11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

59. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Miðað við þau svör sem ráðherra hefur gefið tel ég rétt, með leyfi forseta, að vitna í ummæli hæstv. félmrh. á Alþingi 22. apríl 1986 þegar frv. um húsnæðissparnaðarreikninga var til umræðu, en þá sagði hæstv. ráðh.:

„Ég efast ekkert um að fjmrn. og félmrn. eða lögfræðingar þessara ráðuneyta muni koma sér saman um annaðhvort túlkun eða breytingu á þessum lögum ef með þarf og þess vegna styð ég það að þessu sé vísað til ríkisstjórnarinnar.“

Hæstv. ráðh. studdi sem sagt að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar en studdi ekki þá tillögu að lagabreytingu sem fram kom hjá félmrn. Hann treysti sem sagt á að sjálfstæðismenn mundu fallast á þá túlkun sem hann hefur lagt áherslu á í þessu máli. Ég tel að það sé alveg ljóst, hæstv. ráðh., að það er mjög varlegt að treysta sjálfstæðismönnum í þessu efni. Hæstv. ráðh. hefur áður brennt sig á því og þá er ég að vitna til þess að félmrh. hefur ekki viljað styðja það frv., sem stjórnarandstaðan hefur a.m.k. tvívegis flutt hér á Alþingi, sem tryggja átti lagalega stöðu Búseta í félagslega íbúðakerfinu. Hæstv. ráðh. virðist ekki enn hafa náð samkomulagi við sjálfstæðismenn í því efni og ekki heldur virðist honum takast að ná samstöðu við Sjálfstfl. um túlkun á þessum húsnæðissparnaðarlögum.

Félmrh. hefur aftur og aftur hér a Alþingi látið sjálfstæðismenn beygja sig í þessu efni og er það í raun furðulegt. Í nál. kom fram, og það var rökstuðningurinn fyrir því að málinu var vísað til ríkisstjórnarinnar, að þetta mál mundi fá undirbúning í sumar og þá mundi liggja fyrir túlkun félmrn. og fjmrn. Ég fæ ekki skilið af orðum ráðherra að það sé að vænta neinnar sameiginlegrar niðurstöðu í þessu máli. Því leyfi ég mér að endurflytja frv. um húsnæðissparnaðarreikninga hér á Alþingi þar sem ég mun auðvitað taka tillit til þeirra sjónarmiða sem fram komu hjá félmrn. í þessu efni á síðasta þingi. Ég vænti þess að fá stuðning hæstv. ráðh. við þessu frv. og vil í raun spyrja hann að því hér hvort ég megi ekki vænta þess að ég hafi stuðning hans nú í þessu máli þegar fyrir liggur að hann mun ekki ná samstöðu við sjálfstæðismenn í þessu máli.