17.03.1987
Neðri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4434 í B-deild Alþingistíðinda. (4213)

125. mál, opinber innkaup

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Á Alþingi 1979-1980 var samþykkt till. til þál., sem var flutt af mér, um innkaup opinberra aðila á íslenskum iðnaðarvörum. Tillgr. var svofelld:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir í samstarfi við Samband ísl. sveitarfélaga að fram fari athugun á því eftir hvaða leiðum sé unnt að auka verulega frá því sem nú er innkaup ríkis, sveitarfélaga og stofnana og fyrirtækja þeirra er leiði til eflingar íslenskum iðnaði og útboð verði notuð á markvissan hátt til að stuðla að iðn- og vöruþróun í landinu.“

Í grg. sagði m.a.:

„Flutningsmaður tillögu þessarar vill minna á samþykkt sem gerð var fyrir nokkrum árum í borgarstjórn Reykjavíkur um innlend innkaup þar sem sú stefna er mörkuð í innkaupum að heimilt sé að taka tilboði innlendra aðila fram yfir erlenda þótt verð hinnar innlendu vöru sé allt að 15% hærra en gæði sambærileg. Flutningsmaður telur nauðsynlegt að slík regla eða svipuð verði tekin upp fyrir öll opinber fyrirtæki.“

Í samræmi við þetta vil ég geta þess að ég styð eindregið till. hv. 3. þm. Reykv.