11.11.1986
Sameinað þing: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

73. mál, tæknimat

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. til þál. um tæknimat. Ég mun ekki fremur en um hina fyrri tillögu hafa langt mál. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Jón Kristjánsson og Guðmundur Einarsson. Þessi till. hefur komið fyrir augu hv. þm. fyrr og er af þeim ástæðum ekki tilhlýðilegt að eyða löngu máli í umfjöllun um hana, en tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta kanna með hvaða hætti áhrif nútímatækni í atvinnu- og þjóðlífi verði metin á skipulegan hátt samkvæmt þeirri fyrirmynd sem felst í því sem erlendis hefur verið nefnt tæknimat (Technology Assessment).

Hagnýta skal erlenda þekkingu á þessu sviði eftir því sem kostur er. Séríslenskar aðstæður verði þar að auki kannaðar og metnar á svipaðan hátt eftir því sem efni standa til hverju sinni.“

Ég hef ekki hugsað mér, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð og vísa til þess sem ég sagði áðan og kannske ekki síður hins að það er langt liðið á dag og fáir í þingsalnum. Ég legg til, herra forseti, að þessari till. verði vísað til atvmn. að lokinni þessari umræðu.