29.10.1986
Neðri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

86. mál, stjórn fiskveiða

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er nú svo að þegar sumir líta yfir verk sín finnst þeim að þau séu harla góð og að þar hafi verið gætt réttlætis. Það er ekkert þorp að fara í eyði á Vestfjörðum, en það réttlæti sem Vestfirðingar hafa mátt búa við í kvótakerfinu hefur leitt til þeirrar þrengingar að á einu ári hefur flutt burtu nálægt því eitt þorp, þ.e. 350 manns. Og skyldi engan undra að þegar slíkir hlutir hafa gerst spyrjum við, sem erum fulltrúar fyrir þessi svæði, að því hvort það sé svo ósanngjarnt að þeir, sem fá flest atvinnutækifærin í þjónustunni, sitji uppi með að þurfa að gefa eftir einhver atvinnutækifæri á sviði framleiðslu. En því miður virðist vera vinsælast að tala um þetta í háði og spotti, því miður.

Það er líka með þessa blessaða stjórnun að einhverra hluta vegna höfum við þolað óhefta sókn Breta á Íslandsmið, stjórnleysi yfir trillukörlum í um þúsund ár og samt lifir þorskurinn. Furðuleg skepna það. En núna telja menn að það muni allt farast ef ekki sé haft í lögum ákvæði sem takmarkar krókaveiði við landið. Og menn tala alltaf um að ef það verði bætt við á einum stað þurfi að taka frá öðrum. Það er nú það.

Ég man ekki betur en það hafi verið bætt mjög myndarlega við loðnuflotann án þess að þeir hafi verið látnir skila nokkru aftur til baka af þorskkvótanum. Kannske erum við þar komnir að tonnalýðræðinu í LÍÚ, hagsmunaaðilunum sem hafa ráðið og komust að því að hafið ætti að vera einkaeign útgerðarmanna á Íslandi, en verkalýður í landi skyldi engan rétt hafa til þess fiskafla sem væri út af ströndinni.

Ég efa að menn hugleiði nægilega hvað er að gerast í atvinnulegu tilliti. Vita menn að fyrir hvert eitt starf í frumvinnslugrein verða til níu störf í þjónustu? Ósanngirnin er þá ekki meiri en það að þær dreifðu byggðir sem nú biðja um að fá aukningu vita að það þýðir fyrir hvert eitt starf sem þar bættist við níu störf annars staðar. Og hvar verður þessi þjónusta til? Hún verður til yfir 75% á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Það er sent mikið af pósti til þm., alveg ógrynni af alls konar upplýsingum. Þar eru m.a. Tölvufréttir. Þar er sagt frá athugun Bandaríkjamanna á því hvað það sé sem hafi skapað þeim hagvöxtinn á liðnum árum. Menn skyldu nú halda að það væru tölvurnar. Nei. Þetta rit kemst að þeirri niðurstöðu að það eru ekki tölvurnar sem hafa skapað þeim hagvöxtinn. Tölvurnar skapa meiri vinnu fyrir þá sem vinna í þjónustunni. Þeir brjóta að vísu um það heilann hvort upplýsingaskyldan á atvinnuvegina hafi verið aukin það mikið að það hafi orðið vinnusparnaður af tölvunum þess vegna. Nei, það var ekki hvítflibbaliðið sem vann við tölvurnar sem skapaði hagvöxtinn í Bandaríkjunum. Það voru „bláu flibbarnir“, þ.e. verkamennirnir sem unnu í verksmiðjunum. Og þeir sögðu einnig að það hefði orðið framleiðsluaukning vegna betra skipulags og stjórnunar.

Það skyldi þó ekki vera að hrunið í hagvextinum á Íslandi eftir að framsóknaráratugnum lauk hafi verið vegna þess að menn héldu að tölvuvæðingin í þjónustunni væri svo arðbær og mundi skila svo miklum fjármunum inn til landsins? Nei. Það hefur verið þagað yfir því mjög kyrfilega að á árunum frá 1974 til 1978 var meiri hagvöxtur í þessu landi en hefur nokkurn tíma verið í annan tíma á Íslandi og þá var fjárfest í atvinnutækjum í landinu. En það er búið að sefja svo þjóðina að ef spurt er: Hvar er offjárfesting á Íslandi? þá segja menn: Í fiskiskipum, í fiskiskipum, í fiskiskipum. En hvar ætli offjárfestingin sé? Ætli hún sé ekki í verslunarhúsnæðinu hér í Reykjavík? Er hugsanlegt að hún sé í verslunarhúsnæðinu? Getur verið að það hafi verið þörf fyrir alla þá aukningu sem þar hefur átt sér stað? Nei, auðvitað verður aldrei skrifað upp á að það sé offjárfesting í verslunarhúsnæði. Hvernig dettur nokkrum manni í hug að halda slíku fram? Við sem veitum erlendar lánsheimildir til að byggja verslunarhallir á Íslandi fyrir erlent fé. Auðvitað er ekki offjárfesting í verslunarhúsnæði á Íslandi. Að vísu skapast umferðaröngþveiti í bænum þar sem þarf að breyta öllu gatnakerfinu svo það geti verið í takt við veruleikann. Nei, vandamálið eru trillukarlarnir, þessir voðalegu menn sem hafa verið að drepa þorskinn í sjónum, og það eru þessir menn sem sækja sjóinn með línu og hafa skilað besta hráefni á land um áratuga skeið.

Ég geri ekki ráð fyrir því að afstaða nokkurs manns hér í salnum breytist þó það verði tekin törn á þeim til kvölds að kvelja þá með þá stefnu sem er framkvæmd, en því verða menn að gera sér grein fyrir að byggðastefna og hagvöxtur hafa farið saman í þessu landi. Í hvert einasta skipti sem slakað hefur verið á slíku og menn hafa hætt og hikað við að fjárfesta í dreifbýlinu hefur það þýtt minni hagvöxt á Íslandi. Sem betur fer erum við nú að auka fjárfestingar í ýmsum atvinnutækifærum, m.a. fiskeldi sem á eftir að færa þessari þjóð auð. En ofstjórnarhugsunin í sjávarútvegi hefur engu skilað nema því að það er búið að sefja það inn í íslenska þjóð að það séu of mörg fiskiskip, en það þurfi að fjárfesta í verslunarhúsnæði í stórum stíl.