19.03.1987
Neðri deild: 72. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4558 í B-deild Alþingistíðinda. (4450)

405. mál, eftirlit með skipum

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Eins og fram kom við framlagningu mála á öndverðum vetri var þetta eitt af þeim málum sem ríkisstjórnin ákvað að leggja fram. Vinnan að samningu frv. tók, eins og í svo mörgum öðrum málum, lengri tíma en ætlað var og frv. var seint á ferðinni. Það fór fyrir Ed. og ég sem ráðherra reyndi ekki að hafa nein áhrif á nefndarmenn um við hverja væri talað. Það gera nefndarformenn og nefndarmenn og það þekki ég af eigin raun.

Þetta mál hefur verið unnið fyrst og fremst faglega og er verið að samræma úr lögum margvíslegar breytingar sem hafa verið gerðar á skyldum lögum, þar á meðal nýsett lög um Siglingamálastofnun o.fl. Þetta mál var rætt í svokölluðu siglingamálaráði. Þar mun fulltrúi Sambands ísl. kaupskipaútgerða ekki hafa verið mættur, sem ég vissi ekki fyrr en í gær, en hins vegar hefur deildarstjóri í ráðuneytinu tjáð mér að honum og Sambandi ísl. kaupskipaútgerða hafi verið sent það sem hér var efnislega til athugunar þannig að það hefur verið nægur tími fyrir alla aðila að kynna sér málið.

Frá hendi sjómanna hefur verið fylgst með málinu og þeir hafa sent nefndinni í þessari hv. deild smávægilegar athugasemdir sem í raun og veru skipta ekki máli. Mér er ljóst að í öllu svona væri æskilegt að hafa lengri tíma, en ég sé ekki ástæðu til þess þegar mál er komið frá nefnd í síðari deild og þar sem hér er um margvíslegar endurbætur að ræða frá gildandi löggjöf. Það eina sem ég heyri um óánægju er síðdegis í gær frá forstjóra eins kaupskipaútgerðarfélags og ég fæ svo að sjá bréf, það er kl. 5 eða að ganga 6, til formanna samgöngunefnda þingsins og eins nefndarmanns. Þar er aðallega gert að umræðuefni frá sjónarhóli kaupskipaútgerðarinnar að hún teldi að það fælust ýmis brot á alþjóðalögum í einni grein frv. þar sem frv. áskilur einhliða ákvörðunar og umsjónarrétt Siglingamálastofnunar yfir skipum í erlendri eign og löglega skráð erlendis.

Í gærkvöld fór ég að bera saman við eldri lög sem hv. frsm. samgn. vitnaði til. Þar var nákvæmlega sama orðalagið. Þetta er það sem gert er að höfuðágreiningsmáli. Þessi lög voru sett fyrir tæpum 17 árum eða árið 1970. Við höfum verið að setja ákaflega merk lög á sviði siglingamála, á öllum sviðum siglingamála og öryggismála. Það eru mjög háværar kröfur, ekki eingöngu frá sjómönnum, yfirmönnum og undirmönnum heldur frá þjóðinni allri, um aukið öryggi með öllum samgöngutækjum, hvort sem það er á sjó, landi eða í lofti, og stóraukið eftirlit. Öllu þessu er fylgt betur eftir. Ég sé enga ástæðu til að slaka á kröfum í þeim efnum.

Hins vegar sé ég ástæðu til þess hér og nú að lýsa því yfir að ég er reiðubúinn til samvinnu og samstarfs við Samband ísl. kaupskipaútgerða um að skoða allt það sem forsvarsmenn þeirra telja að annmarkar séu á í þessum lögum í heild, ekki eingöngu í þessu frv. heldur í heild. Ég get vel sætt mig við það og sett á lítinn samstarfshóp, 3-4 manna, til að vinna þetta mál í sumar og það yrði þá lagt fyrir Alþingi í haust af væntanlegum samgrh. Í trausti þess að þetta verði gert og samvinna náist, bæði þessara aðila sem og annarra í þessum efnum, legg ég eindregið til að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir.