29.10.1986
Neðri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

86. mál, stjórn fiskveiða

Flm. (Karvel Pálmason):

Virðulegi forseti. Ég fagna að sjálfsögðu þeim umræðum sem hér hafa orðið bæði um þetta mál svo og önnur brýn hagsmunamál sem hafa borið að garði og þá ekki síst á Vestfjörðum. Ég fagna því sérstaklega að hér hafa menn, a.m.k. sumir hverjir, rætt í hógværð þessi mál og sumir hverjir af víðsýni, þó ekki verði það sagt um alla.

Það er nauðsynlegt þegar mál, ekki síst af þessu tagi, eru hér til umræðu að menn skoði þau í svolítið víðari hring heldur en gert hefur verið. Inn í umræðuna hér hefur komið Patreksfjarðarvandamálið, þó út af fyrir sig væri ekki meiningin að hefja umræður um þann sérstaka stað frekar en aðra sem eiga í erfiðleikum, kannske mismunandi miklum á hverjum stað. Auðvitað þarf að bregðast við þessum vandamálum, horfast í augu við staðreyndirnar, og koma í veg fyrir að þeir, sem vilja byggja þessa staði, fari þaðan burt. Það er auðvitað mál númer eitt. Það er mál þjóðfélagsins fyrst og fremst að koma í veg fyrir að hlutirnir þróist með þessum hætti.

Mér finnst fáheyrð sú fáfræði sem lýsir sér hjá sumum hæstv. ráðherrum hér úr ræðustól í dag. Hæstv. menntmrh. hafði frumkvæðið í að vera illa upplýstur í efnum sem hann á að vita. Hæstv. sjútvrh. gerði þetta líka og þá úr ræðustól. Eins og aðeins hefur verið vikið að áður þá orðaði hann það svo: Líklega eru komnir svo margir starfsmenn á sjúkrahúsið á Ísafirði að þetta riðlar því. Veit ekki hæstv. ráðherra að það er bara búið að taka í notkun lítið brot af sjúkrahúsinu á Ísafirði? Ég hygg að hæstv. ráðherra ætti nú að gera sér ferð vestur á firði, vestur til Ísafjarðar og skoða það sjúkrahús, fjórðungssjúkrahús, sem þar er rekið núna og vita hvernig honum litist á þá aðstöðu sem því fólki sem þar vinnur og sjúklingunum sem þar liggja, er boðið upp á. Ég held að menn ættu að hugsa aðeins meira áður en þeir tala. (Sjútvrh.: Það á nú við um fleiri.) Auðvitað á það við um fleiri, hæstv. ráðherra, þú hefur engan einkarétt á því. Auðvitað á það við um fleiri. Ég sýndi fram á það áðan að það á við um fleiri hæstv. ráðherra en þig. Og kannske verða þeir enn þá fleiri áður en dagurinn líður sem við heyrum í hér af svipuðum toga eins og hjá þessum tveim hæstv. ráðherrum. En þeir eru báðir að austan. Þeir eru báðir að austan sem þm.

Ég mótmæli því, hæstv. sjútvrh., að ég hafi fullyrt það hér úr ræðustól að ekkert hafi verið linað á gagnvart handfærabátum og línuveiðum. Ég tók það sérstaklega fram að vissulega hefðu menn linað tökin eins og þau voru frá upphafi, vegna þess að þau voru allt of hörð, strax. En hver er nú linunin eins og lögin eru núna? Við skulum taka Vestfirðina. Ég þekki þar best til að ég held. Þar segir í 9. gr. laganna núna, með leyfi virðulegs forseta:

„Botnfiskveiðar báta minni en 10 brúttólestir eru háðar eftirgreindum takmörkunum:

1. Veiðar eru ekki heimilaðar á eftirgreindum tímabilum: Í 10 daga um páskahelgi í mars 1986 og apríl 1987.“

Nú háttar svo til á Vestfjörðum, víðast hvar að minnsta kosti, að lítið er byrjað á handfæraveiðum á þessum tíma þannig að þetta skiptir kannske ekki meginmáli þar. En síðan skulum við halda áfram:

„Enn fremur í 10 daga í ágúst og 7 daga í júní og október, hvorn mánuð, ár hvert.“

Á hæsta bjargræðistímanum fyrir handfærabáta, á þessu svæði a.m.k. Þetta kalla ég hömlur. Og ef það er rétt, og ég tek undir það með hæstv. sjútvrh., ef þetta er ekki svo mikils virði þá á auðvitað að aflétta þessum hömlum. Og ég fagna út af fyrir sig ræðu hæstv. sjútvrh. hér áðan miðað við þá ræðu sem hann flutti um sama mál 1984. Vissulega hefur hæstv. ráðherra vitkast í þessum efnum, þó á ýmsum öðrum sviðum hafi hann farið afvega. Þetta er, held ég, mál sem menn þurfa að skoða.

Hæstv. ráðherra var að spyrja um stefnu Alþfl. Finnst þér það ekki gott, hæstv. ráðherra, hjá mér, að vera kominn með hv. þm. Reykv., formann Alþfl., á þessa skoðun? (Sjútvrh.: Það er afrek.) Er það ekki afrek? Já, og ég vænti þess að það sé hægt að vinna slíkt afrek á fleirum, nema þá einhverjum tréhestum sem vilja sitja við sama keip þó þeir viti að þeir rói vitlaust. (SvG: Forstjóra Þjóðhagsstofnunar ...) Hvað segir hv. þm.? (SvG: Formann kvótanefndar, forstjóra Þjóðhagsstofnunar.) Ég á nú ekki von á því að hann hafi samþykkt lögin hér. Eða rámar hv. þm. Svavar Gestsson í það að hann hafi tekið afstöðu í því máli hér? En það væri kannske ástæða til að spyrja hv. þm. Svavar Gestsson, formann Alþb.: Hvert er hans álit í þessum efnum? Hvar mundi hann greiða atkvæði, á hvern veg, í þessu máli? Og hvað gerði hann síðast þegar þetta var hér til umræðu? Ég man það, hv. þm. Svavar Gestsson. Þá varst þú kvótamaður í þessu tilfelli. Það er rétt við rifjum það upp undir svona umræðu. En vonandi hefur þú vitkast eins og hinn formaðurinn. Auðvitað eiga menn að skipta um skoðun ef þeim finnst að þeir hafi farið villir vegar. Það er ekkert sjálfsagðara. Og mér finnst að mér hafi orðið talsvert ágengt nú þegar og vona að fleiri fylgi á eftir.

Hæstv. sjútvrh. sagði að hér væri verið að leggja til að skerða hjá einum og bæta við hina. Ég þarf nú ekki annað en vitna bara í ræðu hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar, ágæta ræðu sem hann flutti hér áðan eins og oftast áður, og svaraði nánast öllu sem svara þarf í þessum efnum. Þá hefur honum sjálfsagt verið hugsað til síns formanns í þessum efnum, hæstv. forsrh., og þar hittum við einn sem alltaf segist vera á móti kvótanum en greiðir honum alltaf atkvæði. (MB: Þetta breytist þegar hann kemur frá Kína.) Akkúrat, við skulum koma að því, hæstv. samgrh. Kannske er brottför hans vegna þessa að vestan. (SvG: Það skyldi nú ekki vera.) Það skyldi nú ekki vera, já, það er rétt hjá þér, hv. þm. Svavar Gestsson. En svona eru nú hlutirnir. Og þeir eru í mínum huga afskaplega skrýtnir oft þegar þeir berja svona að dyrum hjá manni. Það er afskaplega forvitnilegt oft og tíðum að fylgjast með sama einstaklingnum frá skoðun til skoðunar, eftir því hvort hann á ríkisstjórnaraðild eða er í stjórnarandstöðu, eftir því hvort hann er ráðherra eða án ráðherradóms. Og ég er ekki hissa orðinn á því þó ýmsum aðilum úti í þjóðfélaginu hafi a.m.k. orðið hugsað til þess hvernig skoðanaskiptin eigi sér stað og hvers vegna.

Ef það er svo, og menn komast að raun um það að draga verði af einhverjum til þess að bæta við - í þessu tilfelli þau sjávarpláss sem eru nánast komin að hruni vegna þessa - ef ástandið er þannig, þá á að gera það. Því að velflest önnur svæði hafa annað upp á að hlaupa. Upp á hvað er annað að hlaupa t.d. á Vestfjarðakjálkanum? Í öðrum atvinnugreinum? Eða eiga menn bara að leggja árar í bát og gera ekki neitt? Ætli það mundi ekki minnka í buddunni hérna á Reykjavíkursvæðinu ef þessi hluti legðist af í vinnslunni? Þær yrðu ábyggilega færri krónurnar, sem menn gætu hér á þessu svæði farið með í stóru verslanirnar, heldur en áður var. Ég held nefnilega að ef menn fást til þess að setja sig inn í þessi mál, setja sig inn í þær staðreyndir sem blasa við allt of víða í sjávarplássunum, að þá hljóti menn að sannfærast um það að breytinga er þörf. Hér er vissulega breytinga þörf. Og það á engin þvermóðska eða drumbsháttur að ráða neitt ferðinni í slíku. Það er þjóðarheildin sem að sjálfsögðu krefst þess að menn bregðist hér rétt við. Og það er hún sem krefst þess að menn stígi skref til þess þá að bjarga því sem bjargað verður úr því sem komið er.

Mér er það alveg ljóst að þetta frv. leysir ekki allan vandann. Það er alveg ljóst. En það mun a.m.k. létta byrðarnar hjá þeim sem hvað harðast hafa orðið úti vegna kvótamálsins og það er tilgangurinn. Það er tilgangurinn að bægja frá þeirri hættu sem þegar hefur skapast og blasir við á miklu fleiri stöðum ef áfram verður haldið á sama vegi og verið hefur.

Nú skal ég ekki, virðulegi forseti, hafa þessi orð öllu fleiri. Hæstv. sjútvrh. sagði að verið væri að endurskoða þessi mál nú og trúlega mundu sjást verk þeirrar nefndar, vonandi fyrir áramót, þannig að breyting ætti sér þá stað um áramót. Ekki svo? Þetta frv. gerir einmitt ráð fyrir því að það taki gildi frá og með áramótum. Og þess vegna er enn nægur tími, eða a.m.k. rýmri tími en oft hefur verið áður til þess að ræða þetta hér í þinginu og gera breytingar á lögunum.

Ég vænti þess að menn hafi tekið vel eftir ágætri ræðu hv. þm. Friðjóns Þórðarsonar. Menn ættu að skoða þetta í rólegheitum og ræða það af viti. Ég held að það sé rétt ályktun. Og ef menn gera það þá er ég handviss um að sannfæring manna stendur til þess að gera breytingar frá núverandi löggjöf til hins betra fyrir þá sem þegar eru komnir í erfiðleika og forða þeim frá erfiðleikum sem blasa við í dag.