17.11.1986
Efri deild: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

125. mál, opinber innkaup

Magnús H. Magnússon:

Virðulegi forseti. Ég sé ekki að í þessu frv. sé heimild fyrir Innkaupastofnun ríkisins til að annast innkaup fyrir sveitarfélögin í landinu. En á undanförnum árum hefur Innkaupastofnunin annast slík innkaup í stórum stíl. T.d. hefur hún séð um kaup á öllu malbiki fyrir sveitarfélögin og ýmsum öðrum vörum eftir beiðni sveitarfélaganna hverju sinni. Sveitarfélögin telja sér þessi viðskipti mjög hagkvæm og hafa lengi gert. Þess vegna spyr ég hæstv. fjmrh. hvort Innkaupastofnun ríkisins verði eftir setningu þessara laga heimilt að annast innkaup fyrir sveitarfélögin eftir beiðni þeirra.