30.10.1986
Sameinað þing: 10. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

1. mál, fjárlög 1987

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Frv. það til fjárlaga fyrir árið 1987 sem hér er nú til umræðu í sameinuðu Alþingi er að þessu sinni lagt fram með umtalsverðum rekstrarhalla, rekstrarhalla upp á samtals 1 milljarð 583 millj. kr. Sjálfsagt geta allir verið sammála um að óæskilegt er að reka ríkisbúskapinn með umtalsverðum halla, eins og hér er gert ráð fyrir. Slíkt á auðvitað ekki eingöngu við um ríkisbúskap heldur að sjálfsögðu einnig um öll fyrirtæki, stofnanir, sjóði og síðast en ekki síst um rekstur heimilanna. Öll verðum við að setja okkur það sem meginmarkmið að við eyðum ekki meiru en við öflum. Slíkt er aðeins réttlætanlegt við sérstakar aðstæður og þær aðstæður sem hér hafa skapast eiga sínar skýringar.

Meginorsökina má rekja til þess er ríkisvaldið tók þátt í kjarasamningum á s.l. vetri og lagði þar verulega af mörkum með því annars vegar að fella niður tekjur, einkum í formi lækkaðra tolla og aðflutningsgjalda, og hins vegar með því að auka útgjöld svo takast mætti að ná samningum á vinnumarkaðnum. Ég hygg að flestir séu sammála um að þeir samningar hafi verið mikilvægir, þar hafi verið brotið í blað og sú samningagerð hafi haft veruleg áhrif á framvindu og þróun efnahagsmála þessarar þjóðar. Sú þróun hefði ekki orðið í þá veru sem raun ber vitni ef ríkisvaldið hefði ekki tekið þátt í samningunum með þessu móti.

Þetta leiddi hins vegar til þess að verulegur halli er nú fyrirsjáanlegur á ríkisfjármálum yfirstandandi árs og ljóst að útilokað var að snúa algjörlega við blaði og leggja að þessu sinni fram hallalaust fjárlagafrumvarp. Til þess þarf lengri tíma, aðlögun einhverra ára, en vissulega er hér reynt að snúa þróuninni við og áætlaður halli næsta árs er verulega lægri en fyrirsjáanlegt er að verður á þessu ári.

Tekjuhlið frv. upp á 40 milljarða kr. skiptist í þrjá meginflokka, beina skatta, en þar er stærsti liðurinn tekjuskattur upp á 4,8 milljarða eða rúmlega 12% af heildartekjum ríkissjóðs, óbeina skatta upp á 31,3 milljarða, en þar er stærsti liðurinn sölugjaldið sem áætlað er að gefi nettó 15,5 milljarða kr. eða tæplega 40% af heildartekjum ríkissjóðs, og svo fjármunatekjurnar sem eru vaxtagreiðslur og arðgreiðslur af fyrirtækjum eða stofnunum ríkisins upp á 2,7 milljarða kr.

Varðandi skattamálin almennt vil ég setja fram það álit mitt eða þá skoðun að það skattakerfi sem við nú búum við sé bæði götótt og óréttlátt og þarfnist verulegra breytinga og endurskipulagningar. Öllum er ljóst í raun og viðurkenna það, a.m.k. undir niðri, að veruleg skattsvik viðgangist í þessu þjóðfélagi og það er brýnt að stjórnvöld takist á við þann vanda. Undan því verður ekki lengur ekist og hefði gjarnan mátt sýna viðbrögð við þessu máli fyrr og af meiri festu en gert hefur verið. Reyndar er það ekki ný saga að slælega sé staðið að þessum málum því að þeir fjármálaráðherrar sem ég hef átt samstarf við hafa sýnt þessu máli lítinn skilning eða lítið beitt sér varðandi það að herða innheimtuaðgerðir og efla innheimtu skatta sem eiga að renna til ríkissjóðs. Nú er svo komið að ekki verður lengur við unað. Það má e.t.v. segja að hv. þm. Albert Guðmundsson hafi í fjármálaráðherratíð sinni sýnt tilburði í þá átt að efla innheimtu skatta með auglýsingaherferð og fjölgun starfsfólks á skattstofum, en ég minnist ekki einnar einustu tillögu í þá átt úr fjármálaráðherratíð hv. þm. Ragnars Arnalds. Það þarf að taka á þessum skattsvikum og það þarf að herða til muna allar refsiaðgerðir. Það á að svipta þá menn atvinnuleyfum sem gerast brotlegir við skattalögin og beita öllum þeim ráðum öðrum tiltækum sem leitt gætu til bættrar skattinnheimtu og leitt geta til þess að menn skili ríkissjóði þeim gjöldum sem þeim ber og í réttu hlutfalli við tekjur þeirra eða afkomu fyrirtækja þeirra sem því miður virðist þó vera verulegur misbrestur á.

Varðandi tekjuskattinn sérstaklega vil ég einnig láta það álit mitt koma fram að mér finnst hann á undanförnum árum hafa orðið óréttlát og ósanngjörn skattlagning í þeirri mynd sem hann nú er. Við horfum á fjöldann allan af þjóðfélagsþegnum sem virðast hafa ærið nóg að bíta og brenna en taka lítinn þátt í rekstri samfélagsins. Einhverra hluta vegna hefur þeim tekist að koma sér upp slíku kerfi að þeir komast hjá því að greiða þau gjöld sem þeim ber miðað við þann lífsmáta eða þá lifnaðarháttu sem þeir hafa tamið sér.

Tekjuskatturinn á í eðli sínu að vera jöfnunartæki stjórnvalda til þess að jafna á milli þeirra sem mikið bera úr býtum og hinna sem minna mega sín en því miður virðist mér þróunin hafa orðið sú að undanförnu að hann hefur þvert á móti leitt til þess að auka ójöfnuð í þjóðfélaginu. Sjálfsagt má segja að það sé uppgjöf stjórnvalda að takast ekki á við þessi mál og láta skattinn á ný gegna því hlutverki, jöfnunarhlutverki, sem hann á að gegna en miðað við óbreytt ástand stefnir hugur minn miklu fremur til þess að tekjuskattur verði lagður niður í núverandi mynd og fundið upp nýtt skattaform sem betur þjóni sínum tilgangi og þá þarf að fara aðrar leiðir til þess að jafna lífskjörin. Það ættum við fremur að gera í gegnum tryggingakerfið en skattakerfið. Geti menn hins vegar bent á leiðir sem renna á ný styrkum stoðum undir tekjuskattskerfið og nái menn saman um að fara þær leiðir er ég tilbúinn til að endurskoða afstöðu mína.

Varðandi söluskattinn má segja svipaða sögu. Söluskatturinn hefur á undanförnum árum þróast þannig að auðvelt virðist vera fyrir ýmsa aðila, sem á annað borð eru þannig hugsandi, að skjóta honum undan, gera ekki rétt skil til ríkissjóðs, jafnvel þó svo að þeir hafi innheimt þennan skatt af skattgreiðendum en stungið honum síðan í eigin vasa. Einnig vitum við að brögð eru að því að menn geri samninga sín á milli um að söluskattur skuli ekki lagður á og þannig skila sér ekki til ríkissjóðs þær tekjur sem þó er gert ráð fyrir að eigi að greiðast af viðkomandi vörum eða þjónustu. Þetta er að sjálfsögðu óviðunandi.

Ég hef átt viðræður við menn sem mikið hafa fjallað um skattamál á undanförnum árum og þeir hafa látið það álit sitt í ljós að e.t.v. sé nauðsynlegt að taka upp nýtt gjörbreytt skattkerfi. Það þurfi kerfisbreytingu. Nú má segja að það hafi aldrei þótt góð latína að framkvæma breytingar aðeins breytinganna vegna, en í þessu tilfelli kann það að reynast nauðsynlegt og þessir skattfróðu menn, sem ég hef rætt við, hafa einmitt bent á það að með tíð og tíma verði skattalög úrelt, bæði götótt og óréttlát einkum af tveimur ástæðum. Önnur ástæðan er sú að smám saman læra menn á viðkomandi skattkerfi, finna í því smugur og finna aðferðir til þess að komast undan að greiða það sem þeim ber. Hin ástæðan er sú að í tímans rás freistast stjórnvöld einnig til þess að samþykkja alls konar undanþágur og breytingar á skattalögum, ýmiss konar smugur sem verða síðan þess valdandi að þeir sem lag hafa á og vilja til geta einnig komið sér undan að greiða réttmæt gjöld eða þau gjöld sem þeim ber með því að nota sér þessi göt sem stjórnvöld hafa búið til.

Þetta er það sem hugsanlega réttlætir kerfisbreytingu breytingarinnar vegna og jafnvel má færa að því rök að slíka kerfisbreytingu þyrfti að gera með vissu árabili, e.t.v. 10, 15 eða 20 ára bili, þá þyrfti að taka upp nýtt skattkerfi og hverfa frá því sem menn hafa áður búið við sem þá er trúlega orðið hriplekt. Þetta kann að þykja nokkuð harður dómur en svona horfir þetta mál við mér og þó nú sé ekki tími til þess að ræða frekar um þær leiðir eða þær aðferðir sem ég teldi skynsamlegt að viðhafa er nauðsynlegt að menn geri það, og það fyrr en síðar, því að óviðunandi er að sætta sig við það ástand sem nú ríkir.

Í frv. er gert ráð fyrir sérstöku innflutningsgjaldi af olíu og bensíni sem áformað er að skili ríkissjóði 600 millj. kr. á árinu 1987. Nauðsynlegt er að styrkja fjárhag ríkissjóðs og hafa ýmsar þjóðir Vestur-Evrópu notað lækkun olíuverðs á heimsmarkaði til að styrkja fjárhag ríkjanna og lækka erlendar skuldir. Hér hefur allur hagur hins lækkaða olíuverðs á síðastliðnum mánuðum komið í hlut fyrirtækja og einstaklinga og í sjálfu sér er ekki nema gott eitt um það að segja. Ekki hefur enn verið endanlega ákveðið hvernig að þessu máli skuli staðið og er þessi skattlagning því enn í athugun hjá ríkisstjórn og stjórnarflokkum. Ég hef sett fram þá skoðun mína og geri það einnig hér að leggja beri orkuskatt á alla orku, jafnt innlenda sem innflutta, og afla með því ríkissjóði tekna og jafna um leið þann gífurlega og óréttláta mismun sem er á orkuverði í landinu. Það má t.d. gera með því að skatturinn sé jafnhá upphæð í aurum eða krónum á orkueiningu og verði síðan felldur niður eða endurgreiddur hjá þeim orkukaupendum sem nú þegar kaupa orkuna yfir einhverju ákveðnu verði. Þetta yrði þá um leið eitt skref í þá átt að jafna búsetuskilyrðin í landinu.

Útgjaldahlið fjárlagafrv. er samtals upp á 41 milljarð 584 millj. kr. og er því rekstrarhalli upp á tæplega 1,6 milljarða svo sem áður hefur komið fram.

Gjaldahliðin skiptist í meginatriðum í fimm flokka. Þar má fyrst nefna rekstrarliði sem eru laun og önnur rekstrargjöld ráðuneyta og ríkisstofnana upp á samtals 16,8 milljarða kr. Þar af er launaliðurinn einn upp á 13,4 milljarða eða rúmlega 32% af heildarútgjöldunum.

Annar flokkurinn er svokallaðar neyslu- og rekstrartilfærslur upp á 15 milljarða rúma. Þar eru liðir eins og almannatryggingar, niðurgreiðslur á vöruverði, úrflutningsuppbætur, framlög til sjóða, svo sem Lánasjóðs íslenskra námsmanna, endurgreiðsla söluskatts í sjávarútvegi og fleira. Stærsti liðurinn er almannatryggingar upp á 9,7 milljarða eða tæpan fjórðung heildarrekstrarútgjalda ríkissjóðs.

Þriðji liðurinn er síðan vaxtagjöld en í þau er áætlað að verja á næsta ári 3,4 milljörðum kr. sem er því betur nokkur lækkun frá áætluðum vaxtagreiðslum ríkissjóðs á þessu ári. Auðvitað er hart að þurfa að sjá eftir svo háum fjárhæðum í vaxtaútgjöld eða vaxtagreiðslur, en það stafar að sjálfsögðu af því að á undanförnum árum höfum við verið að framkvæma og vinna að ýmsum mikilvægum verkefnum sem við höfum ekki getað gert án þess að taka til þess lán sem síðan leiða af sér að við verðum auðvitað að horfa á eftir allháum upphæðum til vaxtagreiðslna.

Fjórði liðurinn er viðhaldsliður upp á 1,1 milljarð kr. og hækkar hann nokkuð umfram verðlagsforsendur frv. Meiri hluti upphæðarinnar er til viðhalds þjóðvegakerfisins eða 878 millj. kr., en þær 225 millj. sem þá eru eftir eru um það bil 50% hærri fjárhæð en var á síðasta ári varið til viðhalds á fasteignum ríkisins og var sannarlega ekki vanþörf á. Víða er svo komið að húseignir hins opinbera eru mjög illa farnar og þarfnast mikilla endurbóta. Það er óskynsamlegt að fara svo með opinberar eignir og þess vegna nauðsynlegt að verja nú hærri upphæðum en áður til þessa viðhaldsverkefnis.

Fimmti og síðasti flokkurinn, sem ég nefni, eru fjárfestingarnar. Þessi liður hækkar einnig nokkuð umfram verðlagsforsendur frv. og er samtals upp á 5,2 milljarða kr. Á undanförnum árum hafa stjórnvöld gengið mjög á þessa fjárfestingarliði. Opinber fjárfesting hefur dregist saman og minnkað hlutfallslega miðað við heildarútgjöld ríkisins, en nú er reynt að snúa nokkuð við á þeirri braut. Það er að sjálfsögðu bæði auðvelt og einnig mjög freistandi að vera með yfirboð hvað varðar framlög til fjárfestinga og stofnkostnaðargreiðslna af hálfu ríkisins og ýmsir þm. hafa einmitt fallið í þá freistni. Þó að framlög til hafnaframkvæmda, svo eitthvert dæmi sé tekið, hækki úr 74 millj. kr. í 160 millj., um 86 millj. kr. eða 116%, er vissulega auðvelt að segja að hér sé um allt of lítið fjármagn að ræða. Það hefði þurft að vera miklu hærra. Og mér er það auðvitað vel ljóst ekki síður en öðrum hv. þm. að kröfur og óskir um fjárveitingar til hafnamála og allra annarra opinberra fjárfestinga eru miklar, svo miklar að þær upphæðir sem tilgreindar eru hér í þessu frv. duga hvergi nándar nærri.

Ef ég tek t.d. dæmi úr mínu kjördæmi, Norðurlandskjördæmi eystra, gerir áætlun Vita- og hafnamálastofnunarinnar ráð fyrir því að brýnar framkvæmdir í því kjördæmi séu upp á 130-140 millj. kr. og er þó sjálfsagt ekki allt talið. Það mætti því segja með nokkrum sanni og með fullum rökstuðningi að ekki veitti af þessum 160 millj . kr. sem áætlaðar eru í framkvæmdirnar í þetta eina kjördæmi en ég býst einnig við að svipaða sögu megi segja um mörg önnur kjördæmi. Þeim veitti ekki af tugum eða jafnvel hundruðum milljóna króna til þess að fullnægja óskum og því sem talið er brýnustu þarfir við framkvæmdir í höfnum á viðkomandi stöðum.

Varðandi hafnarmannvirkin langar mig að nefna eitt mál sem ég tel hafa mikla sérstöðu. Hluti af samgöngumálum Hríseyinga er ferja sem gengur milli eyjarinnar og hafnar á Árskógssandi en þar eru svo mikil þrengsli orðin í höfn, m.a. vegna vaxandi og öflugrar útgerðar, að ferja Hríseyinga hefur nánast enga aðstöðu til að leggjast að og athafna sig. Þetta er orðið algjört ófremdarástand. Fólksflutningar með ferjunni eru stöðugt vaxandi og verður vart lengur ekist undan því að taka á þessu máli.

Tillaga Vita- og hafnamálastofnunarinnar er að þar verði byggð sérstök ferjubryggja og er það auðvitað dýrt mannvirki, áætlað að kosti um 12 millj. kr. Ekki er líklegt að hafnarsjóður Árskógshrepps telji sig skuldbundinn til að leggja fram hlut á móti ríki í þessari framkvæmd og Hríseyingar eiga að sjálfsögðu nóg með sína höfn. Á þessu verður því að taka með sérstökum hætti enda er hér um samgöngumál að ræða, nánast hluta af vegakerfi Hríseyinga sem verður að leysa.

Um fjárveitingar til skólamannvirkja má segja svipaða sögu og um framlög til hafna þrátt fyrir umtalsverða hækkun frá fjárlögum til frv. Þar er einnig ljóst að um allt of lága upphæð er að ræða til þess að fullnægja óskum. Og á undanförnum árum hefur þar að auki skapast sú staða milli ríkis annars vegar og sveitarfélaga hins vegar að mörg sveitarfélög, sem virðast hafa rúman fjárhag, hafa lagt í framkvæmdir, byggt skóla, sundlaugar, íþróttahús eða einhver önnur mannvirki, sem ríkið á að taka þátt í samkvæmt lögum, án þess að framlög frá ríki hafi verið fyrir hendi. Við þetta hafa myndast verulegar skuldakröfur af hálfu sveitarfélaganna á hendur ríkissjóði og í sumum sveitarfélögum eru þessar upphæðir farnar að skipta milljónatugum.

Ég tel því mjög brýnt að skoða hvernig hægt sé að standa að uppgjöri við þessi sveitarfélög. Það er í raun hreinn skrípaleikur að vera að úthluta einhverjum hundruðum þúsunda eða í besta falli tveimur, þremur, e.t.v. fjórum millj. kr. til sveitarfélaga sem telja sig eiga inni tugi milljóna króna hjá hinu opinbera. Menn verða að átta sig á hvernig standa eigi að þessum uppgjörsmálum og reyna síðan að koma á áætlanagerð fyrir áframhaldandi framkvæmdir á þessu sviði og gott væri að koma á slíkri áætlanagerð varðandi flestar eða allar framkvæmdir hins opinbera.

Þessi aðferð hefur gefist vel hvað varðar vegaframkvæmdir. Þar hefur um langt árabil verið unnið samkvæmt svokallaðri fjögurra ára áætlun og þó að hún standist e.t.v. ekki alltaf hygg ég þó að slík vinnubrögð séu gott fordæmi fyrir stjórnvöld til þess að taka upp svipaða langtímaáætlanagerð varðandi aðrar opinberar framkvæmdir.

Þessari hugmynd hef ég reyndar hreyft oft áður bæði hér í fjárlagaumræðu og á öðrum vettvangi og vil enn ítreka það að ég tel að hér þurfi að taka til hendi og e.t.v. er staðan í skólamálunum einmitt hvatning eða það sem rekur á eftir að í þetta verkefni verði nú gengið án frekari tafar eða umhugsunar.

Framlög til að styrkja sveitarfélög við vatnsveituframkvæmdir eru í frv. áætluð 10 millj. kr. Fjölmörg smærri sveitarfélög eru nú að undirbúa eða vinna að mjög dýrum vatnsveituframkvæmdum sem sumar hverjar kosta tugi milljóna króna. Það er því ljóst að upphæð sú sem gert er ráð fyrir í frv. dugar skammt til að aðstoða þau sveitarfélög sem hér eiga hlut að máli.

Ég ætla ekki að fjalla frekar eða ítarlegar um tekju- eða gjaldahlið fjárlagafrv. né heldur þær forsendur sem frv, byggir á. Það hefur hæstv. fjmrh. gert í framsöguræðu sinni við þessa umræðu.

Hæstv. fjmrh. fjallaði m.a. um það í framsöguræðu sinni áðan að sérstök stefna núv. stjórnvalda væri að selja ríkisstofnanir. Varðandi þann hluta ræðu hans vil ég taka fram að sjálfsagt er að skoða það, vega og meta í hverju einstöku tilfelli, hvort rétt sé að selja eignarhlut ríkisins í félögum eða fyrirtækjum. Ég get hins vegar ekki tekið undir að það sé stefna stjórnvalda að selja öll ríkisfyrirtæki. Það verða menn að meta hverju sinni. Ríkið hefur oft aðstoðað við að koma á nauðsynlegri atvinnustarfsemi eða hlaupið undir bagga þegar erfiðlega hefur gengið hjá aðilum með starfsemi sem talin hefur verið nauðsynleg. Það þarf ekki að tákna það að ríkið eigi um alla framtíð að vera þátttakandi í starfseminni. Aðstæður geta breyst og þá er sjálfsagt og eðlilegt að meta það hverju sinni.

Mig langar nú til þess að fara örfáum orðum um nokkra þætti og einstök atriði frv.

Þegar þingflokkur framsóknarmanna fjallaði um drög að fjárlagafrv. á fundi sínum í september s.l. var m.a. eftirfarandi bókað:

1. Eftirlit með framkvæmd skattalaganna verði stórhert. Vísar þingflokkurinn í því sambandi til tillagna í skýrslu fjmrh. um skattsvik. Er þingflokkurinn reiðubúinn til að taka þátt í þeirri vinnu.

2. Athuguð verði hækkun skatta á stóreignir, m.a. fjármagnseign.

3. Áfengi og tóbak verði hækkað umfram verðlag og fjárfesting ÁTVR þannig fjármögnuð.

4. Niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum verði ekki lægri í krónutölu en þær urðu eftir febrúarsamningana.

5. Gert verði ráð fyrir tilfærslu verkefna til sveitarfélaga. Þessi tilfærsla verði ákveðin í samráði við sveitarfélögin og þess gætt að alls ekki verði dregið úr jöfnuði með sveitarfélögum og að flutningurinn leiði til þess að fjármögnun og framkvæmd fari sem mest saman. Tillögum varðandi akstur skólabarna, gæslu og mötuneytiskostnað er hafnað án slíks samráðs.

Þetta eru nokkur af þeim atriðum, sem rætt var um og komu til bókunar á þingflokksfundi framsóknarmanna á haustdögum þegar fjallað var um undirbúning fjárlagagerðarinnar.

Ég hef hér á undan rætt nokkuð um framkvæmd skattalaga og hert skatteftirlit og einnig sett fram nokkrar athugasemdir varðandi það skattkerfi sem nú ríkir og álit mitt á nauðsyn þess að taka það rækilega til endurskoðunar. Ég ætla því ekki að eyða fleiri orðum að þessum þætti að sinni og hvað varðar bókun okkar um hugsanlegan skatt á stóreignir, þá er jú vitað að um það er ekki samstaða meðal stjórnarflokkanna og því má telja ólíklegt að sú leið verði farin til að auka tekjur ríkissjóðs og bæta stöðu hans á meðan þetta stjórnarsamstarf varir.

Hins vegar vil ég fjalla lítils háttar um tilfærslur verkefna til sveitarfélaganna og margumræddan skólakostnað. Í athugasemdum við fjárlagafrv. segir m.a., með leyfi, forseta:

„Á vegum hlutaðeigandi ráðuneyta og í samvinnu við sveitarfélögin er nú unnið að endurskoðun á skipan og kostnaðarskiptum sameiginlegra verkefna ríkis og sveitarfélaga. Nú liggur ekki fyrir hvaða verkefni og útgjaldaþættir muni færast til sveitarfélaganna, en menntamálaráðherra hefur lagt til að akstur skólabarna á grunnskólastigi og ýmis annar kostnaður, er tengist starfi grunnskólanna, færist til sveitarfélaganna. Í þessu frv. er að svo komnu máli áætlað fyrir þeim útgjaldaþáttum grunnskólanna sem kemur til álita að flytja. Aftur á móti hafa skil ríkissjóðs á söluskattstekjum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verið lækkuð sérstaklega um 130 millj. kr. Náist samkomulag um tilfærslu verkefna verða fjármál Jöfnunarsjóðsins endurskoðuð.“

Á öðrum stað í grg. með frv. er fjallað um sérstaka skerðingu á framlögum til Jöfnunarsjóðsins en þar segir, með leyfi forseta:

„Í fjórða og síðasta lagi er þess að geta að skil ríkissjóðs á tekjum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eru lækkuð sérstaklega um 130 millj. kr. til viðbótar 177 millj. kr. skerðingu lögbundinna skila, en sambærileg skerðing hefur gilt um tveggja ára skeið. Viðbótarlækkun þessi er til bráðábirgða og mun standa þar til stjórnvöld og samtök sveitarfélaga hafa tekið ákvörðun um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Nú eru starfandi nefndir sem um þetta fjalla og er þess vænst að þær skili áliti á næstu vikum þannig að fyrir afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1987 verði ráðrúm til að gera nauðsynlegar breytingar á frumvarpinu.“

Í þessum tilvitnuðu athugasemdum við fjárlagafrv. svo og með vísan til bókunar þingflokks framsóknarmanna lít ég svo á að ekkert geti orðið af þessum verkefnatilfærslum öðruvísi en samkomulag náist um það milli beggja aðila, þ.e. ríkisvaldsins og samtaka sveitarfélaganna. Náist nú ekkert slíkt samkomulag fyrir afgreiðslu fjárlaga verður að áætla aftur fyrir þessum 130 millj. kr. sem Jöfnunarsjóður sveitarfélaga var sérstaklega skertur um með vísan til þessarar verkefnatilfærslu. Málefni Jöfnunarsjóðsins þyrfti svo að taka til sérstakrar athugunar ef af verkefnatilfærslum yrði og breyta úthlutunarreglum hans í þá átt að hann geti raunverulega staðið undir nafni.

Bókun okkar framsóknarmanna um málefni Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins er tilkomin vegna þess að okkur fannst óheyrilega há þau fjárfestingaráform sem fyrirhuguð voru, samtals að upphæð 95 millj. kr. við að reisa og innrétta tvær áfengis- og tóbaksverslanir hér í Reykjavík. Það mundi leiða til mikillar þenslu sem nauðsynlegt væri að reyna að draga úr. Okkur var hins vegar sagt að um báðar þessar byggingar væri búið að gera sérstaka bindandi samninga og algjörlega óumflýjanlegt að ráðast í þessar framkvæmdir samtímis. Við settum því fram þá hugmynd að verð á áfengi og tóbaki yrði hækkað umfram verðlag til þess að standa undir þessari miklu fjárfestingu.

Í grg. fjárlagafrv. er sagt frá því að árið 1977 hafi ÁTVR gerst aðili að sameiginlegri byggingu í Mjóddinni í Breiðholtshverfi og nú á s.l. hausti hafi verið ákveðið að bjóða út uppsteypu og utanhússfrágang á þessu umrædda húsnæði og áformað að verja til þess 55 millj. kr. Einnig er greint frá því að ÁTVR hafi fest kaup á húsnæði í Kringlunni við Kringlumýrarbraut. Þar sé ráðgert að opna nýja verslun í ágúst á næsta ári og kostnaður við innréttingar og frágang á því húsnæði sé áætlaður um 40 millj. kr.

Nú hafa hins vegar heyrst hugmyndir frá hæstv. fjmrh. um að fresta einhverju af þessum framkvæmdum. Þykir mér einsýnt að þar sem samningar um framkvæmdir í Mjóddinni eru í raun tilkomnir miklu fyrr en kaup á verslunarhúsnæði í Kringlunni, eða árið 1977, hljóti að vera óhjákvæmilegt að halda þeim framkvæmdum áfram og komi nú til greina að fresta einhverjum framkvæmdum hljóti það að verða við verslunina í Kringlunni svokölluðu. Auðvitað getum við framsóknarmenn fallist á að fresta báðum þessum framkvæmdum ef hæstv. fjmrh. er sammála okkur um að hér sé í of mikið ráðist og framkvæmdir upp á tæplega 100 millj. kr. á þessu svæði kunni að leiða til óeðlilegra útgjalda og of mikillar þenslu fyrir tilstuðlan ríkissjóðs. Það er í fullkomnu samræmi við álit okkar og tillögur frá því í sumar. Heyrst hafa þær athugasemdir að e.t.v. sé hugmyndin að frestun á framkvæmdum við verslunina í Mjóddinni í Breiðholtshverfi tilkomin vegna nýlegra eigendaskipta á öðru verslunarhúsnæði á því svæði. Bágt á ég með að trúa slíkum aðdróttunum í garð hæstv. fjmrh. og trúi alls ekki að óreyndu að slíkt geti ráðið ákvörðunum hans.

Niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum voru auknar nokkuð í kjölfar febrúarsamninganna svokölluðu á s.l. vetri. Munum við framsóknarmenn leggja áherslu á að þeim niðurgreiðslum verði haldið áfram á næsta ári og er gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. að um óbreytta krónutölu verði að ræða svo sem lagt er til í bókun þingflokks framsóknarmanna sem ég hef áður vísað til.

Hv. alþm. Ragnar Arnalds taldi þetta frv. m.a. óvinveitt bændum. Hv. þm. neitar að viðurkenna að frv. ráðgerir verulegar greiðslur til bænda í formi útflutningsuppbóta eða samtals 480 millj. kr. og það sem ég tel þó enn mikilvægara, 240 millj. kr. til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins til að aðstoða bændur við nauðsynlegar búháttabreytingar. Það er lítilfjörlegt af hv. þm. að viðurkenna ekki þann vanda sem við er að glíma í markaðsmálum landbúnaðarins og reyna að gera lítið úr þeim aðgerðum sem stjórnvöld grípa nú til til þess að koma lagi á þessi mál og treysta landbúnað til frambúðar.

Þá eru enn í frv. nokkur atriði sem ég vil nefna og verð ég reyndar að játa að sum þessara atriða hafa komið mér og okkur framsóknarmönnum nokkuð á óvart. Vil ég þar fyrst nefna hugmyndir sem fram eru settar um breytingar á lögum um Framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins. Gert er ráð fyrir að lögum verði breytt þannig að aðflutningsgjaldatekjur, sem Framkvæmdasjóðnum ber af innfluttum sjónvarps- og útvarpstækjum, skuli renna í ríkissjóð. Ráðstöfunarfé sjóðsins skerðist samkvæmt því um 50 millj. kr. í ár og um áætlaðar 50 millj. kr. á næsta ári eða samtals um 100 millj. kr. Reyndar segir í grg. frv. að fjármál Ríkisútvarpsins, þar með talið Framkvæmdasjóðs, þarfnist nánari umfjöllunar fyrir afgreiðslu fjárlaga. Undir þetta skal vissulega tekið enda er mér ekki kunnugt um að þessi hugmynd hafi nokkurn tíma verið rædd í þingflokki framsóknarmanna og ég tel ekki líklegt að hún verði samþykkt þar.

Sjálfsagt er að ræða við hæstv. fjmrh. um að draga úr áætluðum framkvæmdum Ríkisútvarpsins hér á þessu svæði á svipaðan hátt og hugmyndir hans virðast vera hvað varðar málefni ÁTVR, en þá er einnig hugsanleg meðferð á Framkvæmdasjóði Ríkisútvarpsins svipað og gert er ráð fyrir að fara með markaðar tekjur til byggingar Þjóðarbókhlöðunnar. Þar er ráðgert að þó innheimta sérstaks eignarskatts, sem renna skal óskiptur til byggingar Þjóðarbókhlöðu, nemi 95 millj. kr. eigi ekki að framkvæma nema fyrir 45 millj. en geyma sérstaklega merktar Þjóðarbókhlöðunni þær 50 millj. kr. sem þarna eru í mismun. Mér sýnist ekki útilokað að fara svipaða leið hvað varðar málefni Framkvæmdasjóðs Ríkisútvarpsins ef hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh. telja ekki þörf á að verja öllu þessu fjármagni Framkvæmdasjóðsins til framkvæmda á vegum útvarpsins.

Ég vil þó geta þess hér að ég tel og þykist vita að Ríkisútvarpið eigi enn eftir að styrkja sitt dreifikerfi verulega. M.a. er brýn þörf á enduruppbyggingu langbylgjusendanna og Rás 2 hefur ekki enn náð til allra landsmanna. Úr því er brýnt að bæta hið fyrsta, enda ekki annað sæmandi en að allir þegnar sitji við sama borð hvað þetta varðar. Einnig tel ég að Ríkisútvarpið þurfi að bæta útsendingar Rásar 2 og sjónvarpssendingar til sjómanna á fiskimiðum í kringum landið. Ég hef heyrt marga þeirra kvarta yfir því og láta í ljósi óánægju sína með að ná ekki betur útsendingum útvarpsins. Jafnframt hafa þeir sagt mér að slíkt sé hægt að lagfæra, a.m.k. á mörgum stöðum, þó mér sé ljóst að sjálfsagt verði seint hægt að koma útsendingu útvarpsins á öll hefðbundin fiskimið. Í harðnandi samkeppni Ríkisútvarpsins við nýjar útvarps- og sjónvarpsstöðvar hljótum við að gera þá kröfu að svo sé að Ríkisútvarpinu búið að það geti gegnt því hlutverki sínu að þjóna öllum landsmönnum. Því er síst tími til þess nú að ráðast á tekjustofna, veikja með því undirstöðurnar og draga úr möguleikum Ríkisútvarpsins að gegna sínu mikilvæga hlutverki.

Í athugasemdum við fjárveitingar til Hótel- og veitingaskóla Íslands er greint frá áætluðu 950 þús. kr. framlagi vegna fyrirhugaðs flutnings skólans að Laugarvatni. Hér er sett fram hugmynd sem þarf nánari athugunar við. Þó ekki séu í grg. frv. settar fram neinar skýringar um þennan fyrirhugaða flutning hefur heyrst að ráðgert sé að nýta fyrir þennan skóla húsnæði Hússtjórnarskólans á Laugarvatni. Það hús er nú lítið notað m.a. vegna einhliða ákvörðunar hæstv. menntmrh. um að leggja niður starfsemi nokkurra hússtjórnarskóla og mætti að sjálfsögðu ræða nokkuð um þá ákvörðun út af fyrir sig. Ég veit að nauðsynlegt er að endurskoða starfsemi og hlutverk hússtjórnarskólanna. Ræða þarf við þau félagasamtök sem aðild hafa átt að rekstri skólanna og eru jafnvel meðeigendur ríkisins að viðkomandi fasteignum.

Á Laugarvatni er einnig rekinn Íþróttakennaraskóli Íslands og er hann á hrakhólum með bæði kennslu- og heimavistarhúsnæði. Ég tel mjög eðlilegt að málefni þess skóla verði höfð í huga þegar rætt er um framtíðarskipulag skólamála á Laugarvatni sem mér virðist nauðsynlegt að gera og það sem allra fyrst.

Svipaða sögu má reyndar segja um skipan skólamála að Laugum í Þingeyjarsýslu. Þar er málum ekki ólíkt háttað og á Laugarvatni og engum blandast hugur um að þessi skólasetur og framtíð þeirra hafa grundvallarþýðingu fyrir þróun byggðar í viðkomandi héruðum.

Enn verð ég að nefna eitt sem kemur mér nokkuð á óvart við yfirlestur frv. Undir utanrrn. er komið nýtt viðfangsefni sem nefnt er Ratsjárstöðvar, rekstur. Hér er átt við ratsjárstöðvarnar sem Bandaríkjamönnum var heimilað að reisa á Vestfjörðum og Norðausturlandi. Ég hélt að hér væri um að ræða mannvirki og rekstur sem svipað háttaði til með og önnur mannvirki Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli, enda kemur fram í greinargerðinni að þeir greiða allan kostnað við þennan rekstur. Megum við kannske búast við því að á næsta ári verði málningarverkstæði Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli, þar sem starfa nokkrir íslenskir málarar, sérstakt viðfangsefni á fjárlögum íslenska ríkisins, svo eitthvert dæmi sé nefnt.

Herra forseti. Ég hef í ræðu minni gert nokkrar athugasemdir við einstaka liði fjárlagafrv. sem gætu bent til þess að ég sé ekki ánægður með allt sem þar stendur og vissulega finnst mér að sumt mætti betur fara. Ég vil þó að sjálfsögðu að lokum lýsa ánægju minni með meginmarkmið frv. svo sem að viðhalda efnahagslegu jafnvægi í landinu. Ekki er gert ráð fyrir samdrætti í framlögum til velferðar- og menntamála. Við verðum að standa vörð um það velferðarþjóðfélag sem við höfum á undanförnum árum verið að byggja upp og eigum að vera óhrædd við að afla ríkinu þeirra tekna sem nauðsynlegar eru til að halda því uppi með fullri sæmd. Frv. samræmist því markmiði ríkisstjórnarinnar að ná sem næst jöfnuði við útlönd á næsta ári. Áformað er að halda áfram á þeirri braut að draga úr erlendum lántökum opinberra aðila. Nokkuð er reynt að auka við ýmsa fjárfestingarliði frv. þó vissulega sé þörf fyrir hærri upphæðir en svigrúmið er ekki fyrir hendi svo sem niðurstöðutölur frv. sýna best. Beitt er aðhaldi varðandi rekstrarútgjöld en þess þó gætt að rekstrarfé til starfsemi ráðuneyta og stofnana sé í samræmi við raunverulegt umfang. Hefur á undanförnum árum verið leitast við að fylgja þeirri stefnu og í frv. þessu eru leiðrétt framlög til nokkurra stofnana sem vitað var að ekki bjuggu við raunhæfa áætlanagerð.

Full ástæða er því til að álíta að frv. sé nú nær því en nokkru sinni fyrr að áætla rétt til um umsvif ríkisins, ráðuneyta þess og stofnana á næsta ári. Grg. frv. svo og allar þær upplýsingar sem því fylgja að þessu sinni eru fullkomnari og betri nú en nokkru sinni fyrr og ber að þakka hæstv. fjmrh. og starfsmönnum hans undir stjórn hagsýslustjóra, Magnúsar Péturssonar, fyrir vönduð vinnubrögð hvað þessu viðvíkur.

Fjvn., sem samkvæmt venju hefur þegar hafið störf, mun svo á næstu vikum takast á við það erfiða verkefni að yfirfara frv., gera á því nauðsynlegar lagfæringar og gera tillögur um skiptingu einstakra framkvæmdaliða svo sem ætlast er til af henni. Vænti ég góðs samstarfs við meðnefndarmenn mína og reyndar hv. alþm. alla hvað þetta vandasama verkefni varðar.