13.11.1986
Sameinað þing: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

144. mál, viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Iðnaðarráðherra (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Það er aðeins lítil leiðrétting sem ég vil gera vegna ummæla hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur. Hún vitnaði í dagblöð. Ég held að það sé Þjóðviljinn í dag sem hún vitnaði í. Þar eru höfð eftir ummæli Lárusar Jónssonar bankastjóra Útvegsbankans. Ég hygg ég hafi skrifað það orðrétt, en hún sagði að ekki hefði það komið frá bankastjórum Útvegsbankans að Albert Guðmundsson hefði ekki skipt sér af málefnum Hafskips. Nú vil ég taka fram að ég var hættur störfum hjá Hafskip og ég var hættur störfum hjá Útvegsbanka Íslands þegar fyrrv. hv. þm. Lárus Jónsson, núverandi bankastjóri, hóf störf í bankanum. En í skýrslunni segir á bls. 96, með leyfi hæstv. forseta, og ég les upp þann kafla sem snertir þetta mál:

„Því verður ekki á móti mælt að Albert Guðmundsson komst í alveg sérstaka aðstöðu til áhrifa í samskiptum Útvegsbankans og Hafskips. Þar með er ekki sagt að hann hafi misnotað þessa aðstöðu þótt hann sjálfur telji sig „fyrirgreiðslureddara“ og nefndin dragi þá staðhæfingu út af fyrir sig ekki í efa. Ekkert hefur komið á daginn sem bendir til þess að Albert Guðmundsson hafi beitt áhrifum sínum í Útvegsbankanum til hagsbóta fyrir Hafskip. Bankastjórarnir, sem á umræddu tímabili störfuðu í Útvegsbankanum, hafa allir lýst því yfir að Albert Guðmundsson hafi aldrei farið þess á leit við þá að þeir veittu félaginu fyrirgreiðslu“ og ég vona að hv. þm. geri mun á hvort rætt er við bankastjóra sem störfuðu með mér sem bankaráðsformanni eða bankastjóra sem hóf störf löngu eftir að ég hafði lokið mínum störfum hjá Útvegsbankanum og Hafskipi líka.

Ég harma það, hæstv. forseti, að hv. 5. þm. Reykv. skuli vera farinn úr salnum vegna þess að hans ræða sýnir hve lítið hann fylgist með málum. Hann segir í sinni ræðu að stefna í útlánum hafi verið engin og meinar þá líklega Útvegsbankann því að hann er til umræðu. En ég gæti alveg eins trúað að hann ætti við alla bankana.

Ég vil draga athygli að því að Útvegsbankinn tók strax upp þá stefnu eftir að ég gerðist þar bankaráðsformaður að draga í land með útlán, hætta útlánum til þeirra staða, byggðarlaga, fyrirtækja þar sem bankinn hafði ekki útibú, hafði ekki sparifé fólksins í sinni veltu. Þetta þýddi að Seðlabankinn varð að aðstoða Landsbankann til að yfirtaka þó nokkuð af stórum, þungum, útgerðarfyrirtækjum á 7 eða 8 stöðum víðs vegar um landið. Á sama tíma og Seðlabankinn veitti Landsbankanum þessa fyrirgreiðslu og Útvegsbankinn hafði eilítið meira svigrúm var stofnuð sérstök deild í Útvegsbankanum sem var nýjung þá og hét Átak og er áreiðanlega til enn þá þó minna fari fyrir henni nú en þá. Átaksdeildin var til þess að aðstoða sjúka og fólk sem hafði þurft á endurhæfingu vegna drykkju að halda til þess að komast aftur inn í atvinnulífið til að byggja sig upp. Ég held að þetta hafi verið þörf starfsemi sem bankinn tók upp og var ný stefna í peningamálum. Þá tók bankinn upp ráðgjöf fyrir einstaklinga sem allir bankarnir tóku síðan upp. Það er fleira af þessu tagi. Þetta var gert til að ná til einstaklingsins, ná til litla mannsins og menn geta, sérstaklega þm. sem hafa lagt á sig mikið verk til að kynna sér starfsemi Útvegsbankans, kynnt sér hvað afgreiðslunum fjölgaði í bankanum á þeim tíma. Þannig mótmæli ég því að Útvegsbankinn hafi ekki haft og hafi ekki útlánastefnu þó svo að einu og einu fyrirtæki og þar með Hafskipi mistakist í sínum rekstri.

Ég ætla ekki fara út í að svara hér og nú hv. þm. Guðmundi Einarssyni. Það er svo oft þegar hann talar að hann talar í skeytasendingaformi og reynir að fá fólk til að hlæja. Hann vildi meina að í ríkisbönkunum og þá yfirleitt peningastofnunum ætti slagorðið að vera: „Í ríkisbönkum er ábyrgð engin.“ Hann talaði líka um að skýrslan, sem hér liggur frammi, væri með ólíkindum af skýrslu að vera og lokaþátturinn væri eins og grínleikrit. Ég sá fyrir mér, þegar ég hlustaði á hann, mann í sárum, mann í hálfgerðri sorg, ekki vegna þess að hann hafi meitt sig heldur að náinn ættingi hafi orðið fyrir áfalli. Þá fór ég að hugsa: Hver getur þessi ættingi verið? Það skyldi þó aldrei vera Gróa á Leiti?