04.11.1986
Sameinað þing: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

63. mál, bann við geimvopnum

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég þarf ekki að taka það fram að ég styð þessa till., ég var á henni í fyrra og studdi hana þá, en ég var satt að segja svo gáttuð á þessu vappi hv. 5. þm. Reykv. í kringum þann heita graut sem stjörnustríðsáætlunin er að ég gat ekki orða bundist og mátti til með að koma hér upp í stólinn. Mér er fyrirmunað að skilja það hvernig hv. þm. getur hafa haft mikilvægari hnöppum að hneppa en t.d. þeim að taka afstöðu til þess hvort hann er með eða á móti stjörnustríðsáætlun, áætlun sem þar að auki hefur verið flutt inn fyrir íslenskan þröskuld svo um munaði fyrir stuttu síðan, þannig að allur heimurinn beindi augum sínum að því fótakefli sem þessi stjörnustríðsáætlun er fyrir því að samið sé um afvopnun í heiminum í dag.

Fyrsta spurning mín er: Hvenær ætlar hann að taka afstöðu? Hann segist ekki geta tekið afstöðu til rannsókna sem hann veit ekki hvað kemur út úr. Það voru framkvæmdar rannsóknir í Auschwitz og ýmsum öðrum fangabúðum í síðari styrjöldinni. Rannsóknir þarf yfirleitt að fjármagna, þær verða ekki til af sjálfu sér. Rannsóknir í sambandi við stjörnustríðsáætlun hafa þegar verið fjármagnaðar af bandarískum fjárlögum og það liggja fyrir beiðnir um meiri peninga til þess að fjármagna slíkar rannsóknir. Og mér fannst fáheyrt að hv. þm. skyldi í raun ekki hafa íhugað ferli vígbúnaðarkapphlaupsins betur, að hann skyldi í raun halda að það væri einungis um pólitískan vilja að ræða. En þá er mér nær að spyrja: pólitískan vilja hverra? Heldur þm. í raun og veru að það séu pólitískir aðilar sem taka ákvarðanir eingöngu, afdrifaríkar ákvarðanir um vígbúnaðarferlið í dag? Gleymir þm. því sem kallað hefur verið á erlendu máli „military industrial complex“? Gleymir hann þeim gífurlegu fjármunum sem fara til vopnasmíðar og hverjir standa að baki því?

Það má vel vera að ætlunin sé endanlega að sprengja hagkerfi Sovétmanna og til þess sé stjörnustríðsáætlunin notuð sem einhvers konar skiptimynt. En eðli þessarar áætlunar, hvort sem hún er flokkuð undir vísindadraum eða ekki, er slíkt að það mun gjörbreyta öllum möguleikum á eftirliti með vígbúnaði. Það verður ekki bara stigmögnun, það verður eðlisbreyting á því vígbúnaðarkapphlaupi sem nú þegar er háð.

Ég mátti til með að koma hér upp til þess að vekja athygli á því, mér fannst hv. þm. vappa í kringum þetta eins og heitan graut og ég skil ekki hvernig hann leyfir sér að taka ekki afstöðu til svo mikilvægs máls. Ef hann getur ekki gert það núna, sumir þurfa lengri umhugsunarfrest en aðrir, kannske vegna þess að þeir vilja vera víðsýnir, vonandi er það það, en hvenær ætlar þm. að taka afstöðu til þessa máls? Þetta er mjög mikilvægt fyrir kjósendur þingmannsins að vita.