17.03.1987
Neðri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4429 í B-deild Alþingistíðinda. (4202)

197. mál, veiting prestakalla

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það var hér í gær að ég hitti að máli hæstv. menntmrh., sem að eigin sögn hefur verið meðvitundarlítill í þessu máli um nokkurra vikna skeið eða það hefur flotið hér í gegnum þingið, og gat þess við hann hvort það væri hugsanlegt að við sameinuðumst um að flytja brtt. við þetta frv. og hann tók mér vel. Við lögðum síðan fram brn., ég og hv. þm. Pétur Sigurðsson, og síðan hefur fæðst hér brtt. á þessum merka degi, afmælisdegi Páls Péturssonar, þar sem nokkrir þm. hafa tekið sig saman um brtt. við 5. gr. Og þar sem þessi till. er hin merkasta tel ég enga ástæðu til þess að vera að halda till. okkar hv. þm. Péturs Sigurðssonar til streitu og lýsi því yfir að við drögum hana til baka.

Jafnframt vil ég segja það að ég er almennt þeirrar skoðunar að þjóðaratkvæði þurfi að innleiða hér á mikið fleiri sviðum en gert hefur verið og þyrfti að setja um það ákvæði í stjórnarskrá, en ég er hins vegar ekki tilbúinn til þess að byrja ferli þjóðaratkvæðagreiðslna á Íslandi með því að fjalla um skipan prestsembætta. Ég get því ekki fyrir mitt leyti stutt till. hv. 3. þm. Vestf. (KP: Það er búið að draga hana til baka.) Er búið að draga hana til baka? Ég heyrði það ekki, herra forseti, og biðst afsökunar á því, en vildi taka þetta fram. Ég vænti þess að sú till. sem hér hefur verið flutt hafi góðan stuðning þannig að þetta mál geti farið í gegnum þingið með þeirri brtt. sem við höfum lagt hér fyrir.

Ég ætla ekki að fara að tala hér almennt um lýðræði og presta. Það eru sjálfsagt aðrir menn betur fallnir til þess, einkum það síðarnefnda, þannig að ég læt máli mínu lokið.