05.11.1986
Efri deild: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

22. mál, framhaldsskólar

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Aðeins í byrjun örfá orð vegna þess sem hv. síðasti ræðumaður drap á viðvíkjandi Háskóla Íslands.

Það er mikið rétt að að honum er ekki búið eins og skyldi og svo hefur lengi verið. Það er ekki afsökun fyrir því að menn draga við sig fjárveitingar til hans nú, fjarri fer því. En ég bið menn samt að hafa í huga að svo verður að telja að Háskólinn sé í sókn í sínum málum, líka vegna þess að ungir stórhuga menn hafa tekið þar við stjórn. Enda þótt ég sé ekki með því að draga úr sókn minni til að mynda í frekari fjárveitingum til Háskólans, nýframkvæmda og viðhalds, hlýt ég að tíunda það sem til hans hefur verið vel gert að undanförnu. Ég minni á kaup ríkissjóðs á nýrra húsi gamla Verslunarskólans við Grundarstíg. 26 millj. kr. var varið í því skyni og stórbætir úr þörf Háskólans vegna hinna stóru deilda, lögfræðideildar og viðskiptadeildar, vegna fyrirlestra og húsrými verður þar fyrir fleiri og aðra starfsemi Háskólans. Ég verð að minna á kaup á húsnæði inn við Ármúla vegna veirurannsókna. Ég verð að minna á það að Rannsóknaráð ríkisins undir minni stjórn og Reykjavíkurborg gáfu Háskólanum á 75 ára afmælinu nýja aðstöðu fyrir rannsóknardeildir í sama skipulagi og fyrir verður komið rannsóknarstofnunum atvinnuveganna inni í Keldnaholti. Það er ekki óviðkomandi Háskólanum að hafa ráðið fram úr hinum mikla vanda sem Þjóðarbókhlaðan og bygging hennar var í vegna þess að þar verður helli Háskólans. Þess vil ég geta af því að þetta vill oft gleymast í umræðunni.

Því miður hafði ég hugsað mér að hlýða á framsögu fyrir því frv. sem hér er til umræðu, en ég kom því ekki við og fékk skilaboð, sem ég þakka fyrir, frá hæstv. forseta rétt í þessu að mál þetta væri til umræðu. Ekki er það vegna þess að ég sé við því búinn að fara einhverjum orðum um einstakar greinar þess eða þær tillögur sem þar er að finna í málinu heldur aðeins til þess að upplýsa að ég hef gert gangskör að því að koma skipan á þessi mál því að það er ekki vansalaust hvernig það hefur farið úr hendi. Sér í lagi verð ég þar að vísa til hins háa Alþingis af því sem fyrirrennarar mínir, a.m.k. tveir, hafa lagt fram frv. á hinu háa Alþingi um lagaramma vegna framhaldsskólanna. Fyrst, að því mig minnir, Vilhjálmur Hjálmarsson árið 1977, ef ég man þetta ártal rétt, og það má mikið vera ef Ingvar Gíslason hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur ekki lagt fram slíkt frv. á árinu 1982 líklega. (RA: Það var tvískipt.) Já, jæja, alveg rétt. Það er mikið rétt.

Þegar ég setti á stofn nefnd til að semja drög að lögum að frv. til l. um framhaldsskóla gaf ég henni lítið vegarnesti fyrir utan það að vísa til þeirra ráðagerða, skýrslna, rannsókna og niðurstöðu sem nefndin hefur komist að og finna mátti í frv. þeim til l. sem fyrir höfðu legið áður. En að einu leyti setti ég fram ósk um sérstaka athugun. Það var vegna kostnaðarskiptingar og stjórnar á slíkum skólum og fyrirtækjum. Ég spurði: Er hugsanlegt að færa framhaldsskólann með öllu til ríkisins, til hins opinbera, af því að ég hef mjög mikla trú á að þeim mun skýrari sem skipti eru milli ríkis og sveitarfélaga, þeim mun líklegra er að betur fari úr hendi stjórn og rekstur skólanna okkar. Í sama máta varpaði ég því fram við endurskoðunarnefnd grunnskólalaganna, sem einnig er að störfum, hvort hugsanlegt væri að grunnskólinn hyrfi fil umráða og forsjónar sveitarfélaganna með öllu.

Hvorug þessara nefnda hefur skilað niðurstöðum sem líklegt er. Þó hygg ég að ekki líði á löngu þar til framhaldsskólanefndin er tilbúin með sínar niðurstöður. En af því er að segja að formaður hennar, Birgir Ísl. Gunnarsson hv. 4. þm. Reykv., hefur greint mér svo frá að nefndin sú treysti sér ekki til að stíga það skref til fulls að framhaldsskólinn verði með öllu á vegum hins opinbera. Ég bíð og sé til hverju fram vindur og lít á þau rök sem að því hníga. Í sama máta get ég skýrt frá því að Páll Dagbjartsson, sem er formaður í endurskoðunarnefnd grunnskólalaganna, tjáir mér, sem mér að vísu kom ekki mjög í opna skjöldu, að þeir í þeirri nefnd telji með öllu útilokað að gera tillögur um að grunnskólinn og rekstur hans, stofnkostnaður og rekstur, hverfi til sveitarfélaganna.

Það er auðvitað á engum leiðarenda þetta mál vegna þess að hinn aðalþáttur málsins, sá með hvaða hætti sveitarfélög gætu undir slíku risið, er óræddur enn. Samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga tekur væntanlega fljótlega til meðferðar umræðu um málið. En það sjá menn í hendi sér að ríkið þarf að sjá af stórfelldum tekjustofnum til handa sveitarfélögum ef eitthvað slíkt á að verða á færum þeirra, milljarða reksturskostnaður og stofnkostnaður sem grunnskólarnir eru í dag í ríkisbúskap okkar. En ég hef marglýst því yfir að ég hef áhuga á að þeir sem næstir eru vettvangi ráði sem mestu og þeir sem ráði mestu hafi í leiðinni fjárhagslega ábyrgð á málum, beri fjárhagslega ábyrgð. Á þetta hefur skort og þarf ég ekki sérstaklega að nefna enn á ný hið vel þekkta dæmi um skólaaksturinn til að mynda eða gæslu í skólum og rekstur mötuneyta. En úttekt á þeim málum get ég væntanlega lagt fyrir hið háa Alþingi um næstu mánaðamót eða alla vega vel fyrir aðra umræðu fjárlaga.

Ég ætla ekki að dæma þetta frv. Það er góðra gjalda vert að menn hyggi að þessu og ekki síður fyrir fyrrv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. þar sem þessi mál hlutu mjög að vera á hans borðum í báðum þeim embættum og ekkert síður á borði fjmrh. sem af sjálfu leiðir. En ég sé að hér er gerð tillaga um fræðsluumdæmin níu. Ég vil ekkert segja um þá tillögugerð nema að ef ég fæ einhverju ráðið til frambúðar í embætti menntmrh. er alveg áreiðanlegt að ég mun ekki til þess gildra að reisa níu menntmrn. út um öll foldar ból. Ég hef aðrar hugmyndir um fræðslustjóraembættin og umdæmin. Það er ekki fyrir það að synja og ég get játað það hreinskilnislega að mér hefur þótt fræðslustjórarnir taka sér um of vald sem ég tel að þeir eigi ekki með að fara, jafnvel í fjármálum og þá sérstaklega í þeim.

Ég hef áhuga á því að fræðslustjórarnir og umdæmin hafi með höndum alveg sérstaklega að líta eftir gæðum náms og kennslu og að þeir hyggi vandlega að því því að ekki mun af veita. Þótt ég sé ekki miðstýringarmaður heldur valddreifingar hlýtur mér að vaxa í augum að fræðslustjóraembættin hafa nú aðeins fleiri stöðugildi en menntmrn., langstærsta ráðuneytið, mannflesta ráðuneytið í ríkisbúskapnum okkar. Mér hlýtur að vaxa það í augum að það nálgast 70 stöðugildi hjá þeim og aðeins tíu ár hefur þetta tekið. Ég sé ekki betur en að hér muni Parkinson gamli hafa tekið til sinna ráða með auðþekktum afleiðingum. Með þessu er ég ekki að segja að fræðslustjórar og þeirra embætti hafi ekki unnið gagnsamleg störf og með þessu móti dreifðum við vissulega valdi, en ég vil ekki að það komi fyrst og fremst niður á því að auka og hafa eftirlit með gæðum kennslu og fræðslu og námi því að það situr á hakanum. En ég sé ekki að það sé rétt valddreifing að margir hafi fjárhagslega ábyrgð, í þessu falli að starfsmenn menntmrn. út um land taki til sín, að ég ekki tali um umfram það sem til er ætlast, fjármálavald. Það kann ekki góðri lukku að stýra og fyrir það mun ég reyna að girða og enda með tillögum um lagabreytingar ef þurfa þykir og þá í sambandi við endurskoðun grunnskólalaganna. Ég tek það fram að ég geri mér engar háar hugmyndir um að svo viðamiklir málaflokkar nái slíkum framgangi á kosningaþingi að að lögum verði. Allra síst geri ég mér neinar vonir um það að breytingar á grunnskólalögum, eins og menn muna með hvaða þrautum þau voru sett og miklum og langæjum undirbúningi, geri mér engar vonir um það að breytingar á þeim sem neinu nemi nái fram að ganga á kosningaþingi eins og þessu sem auk þess sem mér skilst á stöku manni að muni nú ekki standa mjög lengi en eftir er reyndar að taka ákvörðun um. En það er ekki mál fyrir mig að þæfa og ég kippi mér lítið upp við það þótt menn geri sér það að þrætuepli. En ég mun áreiðanlega beita mér fyrir því að það sé von um skaplegt veður þegar við förum að kjósa um Austurland. Og þó ég sé að vísu að verða allhagvanur hér í útnesjanáranum kannast ég ekkert við það að hann geti ekki hreytt úr lofti þó að apríl sé kominn. En það er annað mál. Ég er kannske veðurgleggri að þessu leyti en ýmsir félagar mínir.

Ég geri mér sem sagt ekki vonir um það né heldur er ég viss um að það séu skynsamleg áform að ætla sér að hraða mjög málatilbúnaði vegna grunnskólalagabreytinganna sérstaklega. Ég hins vegar hlýt að leggja allmikla áherslu á framgang framhaldsskólalaganna því okkur er hin mesta nauðsyn á að að minnsta kosti rammi um þá starfsemi komist í lög.

Ég bæti því enn við að minn áhugi beinist ekki sérstaklega að því að sá lagarammi verði mjög þröngur af því sem ég vil vissulega að skólar fái að ráða aðeins meiru en raun ber vitni um í dag, til að mynda skólastjórar. Hann hefur lent í útideyfu töluverðri, skólareksturinn okkar, og ef menn dreifa valdinu með þeim hætti að enginn þykist geta og eiga að ráða kann það ekki góðri lukku að stýra. Ég efast um að nýjungar í skóla okkar nái auðveldlega fram að ganga ef til að mynda þeir sem stýra skólanum sjálfum hafa ekki nægjanlegt vald til þess að taka upp á nýbreytni og reyna fyrir sér en allt er ekki skrúfað niður eftir miðstýrðum reglum frá menntmrn.

Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að bæta fleiru við þessi orð nú. Allt sem menn nenna saman að setja til framgangs slíku máli eins og þessu er af hinu góða og ég veit að menntmn. hv. mun taka þetta til meðferðar og leita umsagnar. Ef dregst eitthvað úr hömlu að nefndin, sem hefur með höndum samningu frv. til laga um framhaldsskóla, skili áliti sýnist mér eðlilegt að hún til að mynda fengi þetta til umsagnar og benti þá á í hverju aðallega það stangast á við það sem hún ráðgerir, sem mér sýnist í fljótu bragði að sé í veigamiklum atriðum, eftir því sem ég hef spurt um starf þessarar nefndar.