16.03.1987
Efri deild: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4214 í B-deild Alþingistíðinda. (3851)

392. mál, almannatryggingar

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna því frv. sem hér liggur fyrir, því það er vissulega ánægjulegt þegar verið er að rétta hlut kvenna og barna, þrátt fyrir að ég geti tekið undir það með hv. 11. þm. Reykv. að ganga hefði mátt stærra skref hér og nú, þ.e. það hefði mátt taka skrefið fyrr, en þetta er vissulega góð viljayfirlýsing hjá núverandi ríkisstjórn því meira er þetta ekki. Allt fjármagn sem til þarf kemur til með að þurfa að útvega á næstu árum.

Ég hef leyft mér að leggja hér fram brtt. við 2. gr. frv., en mun leggja fram skriflega brtt. við 1. gr., því vissulega er þarna nauðsyn á breytingu á báðum þessum greinum, og má það skrifast sem fljótfærni af minni hálfu að hafa ekki lagt fram brtt. við báðar þessar greinar. En eins og hv. þm. vita þá gerast málin mjög hratt núna og verða þm. að hafa sig alla við svo þeir geti haft undan að komast yfir að lesa þau mál sem til meðferðar eru.

Auk þess mun ég leggja fram brtt. við ákvæði til bráðabirgða þar sem ég tel að það sé mjög heppilegt að fram komi í þessum lögum ákvæði um að skipuð verði nefnd til þess að vinna að tillögum um rétt foreldra til leyfis frá störfum vegna umönnunar barna. Því að í þessum lögum er verið að taka á fæðingarorlofi og ég tel að þar eigi þá einnig heima ákvæði um nefnd sem mundi kanna rétt til leyfis frá störfum vegna umönnunar ungra barna.

Virðulegur forseti. Þar sem verið er að prenta þær tillögur sem ég hef hér nefnt vonast ég til þess að ef ekki verður búið að dreifa þeim áður en umræðu lýkur að þá verði atkvæðagreiðslu frestað til þess að svo geti orðið. Ég efast reyndar ekki um að hv. forseti tekur tillit til þess að hér reyna þó allir að vinna sameiginlega að málum þannig að góð mál komist í gegn áður en þingi lýkur.

Það er ýmislegt fleira sem ég vildi gera athugasemdir við í þessu frv. en sem betur fer gefst tími fyrir næsta þing að gera breytingar komi í ljós einhverjir gallar. Við höfum reyndar fengið útreikninga á ýmsum þáttum og ýmsum ákvæðum í þessu frv. Og eins og kemur fram í nál. er verið að ítreka þann rétt sem bæði konur í sveitum og námsmenn hafa til fæðingarorlofs en er ekki tekið á í sjálfum lögunum heldur með reglugerð. Ég tel það galla að það sé ekki tekið skýrt fram um slík ákvæði í lögunum vegna þess að þrátt fyrir nál. þar sem skýrt er tekið fram í n-lið 2. gr., með leyfi forseta:

„Fæðingardagpeningar greiðast úr lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins gegn framvísun vottorðs læknis og sönnunar um launagreiðslur og atvinnuþátttöku viðkomandi samkvæmt nánari reglum sem ráðherra getur sett í reglugerð.“

Hér er talað um vottorð læknis og sönnun um launagreiðslur og atvinnuþátttöku. Undan þessu verður að víkjast þegar um er að ræða konur bænda eða námsmenn, þá verður að víkjast undan þessari sönnunarbyrði til þess að þær fái 2/3 af dagpeningum. Ég hefði því talið að þarna hefði þurft að koma undanþáguatriði fyrir þá hópa sem þetta á að ná til.

Í öðru lagi má segja það sama um fæðingarstyrk og fæðingarorlof til þeirra mæðra sem missa börn eða verða fyrir fósturláti að það er verið að skerða þeirra rétt miðað við það sem nú gildir í reglugerð. Og ég tel það alvarlegt atriði þegar verið er að taka rétt sem er til staðar í dag og þar með ómerkja þá ráðstöfun sem ráðherra í þessari ríkisstjórn hefur leyft sér að gera, þ.e. að lengja fæðingarorlof í þrjá mánuði til konu sem hefur fætt andvana barn. Þetta ákvæði er sett í reglugerð án þess að til sé lagabókstafur fyrir slíku ákvæði.

Nú er tekið af skarið og hér er þetta fest í lagaákvæði að það skuli ekki vera framkvæmt eins og gerist í dag og eins og stendur í reglugerðinni nú. Ég tel það mjög slæmt fyrir þann ráðherra sem hefur, eins og ég sagði áðan, breytt þessu í reglugerð, auk þess sem ég sé ekki að þetta ákvæði geti staðist ef við lesum svo næstu grein, þ.e. 4. málsgr. 1. gr., þar sem segir að greiðslur fæðingarstyrks falli niður frá þeim degi er foreldri lætur frá sér barn vegna ættleiðingar, uppeldis eða fósturs eða til varanlegrar dvalar á stofnun. Þegar um er að ræða tilvik samkvæmt þessari málsgr. skal fæðingarstyrkur þó aldrei greiðast skemur en tvo mánuði eftir fæðingu.

Þetta þýðir í raun þriggja mánaða fæðingarorlof vegna þess að kona má taka einn mánuð í orlof áður en hún fæðir barn en það skal þó aldrei greiðast skemur en í tvo mánuði eftir að hún eignast barnið. Þetta gildir um þær konur sem ættleiða sín börn eða láta þau alfarið frá sér á stofnun og ég get ekki séð að það standist að við mismunum konum á þennan hátt. Ég get ekki séð að það standist og ég teldi það vera mjög mikla hneisu fyrir hæstv. ráðh. og fyrir hv. heilbr.- og trn., sem hefur fjallað um þetta mál, fari þetta svona í gegnum hv. Alþingi. En þetta eru ákvæði hlið við hlið sem geta alls ekki staðist sé verið að hugsa um alla sem einn, þ.e. að allir hafi sama rétt þrátt fyrir að um umönnun barns sé ekki að ræða eftir fæðingu, hvort sem það er vegna þess að barn fæðist andvana eða það er látið frá sér.

Sem betur fer er hér ekki um mörg tilfelli að ræða á ári en hér er um sama atriði að ræða, það er um það að ræða að kona nái sér eftir þá líkamlegu áreynslu sem það er að ganga með barn og fæða barn. Ekki á að koma til að kona þurfi endilega að sanna með læknisvottorði að hún sé það illa haldin andlega að hún þurfi einn mánuð í viðbót. En það kom fram á nefndarfundi að sé kona það illa farin andlega vegna þess að hún hefur fætt andvana barn þá ætti hún að fá sjúkradagpeninga eins og um önnur veikindi væri að ræða. En ég get ekki séð að þessi rök eigi neinn rétt á sér þegar við erum að tala um algjört lágmark, þ.e. þriggja mánaða fæðingarorlof fyrir þessar konur.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda hér mjög langa tölu, en ítreka það að þrátt fyrir galla og þrátt fyrir að ég hefði viljað að hér væri tekið stærra skref í einu, þá mun ég fylgja þessu frv., en auðvitað með von um það að þær smávægilegu breytingar, sem ég hef lagt til við frv., nái fram að ganga.