15.10.1986
Neðri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

18. mál, kosningar til Alþingis

Páll Pétursson:

Herra forseti. Vegna orða hv. 5. þm. Vestf. Karvels Pálmasonar áðan, þar sem hann hafði áhyggjur af því að það yrði ekki hægt að kjósa, get ég huggað hann með því, ef hann er einhvers staðar nærstaddur, að það verður kosið og hann getur verið alveg rólegur með það. Fyrst þurfum við bara að samþykkja þetta frv., helst endurbætt. En í öllu falli er hægt að kjósa eftir því þegar við erum búnir að lögfesta það. Ef við hefðum þurft að kjósa í sumar hefði verið mögulegt að setja brbl. í samræmi við efni þessa frv. þannig að við hefðum kosningalög sem hald væri í.

Það hefur komið fram í þessum umræðum að tveir mikilhæfir stjórnmálaleiðtogar eru að flytja sig úr dreifbýliskjördæmum á Faxaflóasvæðið. Það er alls ekki það að ég vilji hrekja íhaldið úr Norðurlandi vestra. Mér hefur stundum þótt nóg um uppgang þess að vísu og gæti vel hugsað mér að framsóknarmenn þar væru fleiri og sjálfstæðismenn færri. Hins vegar vil ég láta koma fram að ég hef alls ekki eða við framsóknarmenn hrakið Eyjólf Konráð burtu frá okkur úr Norðurlandskjördæmi vestra. Hann beinlínis strauk úr kjördæminu. Og hann er kominn á annan vettvang. (SvG: En Steingrímur? Strauk hann?) Nei, hann fékk köllun.

Nefndin um jafnréttið hefur starfað vel og skilað áliti. Þingflokkur og framkvæmdastjórn Framsfl. hafa málið til sérstakrar skoðunar og ég vona að við komum til með að taka afstöðu til þess innan skamms hvernig við bregðumst við. Ég hafði enga oftrú á að þessi nefnd næði verulegum árangri því að verkefni hennar var svo afskaplega örðugt og mér fannst að formennirnir settu þessa nefnd upp eða gæfu fyrirheit um hana til að létta á sér og gera nokkra yfirbót. En eftir að hafa séð það sem frá nefndinni hefur komið viðurkenni ég að það er margt skynsamlegt í þessu áliti og það er full ástæða til að gaumgæfa það með hinni mestu alvöru.

Varðandi það sem hv. 3. þm. Reykn. Kjartan Jóhannsson sagði áðan um að niðurstaða yrði að fást á næstu mánuðum í þessu kosningalagamáli er ég honum fyllilega sammála og ég fagna þeirri yfirlýsingu, sem hann gaf og ég átti reyndar von á frá honum, að Alþfl. mundi ganga að þessu máli með opnum huga og væri fús að standa að breytingum á kosningalögum á víðari grundvelli en lagt er til í þessu frv.