17.11.1986
Efri deild: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (745)

125. mál, opinber innkaup

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ekki er mér alls kostar ljóst hvernig þær athugasemdir sem ég gerði við þetta frv. á síðasta fundi hér í hv. deild gátu framkallað þá ræðu sem hæstv. iðnrh. hélt í framhaldi af athugasemdum mínum. Ég tók það skýrt fram í máli mínu að megintilgangur frv. væri af hinu góða, að það að samræma þær aðferðir sem beita skal við innkaup á vegum ríkisins sé augljóslega til þess fallið að auka hagkvæmni í innkaupum. Ef til vill var ræða hæstv. iðnrh. einhvers konar ósjálfráð viðbrögð.

Ég gerði tvær athugasemdir við frv. Sú fyrri var við 5. gr. þess og tók til síðustu setningarinnar í greininni þar sem stendur: „Stofnunin ráðstafar eigum ríkisins sem ekki er lengur þörf fyrir.“

Þetta fannst mér standa þarna heldur óvarðað, ef svo má segja, og óskilgreint vegna þess að það er hvergi að finna, hvorki í greininni sjálfri né í athugasemdum með henni, að stofnunin ráðstafi eigum ríkisins eftir að þar til gerðir aðilar hafi tekið ákvarðanir þar um. Hæstv. iðnrh. taldi að þarna væri munur á eigum annars vegar og eignum hins vegar, að eigur vísuðu til ýmislegs lauslegs, eins og húsgagna og þess háttar, en eignir hins vegar til stærri hluta eins og ríkisstofnana. Ég vil þá benda hæstv. iðnrh. á það að í athugasemd við 5. gr. er orðið „eignir“ notað þó að orðið „eigur“ sé notað í frumvarpsgreininni sjálfri þannig að höfundar frv. gera þarna greinilega engan greinarmun á.

Ég held að aðeins þurfi að bæta um betur hvað varðar þessa grein þannig að augljóst sé annaðhvort af lagagreininni sjálfri eða þá að það komi fram í nefndaráliti frá hv. fjh.- og viðskn. sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar að þessi stofnun komi ekki til með að ráðstafa eigum ríkisins fyrr en þar til gerðir aðilar hafi tekið ákvarðanir þar um.

Í öðru lagi gerði ég athugasemd við 6. gr. frv. og fannst óþarfi og finnst enn að það sé bundið í lagagrein að þeirri meginreglu skuli fylgt að bjóða út kaup á vörum og þjónustu til rekstrar og fjárfestingar eins og þar segir. Ég held að það sé öllu heppilegra að stofnunin hafi frjálsar hendur um að ákveða hvaða aðferð hún beitir hverju sinni og því fráleitt að binda hendur hennar með þeim hætti sem þessi lagagrein kveður á um. Hæstv. fjmrh. benti á það í málsvörn fyrir þessu ákvæði greinarinnar að nauðsynlegt væri að hafa einhverjar ákveðnar verklagsreglur um framkvæmd útboða þegar þau eru viðhöfð. Ég tel þetta réttmæta ábendingu og vandalaust að koma henni við með því að orða þennan hluta greinarinnar á þá leið að sé sú leið farin að bjóða út kaup á vörum og þjónustu skuli tilboða leitað með hæfilegum fyrirvara o.s.frv. Ég mun leggja þessa hugmynd fyrir hv. fjh.- og viðskn. og ef hún hlýtur ekki hljómgrunn þar mun ég flytja brtt. þessa efnis við 2. umr. þessa máls.

Að lokum vil ég taka undir það sem sagt hefur verið í umræðunni um að æskilegt sé að ríkið leggi áherslu á innlendar iðnaðarvörur í innkaupum sínum. Slík innkaupastefna er svo sannarlega í anda hinnar hagsýnu húsmóður og við Kvennalistakonur höfum ítrekað haldið henni fram. Ég fagna því ummælum hæstv. fjmrh. þess efnis að ekki standi til að falla frá þeirri innkaupastefnu sem mörkuð var af Alþingi ekki alls fyrir löngu og felur það í sér að leggja skuli áherslu á að ríkið kaupi innlendar iðnaðarvörur til sinna þarfa. En ég tel jafnframt rétt að athuga hvort koma megi fyrir einhverjum hvata í þessa átt í frv. því að við vitum það af reynslunni að framkvæmdarvaldið ber dálítið misjafna virðingu fyrir ályktunum Alþingis.