18.03.1987
Sameinað þing: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4486 í B-deild Alþingistíðinda. (4332)

315. mál, varnir gegn mengun hafsins við Ísland

Frsm. utanrmn. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1007 um till. til þál. um varnir gegn mengun hafsins við Ísland, en þetta nál. er frá utanrmn. Nefndin hefur fjallað um þessa till. og leggur til einróma að hún verði samþykkt með smávægilegri breytingu. Ég les tillögugreinina með breytingunni, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að hvetja til þess að efnt verði til ráðstefnu hér á landi um varnir gegn mengun við Ísland og annars staðar í Norðaustur-Atlantshafi þar sem sérstaklega verði fjallað um þá hættu sem fiskistofnum á þessu svæði er búin vegna mengunar frá geislavirkum efnum. Felur Alþingi ríkisstjórninni að vinna að framgangi málsins.“

Hér er við bætt orðalagi þar sem nefnd er mengun frá geislavirkum efnum og niðurfellt úr upprunalega tillögutextanum ákvæði um að bjóða skyldi til ráðstefnunnar öllum þeim ríkjum sem hlut ættu að máli og einnig alþjóðastofnunum.

Undir þetta nál. rita Eyjólfur Konráð Jónsson, Kjartan Jóhannsson, Gunnar G. Schram, Birgir Ísl. Gunnarsson, Haraldur Ólafsson og Hjörleifur Guttormsson.