12.11.1986
Neðri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

143. mál, aðför

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Í þessu frv. eru lagðar til þrjár breytingar á aðfararlögum til þess að tryggja rétt þeirra er fyrir aðför verða.

Í fyrsta lagi er lagt til að aukinn sé réttur gerðarþola til þess að halda eftir persónulegum hlutum við aðför og er lagt til að lögunum verði breytt í svipað horf og í Danmörku en felldar niður viðmiðanir í krónum. Telja verður að fógeti geti metið hvað eðlilegt sé að telja til heimilishalds hverju sinni. Í lögunum eins og þau eru nú eru tölur sem fyrir löngu eru úr sér gengnar og er það ákvæði nánast þýðingarlaust eins og það er í gildandi lögum.

Í öðru lagi er lagt til að fógeti geti framkvæmt aðför án þess að dómhafi sé viðstaddur ef gerðarþoli býr utan þeirra staða sem lögmenn starfa á og ferðakostnaður yrði mjög mikill miðaður við fjárhæð kröfunnar. Eftir núgildandi lögum þarf dómhafi ætíð að hafa mann fyrir sig og hefur það reynst ýmsu fólki, er býr í dreifbýli, kostnaðarsamt að greiða ferðakostnað lögmanna, t.d. flugfar og gistingu, en krafan oft innan við 10 þús. kr. Fógetar geta framkvæmt lögtök án þess að eigendur lögtakskröfu séu viðstaddir og er hér lagt til að fógetar geti á sama hátt gert fjárnám.

Í þriðja lagi er lagt til að fógeti ákveði aðfarargerðina, hvað gerðarþoli eigi að greiða gerðarbeiðanda í kostnað vegna gerðarinnar.

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, en legg til að því verði vísað til 2. umr. og allshn.