13.11.1986
Sameinað þing: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

144. mál, viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það ber síst að kvarta út af því, úr því að þessi langþráða skýrsla er nú öll komin í réttar hendur, í hendur alþm., að hún skuli tekin til umræðu þegar í stað. Málið hefur lengi verið til meðferðar á Alþingi og satt að segja sýnist mér við lestur þessarar skýrslu að þær upplýsingar sem þar birtast komi ekkert á óvart.

Ég rifja upp, herra forseti, að á sínum tíma, snemma s.l. haust, lögðum við fram, ýmsir þm. Alþfl., Bandalags jafnaðarmanna og Kvennalista, beiðni um skýrslu þar sem við settum fram 13 spurningar sem fyrst og fremst vörðuðu stöðu Útvegsbanka Íslands í ljósi upplýsinga, sem þá höfðu nýlega birst í fjölmiðlum og þó einkum Helgarpóstinum, um viðskipti bankans og fyrirtækisins Hafskips hf. Þessar spurningar snerta, sýnist mér nú við lestur skýrslunnar, allan kjarna málsins.

Ég vek athygli á því, herra forseti, að svar við þessari beiðni um skýrslu barst undir þinglok á 108. löggjafarþingi. Mér hefur satt að segja ekki gefist tóm til að fara rækilega ofan í saumana í samanburði á þeim svörum sem þá bárust við þessari skýrslu og þeirri sem við nú höfum hér til umræðu. Þó er ljóst að þeim ber í veigamiklum atriðum ekki saman. M.ö.o.: miðað við þær upplýsingar, miðað við viðbrögð ráðamanna, hæstv. ráðherra, bankaráðsmanna og annarra ábyrgðarmanna hins pólitíska bankakerfis, og þær upplýsingar sem þeir gáfu þá, þá er nú komið á daginn að það er margt með öðrum hætti en fyrstu svör þeirra gáfu til kynna.

Mér sýnist, herra forseti, að kjarni þessa máls birtist í einni málsgr. á bls. 67 í þessari skýrslu þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þegar litið er til þess að Útvegsbankinn varð fyrir það miklu tapi við gjaldþrot Hafskips að allt eigið fé bankans glataðist er eðlilegt að viðbrögð „kerfisins“ séu skoðuð nánar. Þar sem stjórnendur bankans sitja áfram þrátt fyrir áfall bankans, þá er eðlilegt að spurt sé hvort ríkisbankakerfið sé þannig upp byggt að enginn beri ábyrgð á því sem gerst hefur.“

Þetta sýnist mér vera kjarni málsins. Það er sama hvernig við orðum þessar spurningar, hverjir bera ábyrgð á óförunum, hverjir bera ábyrgð á því að rúmlega milljarður af fé skattgreiðenda að lokum er fokinn út í veður og vind. Er það Alþingi sem sætir nokkurri gagnrýni í þessari skýrslu? Eru það hin pólitískt kjörnu bankaráð? Eru það hinir pólitískt ráðnu bankastjórar? Er það bankaeftirlitið? Er það yfirstjórn Seðlabankans sem hefur húsbóndavald yfir bankaeftirliti? Er það viðskrh.? Er það ríkisstjórn? Eða er það hið sameinaða pólitíska kerfi sem haldið hefur verndarhendi sinni yfir þeirri skipan bankamála sem er dálítið einkennandi fyrir stjórn efnahagsmála í þessu landi og óvenjuleg ef við lítum til samanburðar til grannþjóða okkar annarra á Vesturlöndum? Hver ber ábyrgð?

Það er sama hvernig við veltum þessum spurningum fyrir okkur. Mér sýnist kjarni málsins í þessari skýrslu vera sá að höfundar skýrslunnar spyrja að lokinni rannsókn sinni hvort ríkisbankakerfið sé þannig uppbyggt að enginn beri ábyrgð á því sem gerst hefur. Og vantar þó ekki að við getum talið upp langan lista af mönnum sem við héldum að bæru ábyrgð.

Það vantar ekki að hér er staðfest alvarleg gagnrýni á þá aðila sem ég var að telja upp. Að vísu kemur fram að viðskiptaráðherrar þeir sem gegnt hafa embætti á undanförnum árum eru ekki taldir hafa rækt sín störf með þeim hætti að þeir verði beinlínis dregnir til ábyrgðar. Það eru rifjuð upp afskipti þeirra af harmkvælum Útvegsbankans fyrr, sem eru satt að segja orðin ærin, framlög af almannafé upp á rúmlega 500 millj. eða 535 millj. á tólf árum í ítrekuðum björgunarleiðöngrum. En um bankaráðin er sagt í fyrsta lagi að þau hafi látið undir höfuð leggjast að marka almenna útlánastefnu fyrir bankann, m.a. leiði af þeirri gagnrýni að það þurfi að kveða á um hámark útlána og ábyrgðar til einstakra viðskiptamanna með hliðsjón af stöðu bankans á hverjum tíma, og í annan stað að þau hafi ekki fylgst með stærstu lánþegum bankans, skuldbindingum þeirra og tryggingum. Reyndar er það staðfest að bankaráð þessa tiltekna banka tók þetta mál ekki á dagskrá, þrátt fyrir að það var á almannavitorði í viðskiptalífinu, þrátt fyrir að það var komið til umræðu í fjölmiðlum, fyrr en eftir dúk og disk þegar skaðinn var skeður.

Gagnrýni er beint að Alþingi, ekki hvað síst fyrir það að um leið og Alþingi lýsti áhyggjum sínum af þróun þessa ríkisbankakerfis með því að samþykkja ný lög um viðskiptabanka, sem m.a. gáfu tilefni til þess að kjósa bankaráð upp á nýtt, staðfesti Alþingi, eða öllu heldur þeir þingflokkar flestir hverjir sem hér eiga aðild og stilla mönnum upp á framboðslista til bankaráða, vilja sinn til að taka á af ábyrgð með formlegum hætti, þótt ekki sé í reynd, á óförunum með því að endurkjósa þá menn sem höfðu verið kjörnir til setu í bankaráðum þrátt fyrir að þessi sömu bankaráð eru hér harðlega gagnrýnd.

Aðeins ein undantekning var á því. Þingflokkur Alþfl. bauð ekki fram til endurkjörs þann fulltrúa sem hafði setið fyrir hönd þess þingflokks í bankaráði og valdi til þess annan mann sem hafði verulega starfsreynslu sem bankamaður, hafði m.a. gegnt starfi sem útibússtjóri við Landsbankaútibú á ísafirði og starfað ekki aðeins við Landsbankann heldur einnig Framkvæmdabanka Íslands, var m.ö.o. bankamaður. Við áréttuðum þannig að við teldum í fyrsta lagi ekki rétt að endurkjósa þann fulltrúa sem setið hafði í bankaráðinu sem hér er gagnrýnt fyrir að hafa ekkert aðhafst og vildum leggja áherslu á vilja okkar til breytinga með því að velja þar sem fulltrúa okkar mann sem teldist vera fagmaður í bankamálum.

Það sem kannske einna helst vekur athygli hér og menn staldra við er hversu harkalega hinir pólitískt ráðnu bankastjórar eru gagnrýndir. Því er slegið föstu að það sé að dómi nefndarinnar engum vafa undirorpið að bankastjórar Útvegsbankans beri meginábyrgð á þeim áföllum sem bankinn varð fyrir við gjaldþrot Hafskips, enda þótt bankastjórarnir hafi að vísu einhverjar málsbætur. Þrátt fyrir þær málsbætur segir hér að þegar litið er til Útvegsbankans og viðskipta hans við Hafskip sé greinilegt að mistökin séu hins vegar of mörg, of mikil og of afdrifarík til þess að unnt verði að afgreiða þau slétt og fellt með vísan til annarra málsbóta eins og t.d. verðfalls á skipum á alþjóðlegum markaði eða öðrum slíkum skýringum. Helstu mistök bankastjóranna í viðskiptum við félagið eru eftirfarandi að mati skýrsluhöfunda: að hafa ekki gætt þess að hafa nægar tryggingar fyrir skuldbindingum Hafskips, að fylgjast ekki nægilega vel með rekstri og fjárhag Hafskips, einkum eftir 1981, að hafa ekki gert ráðstafanir til þess að knýja fram gjaldþrot eða sölu á eignum fyrirtækisins löngu fyrr en raun varð á, að gjalda ekki varhug við Atlantshafssiglingunum sem hófust haustið 1984. Þetta er satt að segja miklu alvarlegri gagnrýni en nokkur alþm. leyfði sér að bera fram í þeim umræðum sem um þetta mál fóru fram hér á hinu háa Alþingi á liðnum vetri. Og þessi gagnrýni er rökstudd allítarlega, bæði að því er varðar vanrækslu við að ganga frá öruggum tryggingum, vanrækslu að því er varðaði eftirlit með upplýsingum frá fyrirtækinu og andvaraleysi gagnvart síendurteknum beiðnum fyrirtækisins um skuldbreytingar og ný langtímalán með vísan til fyrri reynslu af viðskiptum fyrirtækisins og bankans og ekki hvað síst með ítarlegri umfjöllun um hvílíkt glapræði það hafi verið þegar bjarghringurinn fyrir fyrirtækið átti að vera fólginn í nýrri útrás í Atlantshafssiglingum einmitt á þeim tíma þegar samdráttartilhneigingar í þeim voru hvað mestar og samkeppni hörðust.

Bankaeftirlitið fær líka þrátt fyrir allt sinn skerf af gagnrýni þó að þar skiptist á annars vegar að því er hælt fyrir viðvaranir sínar frá fyrri tíð, en engu að síður komist að þeirri niðurstöðu að það sé gagnrýnisvert að bankaeftirlitið hafði aldrei á tímabilinu frá marsmánuði 1980 og þar til í júlímánuði 1985 eða í meira en fimm ár skoðað skuldastöðu Hafskips við Útvegsbankann. Þrátt fyrir að því er hælt fyrir skarpskyggni og vandvirkni í fyrri athugunum eru þetta líka alvarlegar ásakanir. Og partur af þessari gagnrýni hlýtur líka að lenda á seðlabankastjórn sem hefur húsbóndavald yfir því bankaeftirliti sem ekki hefur fengist enn til að gefa sjálfstæða stöðu.

Að því er varðar þá gagnrýni sem fram kom um hagsmunaárekstur og varðaði stöðu hæstv. iðnrh. nú þegar hann gegndi á tveggja og hálfs árs tímabili hvoru tveggja embættinu, formennsku í bankaráðinu og stjórnarformennsku í fyrirtækinu, þá er sagt í þessari skýrslu að sú gagnrýni sé réttmæt. Þar segir:

„Almennt eiga ráðamenn að forðast að komast í þá aðstöðu að vera á sama tíma í fyrirsvari fyrir tvo aðila, sem geta lent í hagsmunaárekstri, en það getur augsýnilega hent þegar um lánveitanda og lánþega er að ræða. Eigi fer vel á því að fulltrúar skuldaranna stjórni bankastofnun. Á þessum forsendum liggur beint við að gagnrýna Albert Guðmundsson fyrir það að gefa kost á sér til setu í bankaráði Útvegsbankans án þess að víkja úr stjórn Hafskips. En sökin er ekki fyrst og fremst hans heldur Alþingis, sem kaus hann í bankaráðið vitandi um stöðu hans hjá Hafskipi, en Albert Guðmundsson og aðrir bankaráðsmenn urðu sjálfkjörnir í ráðið. Síðan hnykkti þáv. viðskrh.“ — sem mig minnir að hafi verið núverandi seðlabankastjóri Tómas Árnason frá Hánefsstöðum — „á þessari andvaralausu kosningu með því að skipa Albert Guðmundsson formann bankaráðsins.“

Hæstv. iðnrh. hefur svarað þessari gagnrýni í þessum umræðum með vísan til þess að hann hafi verið þrábeðinn af þáverandi stjórnarflokkum, þ.e. hæstv. þáv. forsrh. og samstarfsflokkum hans, Framsfl. og Alþb., að taka að sér þessa stöðu. Vera má að hann hafi ekki verið kosinn til þess sem fulltrúi Sjálfstfl. þó að það hafi legið fyrir að Sjálfstfl. hafi gefið samþykki sitt. Þetta er út af fyrir sig ekki kjarni málsins heldur er hann að mínu mati sá sem hér stendur, að þetta sé gagnrýnisvert, þarna hafi verið boðið upp á hagsmunaárekstra, þeir séu óeðlilegir og allir aðilar málsins, sá sem tók kjöri og þeir sem buðu það, hefðu átt að vita betur og breyta á annan veg.

Ég minnist þess að í málsvörn hæstv. ráðh. á sínum tíma að því er varðaði bankann hafi hann fullyrt að hann hafi aldrei haft í starfi sínu sem stjórnarformaður bankaráðsins nein afskipti af lánamálum í Hafskip og hann hefur einatt vísað til þess að staða fyrirtækisins hafi á þeim tíma alls ekki verið gagnrýni verð, hún hafi verið með blóma. Þess vegna finnst mér athyglisvert það sem segir í skýrslunni á bls. 96, með leyfi forseta:

„Eigi verður séð að Albert Guðmundsson hafi á því skeiði, er hann var bæði bankaráðsformaður og stjórnarformaður, fylgst neitt að ráði með vinnubrögðum framkvæmdastjóra Hafskips og annarra ráðamanna varðandi reikningsskil og verðmat skipa. Hann telur þetta tímabil hafa verið blómaskeið Hafskips, en það er mikill misskilningur eins og fram kemur í þessari skýrslu.“

Herra forseti. Í raun og veru verður að játast að það er umhugsunarefni, svo að ekki sé meira sagt, að það skuli hafa verið fulltrúi fjórða valdsins, fulltrúi fjölmiðlanna, og þá fyrst og fremst hið umdeilda blað Helgarpósturinn, sem tók þessi stóru mál til gagnrýninnar umfjöllunar fyrst en ekki þessar viðamiklu stofnanir, sem ríkið þrátt fyrir allt hefur í sinni þjónustu, og er ég þá að vísa til þessa mikla pýramída frá bankaráðunum sem hafa vissulega skyldum að gegna þótt hér sé því lýst nánar hversu öndvert er fyrir komið samskiptareglum annars vegar pólitískt kjörinna bankaráðsmanna og hins vegar þingflokkanna þar sem er um að ræða lagafyrirmæli um þagnarskyldu sem m.a. geta útilokað að þingflokkarnir geti þá í reynd beitt einhverju eftirliti sem hlýtur að byggjast á því að þeir hafi greiðan aðgang að upplýsingum.

M.ö.o.: það voru ekki bankaráðin, sem ræddu ekki einu sinni málið fyrr en allt var komið í óefni að sögn þessarar skýrslu, jafnvel vikum og mánuðum eftir að umrætt blað, Helgarpósturinn, hafði birt upplýsingar sem hlutu að teljast svo alvarlegar að maður skyldi hafa ætlað að bankaráðið brygðist við, vaknaði upp, og það var ekki bankaeftirlitið, sem á fimm ára tímabili gerði enga rannsókn eins og ég vitnaði til áðan, og það voru ekki bankastjórnarmennirnir sem ekki þótti þá ástæða til eftir því sem hér er sagt að leggja staðreyndir á borðið fyrir bankaráðið og vara við ástandi mála í tæka tíð. Nei, það var ekkert af þessum viðamiklu eftirlitsstofnunum hins pólitískt rekna bankakerfis sem brást við í tæka tíð áður en skaðinn var skeður. Það var eitt mjög svo umdeilt vikublað og er ekkert launungarmál að af hálfu varðmannakerfisins hafa þeir kunnað því blaði litlar þakkir fyrir.

Sú umræða öll vekur upp ótal spurningar og getur verið tilefni til langrar rökræðu, en eftir stendur þessi meginstaðreynd: að eftirlitskerfið brást og það var fulltrúi fjórða valdsins, fjölmiðlunarinnar, sem fyrst hreyfði málinu og nú er upplýst að upplýsingarnar, sem þar voru birtar en vefengdar um leið og jafnvel lýstar firrur og óhróður, voru í sumum tilvikum ekki aðeins réttar heldur reyndar ekki eins tæmandi og nú er komið á daginn að þær voru í reynd.

Herra forseti. Í raun og veru er þá eftir ein spurning. Skaðinn er skeður, en spurningin er þessi: Hvað getum við lært af óförunum? Það er ekki lengur aðalatriðið í þessari umræðu að rekja það stig af stigi, enda ljóst að eftirlitskerfið er ónýtt. En hvað getum við lært af þessu? Hvaða hugmyndir eru uppi um að breyta þessu pólitíska ríkisbankakerfi sem upplýst er að enginn ber ábyrgð á, ekki nokkur einasti maður? Það mál verður hér á dagskrá væntanlega innan tíðar vegna þess að það hafa liðið ekki aðeins vikur og mánuðir heldur misseri án þess að tekin væri ákvörðun um hvað ætti að gera varðandi örlög Útvegsbankans sem nú er í gjörgæslu og rekinn á ábyrgð ríkissjóðs og Seðlabanka. Það bendir til þess að þetta sé heldur silalegt kerfi og erfitt að fá skjótar ákvarðanir því öllum ber saman um það og allir hafa talað um það hver á fætur öðrum og hver upp í annan mánuðum og vikum saman að það mál þoli enga bið.

Nú er þrátt fyrir allt búið að leggja fram álitsgerð frá stjórn Seðlabankans um það efni, stilla upp valkostum, og kominn tími til að taka afstöðu í því máli. Ég ætla ekki að fara út í efnislega umræðu um þá skýrslu, enda er hún ekki á dagskrá nú, en ég ætla að lýsa því stuttlega hver eru mín viðbrögð við þessari hrakfallasögu og meginniðurstaða. Hún er þessi: Þetta ábyrgðarlausa pólitíska ríkisbankakerfi getur ekki staðist óbreytt svona lengur. Þetta kerfi gengur ekki og því á að breyta. En það er hægt að hugsa sér að breyta því í áföngum. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að stefna að því að endurskipuleggja bankakerfið hér á Íslandi á þann veg að við komum upp hlutafélagabönkum og ríkið hætti beinum afskiptum af rekstri viðskiptabanka.

Þetta er ekki mjög róttækt sjónarmið því að almennt séð má segja að þetta sé sú skipan bankamála sem viðgengst í flestum vestrænum löndum. Hitt skal svo sagt að vel má vera að meðan við fikrum okkur áfram út úr þessu pólitíska og ábyrgðarlausa miðstýringarkerfi viljum við, a.m.k. á ákveðnu tímaskeiði, hafa hér einn öflugan ríkisbanka til að tryggja á umþóttunarskeiði að samkeppni verði milli tveggja slíkra aðila, en ég er ekki í nokkrum vafa um að núverandi kerfi hefur gengið sér til húðar og við eigum að stefna að því að koma á hlutafjárbönkum þar sem væri um að ræða raunverulega dreifða eignaraðild og þar sem bankastjórnir, þeir sem annast rekstur og bankaþjónustu, séu undir aðhaldi frá raunverulegum hlutafjáreigendum um bæði hagkvæmni í rekstri og arðsemi. Við erum búnir að fá rækilega reynslu af þeim hörmulegu mistökum sem þrifist hafa í núverandi kerfi, ekki bara í útþenslu þessa kerfis, ekki bara í skipulagsleysi þess, ekki bara í skriffinnskunni, útþenslunni, mannahaldinu o.s.frv. heldur ekki hvað síst í þeim hrikalegu mistökum sem þar hafa átt sér stað vegna þess að þessir bankar eru ekki reknir á faglegum grundvelli sem bankastofnanir heldur verða þeir alltaf að lúta pólitísku forræði öðrum þræði og verja fé þvert gegn öllum venjulegum reglum vegna pólitísks þrýstings. Það kerfi getur aldrei endað nema á sama veg, þennan sem við höfum hér fyrir augunum, og er kerfi sem er þrautreynt á ýmsum pörtum jarðarkringlunnar. T.d. gætu Pólverjar sagt okkur hvernig slíkt kerfi endar ef það er látið renna sitt skeið til rökréttrar niðurstöðu.

Í fljótu bragði sýnist mér það koma mjög vel til álita og beri að skoða mjög vandlega þann kost sem nefndur er um sameiningu Útvegsbankans og einkabankanna þó að mér sé kunnugt um að það muni verða erfitt í framkvæmd, ekki hvað síst vegna þess að veikleiki einkabankanna er gífurlegur. Þetta eru ekki öflugir bankar. Þetta er raunverulega lítið meira en sparisjóðir. Þau ákvæði í núverandi viðskiptabankalögum sem kveða t.d. á um hlutfall eigin fjár og fjárfestingar í bæði húseignum og fastabúnaði eru af því tagi að þessir bankar hafa ekkert vaxtarskeið til mikillar fjárfestingar eða útþenslu á næstu árum og spurning er um hvort þeir séu raunverulega nægilega öflugir til að valda sínu hlutverki í slíkri sameiningu.

A.m.k. er eitt ljóst. Það ber ekki að fara úr öskunni í eldinn, það ber ekki að fara úr miðstýrðu og ábyrgðarlausu ríkisbankakerfi yfir í klíkurekstur örfárra fjármagnseigenda sem raunverulega eru líka partur af hinu pólitíska skjólstæðingakerfi. Þessi banki, einkabanki ef af verður, verður að vera með fjöldaaðild og með mjög dreifðri hlutafjáreign þannig að það verði tryggt að hann verði ekki í reynd, þótt undir öðrum formerkjum eða nöfnum sé, undir klíkustjórn pólitískra forréttindaaðila í þessu þjóðfélagi.