12.03.1987
Sameinað þing: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4085 í B-deild Alþingistíðinda. (3690)

Almennar stjórnmálaumræður

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Með þessu þingi lýkur senn fjögurra ára mjög viðburðaríku kjörtímabili. Í kosningunum 25. apríl n.k. leggur ríkisstjórnin verk sín í dóm kjósenda. Það gerum við framsóknarmenn ánægðir með þann árangur sem náðst hefur á kjörtímabilinu.

Þegar þessi ríkisstjórn var mynduð settum við okkur að hún skyldi leysa fá en mjög mikilvæg og stór verkefni og það hefur henni tekist. Fyrir fjórum árum ríkti hér á landi óðaverðbólga sem, ef óheft hefði verið, hefði tvímælalaust lagt atvinnulífið í rúst og skapað hér atvinnuleysi sem aldrei slíkt hefur þekkst áður. Nú á þessu ári getur verðbólga orðið, ef rétt er á málum haldið, 10-12% eða sú lægsta sem hún hefur verið í 15 ár.

Fyrir fjórum árum var viðskiptahalli hér á landi 8% af landsframleiðslu, en á s.l. ári varð hann enginn og þá var reyndar næstum fjögurra milljarða afgangur af vöruskiptum.

Fyrir fjórum árum streymdi fjármagnið út úr bönkunum og eigið fjármagn þjóðarinnar brann upp í eldi óðaverðbólgunnar. Nú í fyrsta sinn í 14 ár hafa innlán í bankana orðið töluvert meiri en verðbólgunni nemur.

Fyrir fjórum árum voru erlendar skuldir þjóðarinnar nálægt 60% af landsframleiðslu. Nú fjórum árum síðar verða þær um 47% landsframleiðslunnar. Greiðslubyrðin hefur á sama tíma lækkað úr rúmlega 20% af gjaldeyristekjum í um 16%.

Fyrir fjórum árum var kaupmátturinn fallandi hjá fjölskyldum þessa lands, en nú er kaupmátturinn meiri að meðaltali en hann hefur verið nokkru sinni fyrr og jafnframt hefur tekist að stíga fyrsta skrefið til að bæta kjör þeirra sem lægst hafa launin.

Fyrir fjórum árum stóðu atvinnuvegirnir á heljarþröm. Nú er rekstrargrundvöllur þeirra yfirleitt traustur.

Þegar þessi ríkisstjórn tók við og tilkynnti þær aðgerðir sem hún greip til í upphafi síns starfsferils sagði stjórnarandstaðan að slíkar aðgerðir mundu leiða til gífurlegs atvinnuleysis. Svo hefur ekki orðið. Atvinnuástand hefur verið betra á þessu kjörtímabili en oftast fyrr.

Stjórnarandstaðan segir að vísu að allt sé þetta gott og blessað, en það sé bara góðærinu að þakka. Sem betur fer höfum við Íslendingar fyrr notið góðæris. Við gerðum það t.d. á árunum 1971-1973 og 1976-1978 þegar þjóðartekjurnar uxu meira en á þessum síðustu tveimur árum, en verðbólgan fór þó vaxandi.

Staðreyndin er sú að þetta hefur tekist fyrst og fremst fyrir festu í stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og vegna góðs samstarfs við launþega þessa lands og atvinnurekendur, vegna þess að þið, Íslendingar góðir, hafið tekið þátt í þessari herför gegn verðbólgunni. Þið hafið látið eggjunarorð stjórnarandstöðunnar eins og vind um eyru þjóða.

Þennan mikla árangur, sem náðst hefur, viljum við framsóknarmenn treysta og tryggja. Við viljum jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Við viljum Ísland án verðbólgu. Við munum ekki taka þátt í neinu því samstarfi sem ógnar þeim mikla árangri sem hefur náðst. Okkur er ljóst að því aðeins verður unnt að leysa hin fjölmörgu verkefni í atvinnumálum og velferðarmálum sem fram undan eru að Ísland sé verðbólgulaust þjóðfélag.

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í það hér að svara þeim barlómi sem einkennt hefur málflutning stjórnarandstöðunnar. Það má reyna að draga þetta allt saman í fáein orð. Ég trúi því ekki að það séu fáeinir auðkýfingar sem kaupa þann mikla fjölda bifreiða sem við sjáum nú á götum þessa lands. Nei, það er fjöldinn sem gerir það. Ég trúi því heldur ekki að það séu örfáir auðkýfingar sem hafa bókað þær fjölmörgu ferðir sem allar eru nú uppseldar t.d. til sólarlanda. Og það einkennir engan barlóm að á sjöunda þúsund manns sækja nú um lán til að hefja byggingu eða kaup á fyrstu íbúð.

En þótt efnahagsmálin hafi að sjálfsögðu einkennt mjög störf þessarar ríkisstjórnar hefur hún vitanlega haft með mörg önnur ákaflega mikilvæg og erfið mál að gera. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum hér að landbúnaðarmálum og húsnæðismálum. Þau hafa verið rakin hér ítarlega af þeim ráðherrum sem með þau mál fara. En þó þykir mér rétt að benda á það að í mjólkurframleiðslunni er nú þegar að takast að snúa vörn í sókn. Það verður einnig að takast í sauðfjárræktinni, en það á lengri aðdraganda. Þar eru erfiðari félagsleg málefni við að eiga. Því hefur ríkisstjórnin þegar ákveðið að framlengja þann aðlögunartíma og það verður að gera eins og þörf er á.

Ég vek einnig athygli á því að mjög mikill fjöldi manna og meiri en nokkru sinni fyrr sækir um lán, eins og ég sagði áðan, til nýbyggingar. Þannig viljum við framsóknarmenn stuðla að því að sem flestir Íslendingar geti eignast sínar eigin íbúðir.

Í sjávarútvegi var vegna mikils samdráttar í afla við mikla erfiðleika að stríða í upphafi þessa kjörtímabils. Á þeim málum hefur verið haldið af mjög mikilli festu og nýtur sjútvrh., Halldór Ásgrímsson, mikillar virðingar og trausts fyrir bragðið. Stjórnun sjávarútvegs þarf að sjálfsögðu að endurskoða því aðstæður allar breytast með aflabrögðum. Við framsóknarmenn munum áfram leggja á það höfuðáherslu að vinna með þeim mönnum sem í sjávarútvegi eru og móta þannig í samráði við þá stefnu sem hentar best á hverjum tíma.

Með þeirri hjöðnun sem hefur orðið á verðbólgu hefur grundvöllur atvinnulífsins gjörbreyst til batnaðar og möguleikar til nýrra atvinnugreina hafa mjög batnað. Á síðara hluta kjörtímabilsins höfum við framsóknarmenn því beitt áhrifum okkar til þess að skapa grundvöll fyrir nýsköpun í íslensku atvinnulífi.

Í lok ársins 1984 komum við því til leiðar að 500 millj. kr. lán var tekið og því ráðstafað til ýmissa fjárfestingasjóða til nýsköpunar á viðkomandi sviðum. Einna athyglisverðast og merkast á því sviði tel ég að 50 millj. kr. var varið til að koma á fót nýjum rannsóknasjóði sem styrkir rannsóknir á þessum sviðum. Það er sannfæring mín og reyndar geta margir um það borið að þessi sjóður hefur þegar skipt sköpum og komið rannsóknum til nýsköpunar íslensku atvinnulífi á nýtt stig.

Ég vek einnig athygli á að 190 millj. kr. var varið til að koma á fót nýju fyrirtæki, Þróunarfélagi Íslands. Aðalfundur þess var haldinn í gær og þá heyrðum við að það er þegar að láta mjög mikið gott af sér leiða. Það er orðið þátttakandi í ýmsum nýjum fyrirtækjum og mun hjálpa þeim yfir byrjunarörðugleika. Það er sannfæring mín að ef rétt er á þeim málum haldið mun það einnig skipta sköpum í nýsköpun í íslensku atvinnulífi.

Við framsóknarmenn beittum okkur einnig fyrir því að til fiskeldis voru heimilaðar miklu hærri lántökur erlendis frá en aðrir atvinnuvegir hafa fengið. Við töldum það nauðsynlegt fyrir þennan mikilvæga atvinnuveg sem með tíð og tíma mun áreiðanlega verða ein meginstoð okkar Íslendinga. Ég setti jafnframt á fót fiskeldisnefnd og hef þegar fengið samþykkt á Alþingi tvö frv. frá henni, m.a. sem varðar fisksjúkdóma, og hefur þetta þegar komið þeim mikilvæga þætti fiskeldis á allt annað og betra stig en áður var.

Og ég verð að segja að ekki einkennir bölsýni þá fjölmörgu ungu menn og konur sem nú hasla sér völl á sviði hátækninnar. Enginn vafi er að þar er á ferðinni ný atvinnugrein sem getur varðað miklu fyrir íslenskt þjóðfélag.

En staðreyndin er sú að ef tekst að tryggja þann árangur sem hefur náðst er framtíðin björt. Hins vegar er það staðreynd líka að það er skammt fram af bjargbrúninni og fara verður varlega, annars mun allt unnið fyrir gýg sem ég hef nú nefnt. Því vil ég mjög hvetja þá sem við betri kjörin búa til þess að stilla kröfum sínum í hóf. Til mikils er að vinna.

Góðir Íslendingar. Á s.l. ári barst Ísland óvænt inn í hringiðu heimsmála. Leiðtogafundurinn varð til þess. Og tvímælalaust er þetta einhver merkasti fundur sem haldinn hefur verið á vegum leiðtoga stórveldanna. Þessi fundur tókst ákaflega vel af okkar hálfu. Fyrst og fremst er það að þakka þeim fjölmörgu einstaklingum og fyrirtækjum og stofnunum sem lögðu sameiginlega hönd á plóginn. Þetta sannaði að við getum lyft grettistakinu þegar við stöndum saman. E.t.v. mun fundarins í Reykjavík verða minnst sem tímamótafundar. Þar fengust loksins ræddar róttækari tillögur en áður hefur verið um fækkun kjarnorkuvopna og jafnvel útrýmingu þeirra.

Þetta hefur mjög beint athyglinni að okkur Íslendingum og getur vafalaust, ef rétt er á málum haldið, haft mjög mikla þýðingu fyrir íslenskt land og íslenska þjóð. Ég hef því skipað nefnd manna til að skoða hvaða áhrif þetta kann að hafa og gera tillögu til stjórnvalda um stefnubreytingar eða stefnumörkun og aðgerðir sem nauðsynlegar kunna að vera í þessu sambandi.

Við mig hafa einnig ýmsir rætt og vakið athygli á því að Ísland kynni, vegna þess álits sem það hefur nú, að verða góður staður fyrir stofnun sem ynni að því að bræða ísinn á milli austurs og vesturs, bræða ísinn á milli norðurs og suðurs, sem gæti orðið til þess að stefna mönnum saman til þess að ræða hin fjölmörgu vandamál sem á mannkyninu hvíla, þar sem halda mætti ráðstefnur manna af mismunandi þjóðerni, þar sem leita mætti leiða til að leysa þessi fjölmörgu vandamál, og þau eru ótalmörg.

Ég veit að sumum þykir að þessi hugmynd sé sem draumsýn fyrst og fremst. En þeir eru ýmsir sem ég hef við rætt sem hafa séð raunveruleikann í þessari hugsjón og hafa séð nauðsyn á því að hrinda henni í framkvæmd. Svo var t.d. nýlega þegar ég ræddi við leiðtoga Sovétríkjanna, Gorbatsjoff, og það kom einnig fram hjá sendiherra Bandaríkjanna sem ég hef rætt við um þetta mál. Og það hefur einnig komið fram hjá mörgum öðrum einstaklingum sem ég hef haft tækifæri til að ræða við um þetta mikilvæga mál.

Við skulum ekki láta úrtölumenn draga úr okkur kjarkinn, við skulum hugsa stórt og við skulum hefja slíkt mál yfir flokkadrætti og yfir þá pólitík sem við höfum verið að deila um hér í kvöld.

Það er sannfæring mín að það er fyrst og fremst tortryggni á milli þjóða sem veldur því að meiri árangur næst ekki og það væri verðugt hlutverk fyrir þessa litlu þjóð að eyða þeirri tortryggni þótt ekki væri nema að hluta.

En enn á ný vil ég leggja áherslu á þá staðreynd að allt slíkt mun reynast óframkvæmanlegt ef okkar eigin mál eru ekki í góðu lagi. Við skulum því fyrst og fremst sameinast um að tryggja þann árangur sem náðst hefur í efnahagsmálum, tryggja það að Ísland verði land án verðbólgu, land með jafnvægi í efnahagsmálum.

Góðir Íslendingar. Við framsóknarmenn erum stoltir af þeim árangri sem við höfum náð í þessari ríkisstjórn. Á þeim grundvelli erum við reiðubúnir til þess að vinna áfram. Við viljum Ísland frjálsra Íslendinga, án frumskógar frjálshyggjunnar eða ofstjórnar ríkisvaldsins. Hinn gullni meðalvegur mun reynast þjóðinni farsælastur. Það hefur reynslan sýnt.

Ég óska Íslendingum öllum góðs gengis.