12.03.1987
Sameinað þing: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4080 í B-deild Alþingistíðinda. (3688)

Almennar stjórnmálaumræður

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að biðja hv. þm. Ólaf G. Einarsson, eigi hann myndbandstæki heima hjá sér, að taka það nú fram þegar hann kemur heim, (ÓE: Ég á það.) horfa aftur á þátt okkar félaga Ragnars Stefánssonar, en þar fóru fram heldur greindarlegri umræður en hér fara fram. (ÓE: Þetta er tekið orðrétt.)

Virðulegi forseti, góðir áheyrendur. Um 1897 var það siður við framhald 1. umr. fjárlaga að „taka frammistöðu framkvæmdavaldsins yfirleitt til íhugunar“, eins og segir í gömlum þingtíðindum. Á þingmáli hétu umræðurnar „aðfinningar við stjórnina“ og sat landshöfðingi fyrir svörum. Var talað um að sópa eldhússtrompa stjórnarinnar og skyldi hún gera hreint fyrir sínum dyrum.

Í 4. rímu Alþingisrímna frá 1899 ortu þeir Valdimar Ásmundarson og Guðmundur skólaskáld svo um atburðinn:

Heyrast ópin æði há

upp í rót er þingið fer.

Stjórnar sópa strompinn þá

strýkur sótið hver af sér.

Og enn fara nú hér fram „aðfinningar við stjórnina“ og almenn tiltekt. En það sem frá stjórninni hefur komið hingað til nægir ekki til að strjúka af henni sótið. Sótsvört eru þau enn svo að ekki nægir að strjúka. Skal því reynt að grípa skrúbbinn.

Hér hefur því verið haldið fram að mikið góðæri sé nú í landinu. Frá Þjóðhagsstofnun er upplýst að hagvöxtur á mælikvarða landsframleiðslu hafi verið 61/2% á síðasta ári og þjóðartekjur aukist um 81/2%. Hvað eru þetta miklir peningar? Um það bil 11 milljarðar króna. 11 milljarðar króna. Hefði þetta fé farið til þeirra sem þess öfluðu væri ekki sú spenna og óánægja á vinnumarkaðnum sem raun er á. Ríkisstjórnin gefur yfirlýsingar um gífurlegar hækkanir meðallauna svo að ætla mætti að launþegar yndu glaðir við sitt. Hvert mannsbarn veit þó að launakjör í landinu eru á þann veg að fullvinnandi fólk vinnur ekki fyrir sér nema með vinnuálagi sem hvergi þekkist meðal siðaðra þjóða. Verkfall kennara er yfirvofandi, fóstrur hafa sagt upp störfum, byggingamenn eru í verkfalli og allur þorri launþega er sligaður af fjárhagsáhyggjum og þrældómi. Kjör námsmanna hafa verið skert um 15% svo að tekjur þeirra ná hvergi nærri lágmarkslaunum.

Hvar er þá arðurinn af góðærinu? Ekki er hann úti í byggðum landsins þar sem ördeyða blasir víðast við í atvinnulífinu, ekki á bændabýlum landsins þar sem laun eru ein hin lægstu í landinu. Þó að öll sýnileg horn þjóðfélagsins séu sópuð er þennan arð hvergi að finna. En væri leitað í skúmaskotum samfélagsins, í hagkerfi undirheimanna, á verðbréfamarkaðnum, í erlendum bönkum, hjá okrurum landsins, kæmi hann fljótlega í ljós lögverndaður af sjálfum Hæstarétti. Ríkisstjórnin hefur gefið sjálfri sér frelsi til að fara þannig með fé landsmanna.

Og á hverjum bitnar það frelsi harðast? Það bitnar á börnum þessa lands. Börnin á aldrinum 0- 15 ára voru árið 1985 alls 67 500, 27,9% eða rúmur fjórðungur íbúanna.

Fáir deila víst um að við löggjöf þjóðarinnar skuli tekið tillit til þarfa allra þegna þjóðfélagsins svo að þeir megi allir þrífast sem best í landi okkar, ungir og aldnir. Því síður deila menn um mikilvægi þess að vel sé í haginn búið fyrir þá sem eru að vaxa úr grasi. Ljóst má þó vera að börnin sjálf eru ekki á sama hátt í stakk búin til að fylgja eftir sjálfsögðum mannréttindum sínum í samfélaginu og hinir sem eldri eru. Aðbúnaður þeirra er á okkar ábyrgð, hinna fullorðnu.

Ekkert barn verður alið upp nema einu sinni og glatað líf verður aldrei bætt. Aðbúnaður barna þessa lands er í ólestri hvert sem litið er. Óhóflegur vinnudagur foreldra, húsnæðiserfiðleikar, okurvextir og bein eignaupptaka og fjárhagsáhyggjur, skortur á dagvistarheimilum, óhentugur skólatími og öryggisleysi að skóla loknum er veruleiki íslenskra barna í þessu auðuga landi.

Það er ekki fýsilegur kostur ungum fjölskyldum, sem nú eru í námi erlendis, að flytjast heim við þessar aðstæður og vaxandi hætta er á atgervisflótta úr atvinnulífinu. Í þeim heimi sem við lifum í er þekking og menntun forsenda þess að þjóðlíf okkar dafni og við drögumst ekki aftur úr öðrum þjóðum og atvinnulífs okkar bíði hnignunin ein.

Gott uppeldi, góð menntun og blómleg menning þjóðarinnar er forsenda allrar framþróunar. Á nýafstöðnum fundi miðstjórnar Alþb. var stefna flokksins í fjölskyldumálum sett fram og samþykkt. Í ályktuninni segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþb. leggur áherslu á að fjórðungur dagvinnutekna dugi til að tryggja öllum gott og heilsusamlegt húsnæði; að vinna að styttingu vinnudags og hækkun launa svo að fjölskyldunni gefist kostur á samveru á heimilunum, á útilífi og íþróttum og samveru ólíkra aldurshópa; að öllum börnum verði búið öryggi á dagvistarheimilum og í grunnskólanum og þeim verði tryggð þar þroskandi aðstaða til starfs og leiks í umsjón sérmenntaðs fólks; að lögum um grunnskóla verði framfylgt og efld verði tengsl milli foreldra, barna og skóla; að skóladagurinn verði samfelldur og börnin fái máltíðir í skólanum svo að vinnudagur foreldra og barna verði samræmdur; að konum verði tryggt raunverulegt val um starf utan heimilis og heima með endurmati á kvennastörfum, lengingu fæðingarorlofs í eitt ár og með bættum dagheimilum og skólum; að öll fjölskylduform verði jafnrétthá; að hiklaust verði staðið við ákvæði laga um jafnrétti kynjanna og alþjóðlegar skuldbindingar um að leiðrétta misrétti sem viðgengst gagnvart konum á öllum sviðum þjóðlífsins; að fatlaðir fái sem besta aðstöðu til lífs og starfs; að aldraðir hafi skilyrði til þátttöku í þjóðlífinu svo lengi sem unnt er og njóti umönnunar þegar krafta þrýtur; að efla fyrirbyggjandi starf í heilbrigðismálum og öryggi sjúkra- og sérþjónustu sem næst heimilum hinna sjúku; að foreldrar fái aukinn rétt til launa í veikindum barna.“

Á sama fundi var einnig samþykkt að framlög til menningarmála og listsköpunar skyldu tvöfölduð og annan sunnudag köllum við Alþýðubandalagsmenn til málþings um þann þátt þjóðlífsins. Næsta laugardag um skóla- og uppeldismál.

Íslenskir launþegar eru engir beiningamenn. Þeir eiga rétt - heilagan rétt - á að afrakstur vinnu þeirra skili sér í farsælu fjölskyldulífi þeirra sjálfra þar sem ungir sem aldnir, heilir og sjúkir fái að þrífast hlið við hlið. Það er hinn eini mælikvarði á gott efnahagsástand. Heildartölur breyta þar engu um.

Og íslenskir launþegar eru ekki heldur máttlaust afl. Þeir ráða kjörum sínum sjálfir. Eftir rúman mánuð ákveður þjóðin hvort hún vill áfram búa við sótsvart afturhaldið í þessu landi undir stjórn manna sem setja peningahyggjuna ofar manngildi og menningu, stríðsgróðabrask ofar baráttu fyrir friði við aðra menn, eyðingu jarðarinnar ofar umhverfisvernd og skynsamlegri nýtingu auðlinda, manna sem gert hafa börn og gamalt fólk að utangarðsfólki í þjóðfélaginu og stóra hluti landsins að erlendu yfirráðasvæði, einnig það landsvæði sem hin nýja og glæsilega flugstöð í Keflavík stendur á.

Virðulegi forseti. Slíkri ríkisstjórn hafna menn þegar sótið hefur verið af henni sópað svo að í hana sést. Alþb. er enn þá til, hæstv. fjmrh., og hefur byr í seglunum nú og þegar hinir nýju kjósendur streyma um borð í þúsundatali verður siglingin létt og skemmtileg.

Ég þakka þeim sem hlýddu.