19.03.1987
Sameinað þing: 66. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4575 í B-deild Alþingistíðinda. (4490)

Yfirvofandi uppsagnir á ríkisspítölunum

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hv. málshefjandi spurði: Hvaða afleiðingar hefur það þegar 140 háskólamenntaðir starfsmenn láta af störfum, segja upp störfum í heilbrigðisþjónustunni? Það má spyrja áfram: Hvaða afleiðingar hefur það þegar 200 sjúkraliðar segja upp störfum og ganga út 1. apríl, bara hjá ríkisspítölunum fyrir utan aðrar stofnanir? Það má spyrja áfram: Hvaða afleiðingar hefur það þegar kennarastéttin efnir til verkfalla þriðja árið í röð? Hvaða afleiðingar hefur atgervisflóttinn úr kennarastétt? Hvaða afleiðingar yfirleitt hefur þessi hrörnun opinberrar þjónustu sem við höfum fyrir augunum og nefnum dæmi um?

Er það ekki undarleg þversögn: Ríkið er stærsti vinnuveitandi á Íslandi, ríkið er kannske líka um leið versti vinnuveitandi á Íslandi. Er það ekki undarleg þversögn að við búum hér í góðæri sem talnameistarar reikna upp á 10 þús. millj. en ríkið, þessi stóri vinnuveitandi, rekur sinn búskap með halla sem nemur mörgum þúsundum milljóna í miðju góðærinu? Er það ekki undarleg þversögn að á sama tíma og ríkið rekur búskap sinn með þvílíkum halla staðfesta opinberar tölur að skattundandráttur hinna efnameiri í þjóðfélaginu, sem eiga að greiða sinn hlut til þessarar þjónustu, nemur mörgum þúsundum milljóna? Er ekki sýnt, ef við leitum lausna og ef við erum sammála um það að ríkið eigi að halda uppi slíkri þjónustu, að við verðum að taka ríkisbúskapinn í heild til endurskipulagningar? Verðum við ekki að fara að reyna að á einhverju samkomulagi um það hvað er það sem við ætlumst til af ríkinu? Hvert á hlutverk þess að vera?

Er það hlutverk ríkisins að verja kannske allt að þriðjungi af sínum útgjöldum til þess að reka fyrirtæki og reka þau illa eða borga hallarekstur fyrirtækja? Eða reka stofnanir sem fyrst og fremst eru í þjónustu atvinnuvega og fyrirtækja? Getum við náð samkomulagi um það að forgangsverkefnin ættu að vera þau að ríkið einbeiti kröftum sínum, starfsorku stjórnsýslunnar, fjármunum sínum að því að treysta undirstöður velferðarríkisins, að bæta þjónustu við fólk? Þarf ekki hvort tveggja að koma til? Ef ríkið, sem við erum hér fulltrúar fyrir, ætlar að bæta laun þess fólks sem er í þjónustu heilbrigðiskerfisins, skólakerfisins o.s.frv., er þá ekki fyrsta skrefið það að ríkið afli tekna til þess með því að útrýma skattsvikum? Væri ekki hin hliðin á sama málinu sú að við, sem hér erum saman komnir, reyndum að móta stefnu um hvert ætti að vera hlutverk ríkisvaldsins, m.a. með því að fækka útgjaldaliðum ríkisins, skilgreina hver skuli vera forgangsverkefnin?

Það er ekki nóg að horfa upp á þessar undarlegu þversagnir um góðærið og hallareksturinn, horfa upp á þá undarlegu þversögn að einkaneyslan, öll ytri einkenni hennar eru sýnilega mikil, vídeóvæðing heimilanna en hinn vanbúni skóli, villubyggingarnar en hrörnun opinberra bygginga. Þannig mætti lengi tala.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð lengri. Ég vil aðeins draga saman í einni setningu niðurstöðuna. Hún er þessi: Hið góða sem við viljum gera ef við viljum bæta kjör fólks í opinberri þjónustu og bæta þjónustu við fólk, þá er hin hliðin á því máli sú að við tökum ríkisbúskapinn í heild til endurskoðunar, fyrst tekjuöflunina, skattkerfið og því næst útgjaldahliðina og skilgreinum hlutverk ríkisins upp á nýtt.