18.03.1987
Efri deild: 71. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4516 í B-deild Alþingistíðinda. (4377)

416. mál, tollskrá

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að munnhöggvast mikið við hv. 4. þm. Norðurl. v., enda hefur yfirleitt verið gott samstarf á milli okkar í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar. Ég tel að við framsóknarmenn hér í þessari deild og reyndar hér í Alþingi höfum starfað heiðarlega í þessu stjórnarsamstarfi og óþarfi að fara að rifja upp á síðasta degi þingsins ýmis mál sem hafa komið fram hér í þinginu. Ég gæti náttúrlega rifjað upp ýmislegt í sambandi við samstarf þessara beggja flokka, t.d. þegar ráðherrar hafa greitt atkvæði á móti stjfrv. eins og hér hefur komið fyrir í mjög veigamiklum málum og miklu veigameiri málum en þetta er, þetta litla mál hér, sem er gott mál og ég mun styðja. Ég tel að það sé alveg óþarfi að gera upphlaup hér þó að þm. úr stjórnarliðinu fái eina brtt. samþykkta jafnvel þó að hún kosti fé sem er að vísu ekki háar upphæðir í þeim upphæðum sem hér er um að tefla.

Það er rétt að við höfum samþykkt þau fjárlög sem hér er unnið eftir nú og þau eru með miklum halla. Við álitum það nauðsynlegt í þessari stöðu, en hins vegar höfum við náttúrlega áhyggjur af þessum fjárlagahalla, því er ekkert að neita, því að þennan halla þarf að greiða. Og þó að við höfum samþykkt þessi fjárlög þá getum við náttúrlega ekki vikið því úr huga okkar að þennan fjárlagahalla þarf að greiða.

Ég ítreka það að ég tel að við höfum unnið heiðarlega í þessu samstarfi, við höfum sem betur fer náð samkomulagi um flest mál hér í Alþingi og ég tel að samþykkt þessarar tillögu sé ekki stórt mál. Hins vegar er þetta gott mál og kemur ýmsum til góða í þjóðfélaginu og er alveg í samræmi við stefnu hv. 4. þm. Norðurl. v. í tollamálum, eins og hann tók hér rækilega fram og hélt hér örlitla tölu um sína stefnu í þeim málum og hefur reyndar haldið margar slíkar í fjh.- og viðskn. Ed.

Ég legg því til, eins og hann reyndar gerði, að þetta frv. verði samþykkt eins og það kom frá Nd. og ríkisstjórnin fari ekki að hálsbrjóta sig á skíðum þessa fáu daga sem eftir eru af hennar líftíma. Kannske förum við á skíði án þess að hálsbrjóta okkur, annaðhvort fyrir eða eftir kosningar, en ég held að það verði óháð samþykkt þessa máls og ég ætla að fara a.m.k. á gömlu skíðunum mínum þó að skíðin lækki við þessar aðgerðir sem hér eru.