16.03.1987
Neðri deild: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4269 í B-deild Alþingistíðinda. (3951)

346. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna ræðu hv. 3. þm. Reykv. vil ég taka fram að ég hef ekki fengið í hendur þá útreikninga Þjóðhagsstofnunar sem hann gat um. Þjóðhagsstofnun hefur á hinn bóginn verið að vinna að útreikningum varðandi nýju skattalögin. Þeir byggja á framreikningi launa frá 1985 til ársins 1987, en eins og kunnugt er eru frv. þessi byggð á álagningu síðasta árs sem byggði á tekjum ársins 1985. Það voru nýjustu upplýsingar sem fyrir lágu þegar frv. voru samin. Það hefur áður komið fram, enda um það gott samkomulag, að eðlilegt sé að endurskoða fjárhæðir og skatthlutföll í þessum frv. eftir að álagning hefur farið fram á þessu ári.

Ég geri ekki ráð fyrir að upplýsingar sem byggja á framreikningi launa frá 1985 fram til ársins 1987 segi ýkjamikið á þessu stigi málsins. Fyrr fá menn ekki haldbær gögn í þessu efni en álagning hefur farið fram á þessu ári. En hvað sem því líður er eðlilegt að sú nefnd, sem ákveðið hefur verið að setja á fót til þess að fylgjast með framgangi staðgreiðslunnar og að öðru leyti að skoða væntanleg ný lög með hliðsjón af álagningu þessa árs, fái allar þær upplýsingar sem fyrir liggja og þar á meðal þær upplýsingar sem hv. þm. gat um í ræðu sinni.