaust í dóm kjósenda. Góðar stundir.