13.03.1987
Neðri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4155 í B-deild Alþingistíðinda. (3784)

119. mál, umferðarlög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við frv. til 1. um umferðarmál sem er hér á dagskrá. Þessi brtt. fjallar um ágreiningsmál sem verið hefur nokkuð lengi hér á Alþingi og víkur að því atriði hvort það eigi að refsa mönnum fyrir að nota ekki bílbelti. Í umferðarlögunum er gert ráð fyrir að ekki skuli refsa fyrir vissa tegund af brotum í 1. mgr. 109. gr. Skv. þeirri brtt. sem ég legg til er lagt til að ekki verði þó refsað fyrir brot á 71. gr. Hér er um visst „prinsip“-mál að ræða. Meðan það er viðurkennt að ákveðnir þegnar þjóðfélagsins hafi heimildir til að sleppa við þá skyldu að vera með bílbelti er ákaflega hæpið að festa í lög að það gæti verið refsivert athæfi hjá öðrum. Ég tel að það sé alveg á mörkunum að slíkt standist stjórnarskrána, að það sé hægt að setja refsilög á vissa þegna þjóðfélagsins á sama tíma og öðrum er með lögunum veitt alger undanþága frá þessu.

Nú er það svo að jafnvel þó að satt væri að meiri hluti íslensku þjóðarinnar teldi að það ætti að vera lagaleg skylda að refsa mönnum fyrir að nota ekki alltaf bílbelti er vitað að það eru til þó nokkuð margir einstaklingar í landinu sem beinlínis hafa af því ótta að þurfa að nota bílbelti og telja að þeir séu verr komnir í akstri á hættulegum vegum með því fyrirkomulagi. Ég tel að það sé ekki eðlilegt að refsa þessum mönnum fyrir að velja þann kost sem þeir telja að sé þeim öruggastur.

Til að fyrirbyggja allan misskilning er ég engu að síður þeirrar skoðunar að menn eigi að nota bílbelti og ég flutti sem formaður allshn. á sínum tíma það mál í þingsölum að það ætti að lögbinda að menn notuðu bílbelti. Ég treysti mér aftur á móti ekki að standa að því að gera það að refsiverðu athæfi þó að menn veldu þann kost að nota ekki bílbelti.

Það er meginregla í okkar lögum að mönnum er refsað fyrir það sem þeir gera á hlut náungans, ekki fyrir það sem þeir gera sjálfum sér. Það má lengi um það deila hvort þetta sé skynsamlegt eða réttlátt í alla staði. Menn geta vissulega sagt sem svo: Menn geta gert svo mikið gagnvart sjálfum sér að það þýði mikil útgjöld fyrir samfélagið og þess vegna sé það réttlætanlegt að refsa mönnum fyrir það sem þeir gera gagnvart sjálfum sér. Ég tel þó að það orki mjög tvímælis að gera svo sterka stefnubreytingu í þeim efnum, hvað sé refsivert athæfi.

Ég játa það og undirstrika að ég er sannfærður um að bílbeltin draga úr slysahættunni og eru af hinu góða. Ég get aftur á móti ekki neitað því að undir vissum kringumstæðum þar sem ég veit að það hafa orðið umferðarslys er ég sannfærður um að menn björguðust vegna þess að þeir voru ekki með beltið á sér. Svo snöggt geta atvikin borið að. Þar veit ég um dæmi þegar bifreið í hálku rann út af vegi og fram af og bifreiðarstjórinn kippti með sér farþega leiftursnöggt út um leið og hann yfirgaf bifreiðina. Þetta eru undantekningartilfelli. Það er aftur á móti með þetta eins og fleira að menn spyrja: Hvenær á stóri bróðir að hætta að hafa vit fyrir mönnum í þeim efnum að það sé hægt að flokka hlutina undir refsivert athæfi og hvenær er eðlilegt að hann gefi leiðbeinandi fordæmi, leiðbeinandi fyrirmæli sem þýði að það fari ekkert á milli mála hvað löggjafinn telur að menn eigi að gera jafnvel þó hann líti svo á að það séu ekki efni til að refsa mönnum fyrir það þó þeir fari ekki eftir fyrirmælunum?

Auðvitað gæti ég talað hér lengi. En það hvarflar ekki að mér, herra forseti. Ég vildi aðeins í örfáum orðum gera grein fyrir því að mér finnst að það sé eðlilegt að deildin taki afstöðu til þessa ágreiningsmáls, eins og henni gefst kostur á með þeirri brtt. sem hér er lögð fram, en þetta renni ekki í gegnum þingið án þess að menn nánast geri sér grein fyrir því að þessi breyting var í frv.