18.03.1987
Neðri deild: 70. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4525 í B-deild Alþingistíðinda. (4410)

430. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Frsm. meiri hl. landbn. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv. sem hér er til umræðu um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum varðar breytingar á tveimur greinum þeirra laga, þ.e. 36. gr. og 37. gr.

Þetta frv. hefur nú verið rætt á tveimur fundum í nefndinni, öðrum að vísu óformlegum áður en málið var komið til nefndar. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til málsins. Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir var fjarstödd við afgreiðslu þess. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon skilar séráliti. Þeir sem skrifa undir þetta nál. ásamt mér eru hv. þm. Pálmi Jónsson, Eggert Haukdal, Þórarinn Sigurjónsson og Halldór Blöndal.

Þetta mál var mikið rætt fyrir tveimur árum og þá kom það fram, t.d. í framsöguræðu sem sá flutti sem hér stendur, að því var spáð að það yrði að lengja þann umþóttunartíma sem yrði að vera ef ætti að ná því marki að búið væri að byggja upp einhverja aðra afvinnustarfsemi í strjálbýli en þá náðist ekki samkomulag um lengri tíma. Ég vil því fagna því sérstaklega að það hefur orðið samkomulag í stjórnarflokkunum um að taka þarna tvö skref sem eru tvö ár til viðbótar við það sem lögin kveða á um.

Breytingin er líka þannig að í 36. gr. eru í staðinn fyrir 4% komin 5% en í sambandi við það fjármagn sem á að fara í Framleiðnisjóð hefur það verið lækkað úr 5% árið 1990 ofan í 4% og 4% síðan á árunum 1991 og 1992.

Þó að mér sé ljóst að þetta nægi ekki, þá er þetta mjög gott skref og eins og ég sagði fagna ég því. Það verður tíminn að leiða í ljós þegar þessi ár líða, en ég álít að það þurfi að lengja þetta tímabil ef þeir flokkar sem þá ráða eru sama sinnis og var þegar þessi lög voru sett, þ.e. að halda byggðinni í svipuðu horfi og hún var þá. Þá þurfum við mikið lengri tíma.

En ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Meiri hl. nefndarinnar mun greiða atkvæði á móti öllum brtt. sem fram koma til þess að tryggja framgang þessa máls.