13.03.1987
Efri deild: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4101 í B-deild Alþingistíðinda. (3695)

423. mál, vísitala byggingarkostnaðar

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um vísitölu byggingarkostnaðar á þskj. 866. Þetta frv. er flutt að beiðni hagstofustjóra í tengslum við þá endurskoðun sem Hagstofan vinnur að á grundvelli vísitölu byggingarkostnaðar. Um vísitölu byggingarkostnaðar eru nú í gildi lög nr. 18/1983. Núgildandi grunnur vísitölunnar, sem tekinn var upp með þeim lögum, er frá 1982 og hefur grunntöluna 100 miðað við verðlag í desember á því ári. Í 5. gr. þeirra laga er kveðið á um að Hagstofan skuli eigi sjaldnar en á fimm ára fresti láta fara fram athugun á því hvort byggingarhættir hafi breyst svo að ástæða sé til að endurskoða grundvöll vísitölunnar. Í samræmi við þessi ákvæði hafði Hagstofan stefnt að því að endurskoða vísitöluna á þessu ári. Er nú reiknað með að taka megi upp nýjan vísitölugrunn 1. júlí miðað við verðlag í júní. Sú endurskoðun sem nú er unnið að er gerð í samráði við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins auk þess sem leitað hefur verið til ýmissa sérfróðra aðila á sviði byggingarmála um upplýsingar og ráðgjöf.

Við þessa endurskoðun er miðað við sömu gerð íbúðarhúsnæðis og í núgildandi grundvelli, en endurskoðunin nær til allra þátta vísitölunnar, jafnt til efnisliða sem launaliða.

Í frv. þessu felast í meginatriðum tvenn nýmæli og má segja að önnur séu formleg en hin efnisleg. Sé fyrst vikið að formhliðinni hefur reikningur opinberra verðvísitalna allt frá 1939 verið háður sérstökum lögum sem kveðið hafa á um grundvöll þeirra, útreikningstíma og um tengingu við eldri vísitölur eftir því sem við hefur átt hverju sinni. Lögin um vísitölu byggingarkostnaðar, sem gilt hafa frá því á árinu 1983, fjalla að verulegu leyti um upptöku nýs grundvallar fyrir vísitöluna sem þá var í bígerð, um útreikningstíma hennar, gildistíma og tengingu við eldri vísitölur. Jafnframt eru ákvæði um reglubundna endurskoðun vísitölugrundvallarins á fimm ára fresti.

Í því frv. sem hér er mælt fyrir er hins vegar lagt til að í stað tiltölulega tímabundinna laga eins og þeirra sem nú gilda verði sett um vísitöluna ótímabundin löggjöf sem kveði á um meginreglur við gerð vísitölunnar og útreikning hennar. Þessar meginreglur eru svipaðar og beitt hefur verið til þessa og felast í gildandi lögum. Þannig er áfram gert ráð fyrir að grunnur vísitölunnar verði miðaður við tiltekna gerð íbúðarhúsnæðis og ákveðinn í samráði við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins.

Í þessu felst engin breyting frá því sem verið hefur önnur en sú að ákvæðin eru hér almenn í stað þess að miðast við tiltekinn grunn eða tiltekna endurskoðun vísitölunnar. Á sama hátt og nú gildir er og lagt til að kveðið verði á um að Hagstofan skuli eigi sjaldnar en á fimm ára fresti láta endurskoða grundvöll vísitölunnar með hliðsjón af breytingum á byggingarháttum, byggingarefnum svo og breytingum á tilhögun launagreiðslna, verðskráningar og útreikninga.

Þá er enn fremur lagt til að sett verði almenn ákvæði um að Hagstofan skuli ákveða og birta hvernig ný vísitala skuli tengd eldri vísitölum. Slíkar ákvarðanir eru óhjákvæmilegar, en jafnframt eru þær fyrst og fremst tæknilegar og því er ástæðulaust að um þær séu sett lagafyrirmæli í hvert skipti sem grunnur vísitölunnar er endurnýjaður.

Meginefnisbreytingin sem tillaga er gerð um í þessu frv. kemur fram í 2. gr. þess, en þar er lagt til að vísitalan skuli reiknuð mánaðarlega og gilda í einn mánuð í senn. Í gildandi lögum segir að vísitalan skuli reiknuð á þriggja mánaða fresti og gilda í þrjá mánuði í senn. Í reynd er vísitalan þó reiknuð mánaðarlega og er enginn munur á þeim útreikningum sem fram fara í hinum lögboðnu fjórum mánuðum og í öðrum mánuðum ársins. Hinn mánaðarlegi útreikningur byggist á tvennu, annars vegar á lagafyrirmælum um mánaðarlegan útreikning lánskjaravísitölu, en hún byggist að þriðjungi á vísitölu byggingarkostnaðar. Hins vegar er það orðin almenn skoðun að helstu verðvísitölurnar, vísitala framfærslukostnaðar og byggingarkostnaðar skuli reiknaðar mánaðarlega til þess að sem mest vitneskja fáist um breytingar verðlags í landinu. Í þessu sambandi má enn fremur hafa í huga að lagaákvæði um útreikninga á þriggja mánaða fresti hafa alls ekki komið í veg fyrir að beitt væri öðrum og tíðari verðbótaákvæðum í verksamningi. Þó er hinum mánaðarlegu vísitölum Hagstofunnar lítið beitt í þessu skyni, enda hafa þær ekki lagastoð og algengast er að beitt sé svonefndum línulegum útreikningum við ákvörðun mánaðarlegra verðbóta. Þessi aðferð er þó miklu síðri og ótryggari en að fylgt sé mánaðarlegum vísitölum. Því má ætla að hljóti tillagan í 2. gr. samþykki og vísitalan verði reiknuð út mánaðarlega samkvæmt fyrirmælum laga verði hinir línulegu útreikningar óþarfir og þeim hætt.

Tillagan um mánaðarlegan útreikning gerir að verkum að nauðsynlegt er að kveðið sé á um hvernig fara skuli með skuldabréf og samninga sem kveða á um verðbætur samkvæmt eldri lögum um vísitölu byggingarkostnaðar. Því er í ákvæðum til bráðabirgða lagt til að ákvæði frv. um mánaðarlegan útreikning á gildistíma breyti ekki gildi ákvæða um verðbætur sem miðast við eldri lög um vísitöluna. Sé ekki um annað samið skuli þess háttar verðbætur því miðast við þær vísitölur sem gilda í sömu mánuðum og hinar lögformlegu vísitölur samkvæmt eldri lögum og gilda í þrjá mánuði í senn.

Frú forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara frekari orðum um efnisákvæði frv., og vísa að öðru leyti til skýringa sem fram koma í athugasemdum, en leyfi mér að óska þess að málið fái skjóta afgreiðslu hér í hv. deild þannig að það megi verða að lögum fyrir þinglok því að málið er að efnisinnihaldi tiltölulega einfalt. Meginbreytingin sem í því felst, eins og fram hefur komið, byggir á því að útreikningurinn verði lögformlega á mánaðar fresti en ekki á þriggja mánaða fresti.

Ég legg svo til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.